Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, ágúst 13, 2004 :::
 
Hæ,
Allt í einu er hitinn orðinn vandamál hér á landi. Að vísu má segja að hitinn hafi alltaf verið vandamál hér, en þá á ég við skort á honum. Nú er skyndilega orðið nóg af hita og fólk veit ekki hvernig það á að láta út af þessu 10 – 12 gráðum, sem hafa bæst við kuldann og hryssinginn, sem maður er orðinn löngu vanur.
Ekki varð undantekning hjá undirritaðri þegar hitastigið tók skyndilega að hækka, tekið frí í vinnu og haldið út úr bænum, skundað á Þingvöll – ekki til að treysta heit, heldur til að slæpast og liggja úti í heitri sumarnóttinni. Tjaldað við vatnsbakkann, setið á steini og horft á endalausa fegurð vatnsins og fjallahringsins bláa. Hitinn næstum óbærilegur, gufustrókurinn á Nesjavöllum steig beint til himins. Undir kvöldið kom skyndilega aðlögn, það kólnaði nokkuð, síðan kom aftur logn. Minkur spígsporaði á bakkanum, sá var ekki fælinn, hann var eltur með grjótkasti, en lét sér fátt um finnast og faldi sig í hverri gjótunni og holunni á eftir annarri.
Þegar eldrauð sólin gekk undir var gengið til náða - veiðimaður, amma og Rauðhetta lögðust fyrir í bláu tjaldi og þrátt fyrir dýnur og teppi var undirlagið harðara og ósléttara en heima. Allir kúrðu sig undir sæng, Það varð kalt í tjaldinu þótt hitinn hefði verið mikill og stundum of mikill yfir daginn og rakinn settist á allt þar inni.
Létt skrjáf í grasi, gjálfur léttrar öldu og hljóðlátur umgangur heimamanna við vatnið vaggaði okkur í svefn. Fátt rauf kyrrð næturinnar. Þó mátti heyra himbrima og heiðlóu kveðast á.
Að morgni var tjaldið opnað Þingvallavatn blasti við í morgunljóma. Spegilmynd vatns og fjalla runnu saman í eina órofa heild á grunni hins bláhvíta himins. Daggardropar glitruðu á hverju strái, líf fór smátt og smátt að færast yfir umhverfið. Himbrimi var snemma á ferð, renndi sér kröftuglega í kaf hvað eftir annað og birtist eftir dágóða stund langt frá staðnum þar sem hann hafði farið í kaf, hann gekk að störfum sínum af dugnaði og útsjónarsemi. Svanahjón syntu tignarlega út á vatnið, staðnæmdust við fyrsta hólmann og héldu þar kyrru fyrir. Þar voru á ferðinni konungshjón, sem sátu í hásæti og horfðu yfir ríki sitt. Ekki amalegt ríki það – sjálft Þingvallavatn í allri sinni dýrð, þar sem sjá má murtuna vaka.
Þvottapoka dýft í ískalt vatnið, strokið yfir andlit og háls. Þvílíkur munaður. Að þvo sér úr Þingvallavatni. Svalandi og heilnæmt. Ekkert jafnast á við þetta kalda vatn, engin ástæða til að hlaupa í snyrtiaðstöðuna fyrir ferðafólk.
Andapar kom fljúgandi upp að ströndinni og lenti eftir glæsilegt aðflug á spegilsléttum vatnsfletinum og skildi eftir sig tvær langar vaff-laga rákir. Landvörður kom og seldi veiðileyfi og tjaldleyfi. Rukkari mættur fyrir klukkan níu á þessum heilaga stað! Átti það við? Rukkarinn var glaður og kátur, spjallaði um hitann og aðsókn að þjóðgarðinum. Kvaddi brosandi og gekk rólega að næsta tjaldi. Krían flaug fram og aftur í ætisleit, æst og gargandi, sísvöng og gráðug. Rykmý og randaflugur virtust lifa í sátt og samlyndi.
Mávur hélt sig á steini skammt frá landi og fylgdist haukfránum augum með hverri hreyfingu veiðimannsins, sem mundaði kaststöngina í flæðarmálinu og halaði inn hverja murtuna á fætur annarri. Þegar fimm murtur voru komnar á land gerði veiðimaðurinn að aflanum og raðaði honum snyrtilega í mosavaxið hraunið spölkorn frá bakkanum. Síðan klæddist hann vöðlunum og óð út í vatnið með flugustöngina, mávurinn fylgdist spenntur með og fylgdi í humátt á eftir.
Andamamma lagði af stað að heiman með þrjá unga í halarófu á eftir sér, sem syntu stilltir og prúðir allir í röð. Sennilega á leið í leikskólann. Enginn asi eða flýtir þar. Þau liðu áfram létt og leikandi og spegluðust í vatnsfletinum. Himbrimapar kom frá ströndinni tilbúið til að hefja vinnudaginn. Þau voru greinilega ekki eins árrisul og frændi þeirra, sem var búinn að vera á fleygiferð um vatnið frá því eldsnemma um morguninn, kannske þau hafi bara verið í ræktinni. Frændinn synti til móts við þau og heilsaði glaðlega, sagði frá hvar væri best að leita fanga, samhliða renndu þau sér lengra frá landi og köfuðu síðan öll samtímis.
Amman settist niður hjá Rauðhettu og las upphátt í steikjandi sólarhitanum um Harry Potter og Fönixregluna. Allt í einu var gott að geta flúið hitann og horfið um stund inn í dimmar og kaldar vistarverur Harry Potters og vina hans, þar sem engin sól nær að skína og dýr og verur með kalt blóð eru á hverju strái. Ekkert truflaði lesturinn, í fjarska kvað við kvak í fugli og rétt hjá skrjáfaði nokkrum sinnum í laufi. Svanahjónin syntu af stað út á vatnið hægt og virðulega, eins og þau væru á leið í opinbera heimsókn til leiðtoga annars ríkis og hurfu. Sennilega hafa þau sest að hádegisverði með gestgjöfunum.
Veiðimaðurinn öslaði í land, gekk í áttina að tjaldinu og mætti á leiðinni lævísum veiðiþjófi með murtu tilbúna á grillið í kjaftinum. Þegar betur var að gáð reyndist aðeins ein murta vera þar sem fimm stykki höfðu legið stuttu áður. Minkurinn hafði komist í feitt, fann fimm murtur á þægilegum stað, tók eina og eina í kjaftinn og flutti til síns heima. Hann fékk óblíðar móttökur þegar hann kom að sækja þá síðustu, varð hálfhissa á viðbrögðunum, hvarf ofan í gjótu, gægðist upp á nýjum og nýjum stað rétt hjá murtubúðinni og gerði þó nokkrar tilraunir til að komast einu sinni enn í kjörbúðina góðu, sem hafði verið lokað svo skyndilega.
Haldið heim með söknuði úr dýrðaríki Þingvallavatns, þar sem dýrin höfðu gegnt ólíkt veigameira hlutverki en mannsskepnan.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 2:34 e.h.




Powered by Blogger