Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, desember 24, 2009 :::
 
Hæ,
Þegar tal um kreppu og IceSave tröllríður öllu á Kreppuklakanum, þegar fulltrúar (fulltrúðar) fólksins standa í virðulegri pontu Alþingis og kvarta yfir hungri eða lítt fjölskylduvænum vinnustað, þegar almenningur sligast undan lánum sem tekin voru til að standa undir íburði og munaði, er jafnframt tekið til við að undirbúa jól upp á íslenskan máta og ekki slegið slöku við frekar en áður.
Jólin ýta öllu til hliðar og jafnvel hið pólitíska karp víkur fyrir jólunum og undirbúningi þeirra, þingmenn slíðra sverðin, leggja sannfæringu sína til hliðar og fara í jólafrí Verslanir hafa verið opnar fram eftir kvöldi allan jólamánuðinn, auglýsingar með endalausum gylliboðum hafa verið margendurteknar i sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum til að minna á glingur og drasl sem enginn virðist geta verið án. Ekkert vandamál er að fá jólin upp á krít og borga þau á vormánuðum eða með raðgreiðslum ef illa skyldi standa á að halda þau einmitt núna í desember.
Í landi þar sem heimatilbúin kreppa lætur heimskreppuna líta út eins og viðbrunninn hafragraut ber í fréttum hæst sorgarfregnina af talsverðu magni af jólapökkum sem fara áttu til Íslands, en pakkahrúgan tafðist í Ameríku, að sögn vegna slóðaskapar starfsmanna SAS-flugfélagsins, og mun ekki ná til landsins í tæka tíð. Þessi frétt var endurtekin í mörgum fjölmiðlum sem því næst væri um þjóðarsorg að ræða. Samkvæmt mínum útreikningum samsvara þessir pakkar jólagjöfum hjá 10 – 20 íslenskum meðalfjölskyldum, fyrir utan að þeir eru ekki týndir, heldur munu þeir - ef marka má fréttaflutning - berast hinum ólánsömu viðtakendum eftir jólin en þessi þungbæra lífsreynsla hefur þá líklega eyðilagt fyrir þeim hátíðina og jólaskapið. Gott á sú þjóð sem setur þennan vanda ofarlega á blað yfir þær fréttir sem þuldar eru yfir landslýði og víst er að margar þjóðir myndu vilja skipta á kjörum við okkur stæði þeim það til boða.
Með ósk um gleðiríka jólahátíð, hófværð og hófsemi á nýju ári Íslendingum til handa.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:31 e.h.


þriðjudagur, desember 22, 2009 :::
 
Hæ,
Undanfarið ár hefur um margt verið furðulegt enda hefur það liðið í skugga kreppunnar, sem ljóst verður æ skýrar og skýrar að er fullkomlega heimatilbúin og einskær innanhússvandi. Það er ofarlega í huga mér að ótal margir hafa tjáð sig um kreppuna og sett fram ólík sjónarmið, skoðanir og handhægar aðferðir til að þjóðin geti unnið sig út úr henni. Vissulega hafa margar þessara aðferða virst afar skynsamlegar og gagnlegar og ekki úr vegi að koma þeim i gagnið sem fyrst, en það hefur líka komið fram margt miður skynsamlegt og jafnvel fávíslegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þar minnist ég ungrar þjóðþekktrar konu, sem hefur oftar en einu sinni verið forsíðuefni Séð og heyrt og var hún í haust fengin til að koma fram í einhverju „kastljósinu í dag“. Hún ræddi fjálglega um hversu hræðileg fjárlagastefna ríkistjórnarinnar væri og hversu illa væri þar haldið á málum og hversu margt mætti þar betur fara. Þegar hún var spurð hvar mætti helst skera niður benti hún á þróunaraðstoðina, sem þegar hefur verið ráðist harkalega á og var að því mig minnir jólagjöf íslenskra ráðamanna um síðustu jól til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Unga konan tilkynnti að við hefðum ekki efni á því að leggja fram fé til slíkra mála. Ekki hafði stjórnandi þáttarins vit á að spyrja hana um hvort hún vissi í hverju þróunaraðstoð væri fólgin, en mér fannst á þessari stundu sennilegast, að hún héldi að sú aðstoð væri áframhaldandi þróun á mikilvirkum gereyðingar- og sýklavopnum til manndrápa eða frekari fullkomnun langdrægra eldflauga til að miða á heilar þjóðir í þeim tilgangi að útrýma þeim á einu bretti vegna ímyndaðs fjandskapar við leiðtoganna. Þessi kona virtist ekki vita að 95% mannkyns lifa við bágari kjör en íbúar Kreppuklakans og stærsti hlutinn býr við kröpp og þröng kjör, hræðilegan kost, örbirgð, sult og seyru. Hún heldur sennilega að allir búi við íslensk eða vestræn kjör og ef til vill er hart í ári hjá henni og hennar fjölskyldu þar sem hún hefur nú í kreppunni fest ásamt eiginmanni sínum kaup á tveim glæsivillum, þannig að með þeirri sem fyrir var eiga þau nú þrjár slíkar, sem væri hægt að nota sem félagsheimili í smáþorpi ef í harðbakkann skyldi slá fyrir alvöru.
Nískuleg þróunaraðstoð, skorin við nögl, skilur enn á ný eftir sig myndina af vannærða barninu með augun barmafull af tárum þar sem það situr skilningsvana og dauðskelft í forinni yfir líki móður sinnar - óttaslegið vegna örlaga sinna og framtíðar. Ef til vill er það óttaslegið vegna þess að vestrænn ljósmyndari í fötum í felulitum otar að því rándýrri Nikon-myndavél eins og skotvopni í leit að mynd af eymdinni í sinni sorglegustu mynd i þeim tilgangi að vinna til frægðar og peningaverðlauna - óttaslegið vegna þess að í honum sér barnið tákn þess hluta mannkyns sem mergsýgur hinn örsnauða þegna sem á að njóta þróunarhjálparinnar frá þeim sem betur mega sín, sem svo miklu betur mega sín.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:58 e.h.




Powered by Blogger