Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, ágúst 22, 2003 :::
 
Hæ,
Það hefur aðeins dregið úr annríkinu í vinnunni hjá mér, a.m.k. síðustu fjóra tímana. Ég er að vísu búin að búa til fjallháan skjalahlaða á skrifborðshorninu hjá mér, sem bíður mín, þangað til ég klára að flokka hann, sortera, eyða og svara. Eftir hádegið er ferðinni heitið til Akureyrar í heimsókn til mömmu. Veðrið er ekki amalegt hér sunnanheiða, sól og blíða og svo er veðrið á Akureyri alltaf fyrsta flokks eins og allir vita.
Ættingjar og vinir eru aðeins farnir að komast í gang með bloggið eftir sumarfríin. Hildigunnur og Jóhanna standa sig verst í bili - Hildigunnur alltaf með nörda-stigið og Jóhanna stöðugt með fýluferð á Laugarnestanga. Það er orðið hálfdapurlegt að opna þeirra síður og vonandi fer að gerast eitthvað krassandi í þeirra lífi. Þá er Silja alltaf með hneisuna á fullu. Palli hefur ekki bloggað síðan fyrir Portugal-ferð. Ég varð virkilega fegin þegar ég þurfti ekki lengur að lesa hvers vegna Steinar kaus að fylgja sósíalisma og fékk í staðinn innsýn í lífshamingju veiðimannsins í Noregi. Þá líst mér vel á bloggið hjá Gunnu frænku Ég á bara eftir að setja hana sem tengil á síðuna mína, svo ég geti tékkað á henni samhliða hinum. Hver og hver og vill? Gunna á ábyggilega eftir að reynast hinn skemmtilegasti bloggari, orðheppin og fyndin, eins og hún á ættir til. Góð viðbót í fjölskyldubloggið. Ég nenni ekki að hafa skoðun á hundamálunum, sem virðast henni ofarlega í huga þessa dagana. Snerra var ekki svona illa upp alin!
Afmælið hjá Beigó heppnaðist vel, góðar veitingar, skemmtilegt fólk, sérstaklega smáfólkið, sem skemmti sér bara nokkuð vel og reifst stíft um tannbursta,sem vel má muna sinn fífil fegurri. Þau voru öll búin að bursta á sér tennurnar, tunguna og góminn með honum í lokin. Þá gerði syngjandi og spilandi hundur í eigu Agnetu gríðarlega lukku og Gabríel sýndi frábæra break-takta við söng hans og undirspil. Sumir af fullorðna fólkinu voru ekki eins hrifnir af tónlistinni, sem kom úr innyflum hundkvikindisins og loks var voffi settur afsíðis.
Lýk vinnudeginum hér með.
Góða skemmtun í kvöld hvar sem þið verðið.
Kveðja,
Bekka



::: posted by Bergthora at 3:18 e.h.


þriðjudagur, ágúst 19, 2003 :::
 
Hæ,
Ég er komin aftur í vinnu fyrir rúmri viku eftir sumarfrí. Hef ekkert komist til að blogga, alltaf brjálað að gera og keyrði gersamlega um þverbak í gær, þegar ég komst rétt með herkjum á snyrtinguna. Það lá við að ég yrði að stelast þangað!
KASTLJÓS
Snyrting/klósett - vel á minnst. Tveir fulltrúar hljómsveitarinnar Trabant voru í Kastljósi í gærkvöldi - báðir á kúk- og piss-stiginu, sem virðist erfitt fyrir marga að komast yfir - sérstaklega karlkyns verur. Sumir eru á þessu stigi allt lífið. Ég átti bara von á að gestirnir myndu pissa eða kúka í kastljós-stólana í beinni útsendingu til að koma almennilega og áþreifanlega frá sér því sem þeir vildu koma á framfæri. Ráða þáttastjórnendurnir engu eða láta þeir bjóða sér hvaða kjaftæði sem er? Fannst þeim þessi japanska klósettumræða eiga heima þarna, fannst þeim hún uppbyggileg og málefnaleg eða er þetta fólk á sama lágkúrustiginu og viðmælendurnir? Var það þetta sem þátturinn átti að snúast um? Dettur þeim sem eiga að stjórna þættinum aldrei í hug að skipta um umræðuefni, beina umræðunni að öðru? Það var greinilegt að afrek þessarar hljómsveitar voru það lítilfjörleg að ekki var hægt að skapa neina umræðu um þau. Þess vegna finnst mér að hefði átt að bjóða einhverju skemmtilegra fólki í Kastljósið. Það er til fullt af gáfuðu og hæfu fólki í þjóðfélaginu, sem vinnur að merkilegum málefnum og skilur eftir sig skapandi verk. Það eru líka til ágætis þáttastjórnendur, en þeir eru því miður ekki margir.
AFMÆLI
Ég er búin að fara í þrjú afmæli á örfáum dögum og er að fara í fjórða afmælið í kvöld. Beigó er 27 ára í dag - Til hamingju með afmælið, Bergþóra mín! Ég er búin að setja m-kveðjuna annars staðar!
Þórdís bauð í 23 ára afmæli og kveðjuhóf á föstudagskvöldið. Á borðum voru snittur, sem gestgjafinn hafði sjálfur séð um að hanna, en stolið hugmyndinni frá Jóa Fel. Þórdís frænka var með dimmblá augu, dökka lokka, dreyminn svip og yndisþokka í afmælinu sínu. Þarna hittum við nokkra úr fjölskyldunni, frænfólk okkar og Þórdísar.
Á laugardaginn var sjö ára afmæli Örnu Pálsdóttur. Ég kom ekki tölu á börnin í afmælinu, en Hrafnhildur sagði að það hefðu verið mikil afföll - bæði því miður og líka til allrar guðs lukku. Ljúffengar veitingar að vanda og skemmtilegt fólk. Afmælisbarnið hafði fengið fatabunka í afmælisgjöf og m.a. handprjónaða peysu, en slíkar sjást ekki lengur. Þvílíkt listaverk. Ég vildi að ég nennti að prjóna svona peysur ... og gæti það!
Í gærkvöldi fórum við í afmæli til Geirs Friðgeirssonar. Ég man ekki einu sinni hvað hann er gamall. Hann er búinn að eiga afmæli svo oft. Þau voru rétt búin að kveðja börn og barnabörn þegar við komum og voru að strjúka af sér svitann eftir þær heimsóknir.
SKEMMTILEGIR NÁGRANNAR
Þau hjón, Geir og Kolla, eiga ýmsa skemmtilega nágranna. Einn hélt afmælisboð fyrir barnið sitt nýlega og næsta morgun voru allar öskutunnur hússins yfirfullar og ekki hægt að loka þeim. Þegar að var gáð voru þetta aðallega blöðrur, með áletruninni "2ja ára", allar uppblásnar. Þetta gáfnaljós er sonur alþingismanns og fyrrum ráðherra og Guð má vita hvað.
Aðra heillandi nágranna áttu þau tímabundið eða um nokkra vikna skeið. Þessir nágrannar bjuggu í bíl fyrir utan húsið hjá þeim. Þar héldu þau nokkuð kyrru fyrir, skutust aðeins í apótek og út til að gera þarfir sínar. Dag nokkurn spurði húsbóndinn í bílnum vegfaranda nokkurn hvaða dagur væri. Það var föstudagur. Nei, hann vildi fá að vita mánaðardaginn. Það var 1. ágúst. Þá var greiðu rennt gegnum lubbann, sparibrosið sett upp og síðan skokkað í næsta bankaútibú til að sækja bæturnar, sem saklausir skattgreiðendur strita fyrir nótt og nýtan dag. Þá var farið í ríkið í tilefni dagsins. Þennan dag þurfti ekki að fara í apótek til að kaupa brennsuspritt, kannske bara til að kaupa einhverjar töflur til að gera áhrifin enn meira krassandi. Geir og Kolla gengu síðan fram á nágranna sína úti á Eiðistorgi þann hinn sama dag með pokann úr ríkinu, en það var ekki verið að hafa fyrir því að skreppa inn í Hagkaup til að kaupa í matinn, enda skiljanlegt þar sem erfitt er að elda í fólksbíl. Nú er þetta einstaka par, sem þau nutu samvistum við um stundarsakir flutt, sem sagt búið að skipta um lóð eða ætti ég að segja bílastæði. Það gerðist eiginlega strax eftir að tengdasonur Geirs og Kollu kom úr sumarfríi. Hann er lögga! Kannske að þau búi núna við Kjarvalsstaði?
BER OG SVEPPIR
VIð fórum á sunnudaginn og tíndum smávegis af bláberjum og heilmikið af sveppum. Veisla um kvöldið. Þá minntist ég þess að Gunna frænka hafði hringt á laugardagskvöldið og spurst fyrir hvernig ætti að elda lerkisveppi, sem þau höfðu tínt því sem næst út um eldhúsgluggann. Ég gaf henni uppskrift. Það hefur ekkert heyrst frá þeim síðan. Ætli sveppirnir hafi ekki verið í lagi...
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:11 e.h.




Powered by Blogger