Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, október 08, 2004 :::
 
Hæ,
Sigrún Sól er búin að fá neitun númer tvö á undanþágu. Alltaf er níðst á þeim sem minnst mega sín. Goggunarröðin heldur sér. Ríkið goggar í sveitarfélögin, sveitarfélögin gogga í kennara, kennarar gogga í fatlaða, sem eru neðstir og geta ekki goggað í neinn. Nú er undanþágubeiðni númer þrjú komin af stað og við bíðum öll mjög bjartsýn og vongóð.
Vinkona mín bað Guð að gefa sér bíl. Hún fékk bíl næsta dag. Svona er Guð góður. Eftir nokkra daga bað hún Guð um peninga til að borga bílinn. Guð er ekki búinn að svara henni enn þá, en við efumst ekki um að hann sinni þessu erindi hennar, enda getur hún ekki bíllaus verið. Ég ætla að slá tvær flugur í einu höggi og biðja Guð að gefa mér flottan bíl, sem ég þarf ekki að borga neitt fyrir.
Linda hélt partý í gær. Það var yndislegt að koma til hennar. Hún er frábær gestgjafi og kokkur. Allt er svo fallegt og fínt hjá henni, einhver vinur hennar málaði íbúðina hennar næstum óbeðinn. Ég var að reyna að kynnast honum í partýinu, en komst ekki að fyrir kvennafans, sem var að bjóða honum að mála svefnherbergin sín – alveg frítt. Svo kom organistinn í Bústaðakirkju og sagði fullt af skemmtilegum bröndurum, hló smitandi hlátri og spilaði undir söng. Hann lét okkur syngja: “Ég vil líkjast Daníel og ég vil líkjast Rut”, sem jafnréttisnefnd Þjóðkirkjunnar er búin að taka úr barnasöngbók kirkjunnar, svo að börnin fái ekki einhverjar ranghugmyndir um hlutverk kynjanna. Rut er nefnilega væn og góð, en Daníel er fylltur hetjumóð. Greinilega samviskusamt fólk í nefndinni og vandanum vaxið. Skyldi þessi umfjöllun hafa tekið langan tíma. Skyldu þau hafa verið á launum?
Maðurinn á forsíðu DV í dag hefur hótað mér lífláti af því að ég var á annarri skoðun en hann. Ætti ég að láta Sýsla í Kópavogi vita af því, eða er honum alveg sama? Gæti ég kannske komið ofstopamanninum neðst í goggunarröðina með þvi að klaga hann?
Svo er líka skemmtilegt fólk í DV í dag. Ragnheiður er í DV, kurteis og hæversk.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 6:02 e.h.


fimmtudagur, október 07, 2004 :::
 
Hæ,
Fyrst ég er nú búin að ráðast svo harkalega á kennara og leggja á þeirra herðar stóran hluta ábyrgðarinnar á því, sem aflaga fer í þjóðfélaginu um þessar mundir, verð ég aðeins að ráðast á einhverja fleiri. Þá er líklega ágætt að byrja á því að minna á að það var ríkisstjórnin undir forystu núverandi utanríkisráðherra, sem flutti grunnskólana frá ríkinu til sveitarfélaganna án þess að tryggja þeim tekjustofna til að standa undir. Þar að auki hafa sveitarfélög orðið af miklum tekjum vegna tilkomu einkahlutafélaga. Svo finnst mér óþarfi af bæði forsætisráðherra og menntamálaráðherra að láta sem þeim komi kjaradeilda kennara ekki við og sé ekki á þeirra valdi að leysa hana. Hefur þetta lið engin völd?
Ég er að hugsa um að sleppa því að ráðast á forsetann og hæla honum frekar fyrir hversu fallegar kveðjur hann sendi Davíð Oddssyni við setningu Alþingis. Mér finnst aftur á móti, að Dorrit hefði ekkert þurft að skipta sér að skyrinu og áhorfendunum. Löggan bægði henni frá lýðnum, sem stóð kaldur og hrakinn á Austurvelli. Hún hefur líklega haldið að verið væri að kynna nýja skyrtegund og ætlað að gefa eiginmanninum að smakka í kvöldmatinn. Það er nú ekki einleikið, hvað hún iðar af ánægju í forsetafrúardjobbinu. Mikið vildi ég að fleiri hér á landi hefðu jafn mikla ánægju af því starfi sem þeir gegna. Davíð talaði líka fallega um forsetann og ekki annað að skilja á máli hans en þeir væri hinir bestu vinir og kammeratar. Ég vona að þeir geti haldið áfram að tala saman á þessum nótum í framtíðinni og hætt að hnýta og hreyta hvor í annan. Þjóðin á það ekki skilið af þeim.
Svo fannst mér Halldór Blöndal ekkert ýkja skemmtilegur við setningu elsta löggjafarvalds í heimi. Allt í einu eru valdhafar orðnir ákaflega hræddir við málskotsrétt þann sem forseti ræður. Þetta hefur hingað til ekki verið neitt vandamál og manni frekar heyrst, að við værum stolt af því að hægt væri að skjóta málum til forsetans, sem aftur leggði slík mál í hendur þjóðarinnar. Það er greinlegt að valdhafar eru á nálum um að almenningur fái að segja skoðun sína í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þeirra sporum myndi ég ekki minnast á þetta, vegna þess að í vor lá algerlega ljóst fyrir, að þjóðin var að miklu leyti á móti fjölmiðlafrumvarpi þáverandi forsætisráðherra eins og það var sett upp. Þjóðaratkvæðagreiðsla þá hefði verið ríkisstjórninni verulegt áfall og hvalreki fyrir stjóranrandstöðu.
Þá er ég auðvitað brjáluð út af því að Jón Steinar skuli vera orðinn hæstaréttardómari. Ég er viss um að hann er fínn lögmaður, (lesist harðsvíraður og illskeyttur), og ég myndi hiklaust ráða hann ef ég þyrfti að klekkja verulega á einhverjum. Mér finnst hann bara að hafa tjáð sig af of mikilli hlutdrægni um ýmis samfélags- og þjóðarmál. Hann hefur tekið hreina pólitíska afstöðu opinberlega í ótal málum og ekki haft fyrir að leyna því.
Þá brenn ég í skinninu að fá að vita hvað Geir H. Haarde hefði gert við bréf frá andstæðingum Jóns Steinars, hvort hann hefði ekki lesið það í tætlur og sett stuðningsmennina á svartan lista til að grípa til við viðeigandi tækifæri, t.d. þegar kemur að stöðuveitingum og útnefningum.
Gersamlega óþolandi með Íslandspóst. Gunna frænka var að æsa sig út af hinum. Íslandspósti tókst líka að klúðra útsendingu boðskorta pínulítið hjá mér. Kom ekki boðskorti til eins skemmtilegasta mannsins sem ég þekki og hefði verið svo gaman að hafa afmælinu mínu, alger stuð-og danspinni. Ef ekki er hægt að koma öllum boðskortum til skila geta þessir asnar hjá Íslandspósti þá ekki sleppt einhverjum leiðindapúkum, sem enginn saknar?
Annars má segja að þeir sem reka póstinn hafi ávallt haft það markmið að skila. Þegar Póstur og sími var í eigu ríkisins var markmiðið að koma öllum pósti til skila á sem skemmstum tíma, hjá frjálshyggjunni er markmiðið að skila sem mestum hagnaði í eigin vasa.
Svo leggur Þura frænka til að ég birti síðasta svartagallspistil minn á síðum Morgunblaðsins sjálfs. Fyrirgefið, en Mogginn á það til að fara svo ferlega í taugarnar á mér og eina sem þar hefur birst eftir mig eru minningargreinar um úrvalskonur og drengi og mig grunar að þessar tilfinningar séu endurgoldnar í sama anda.
Ég man ekki eftir fleiru í bili, sem hrjáir taugarnar á mér, nema ef vera kynni lélegri kunnáttu landsmanna upp til hópa í móðurmálinu.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 5:50 e.h.


mánudagur, október 04, 2004 :::
 
Hæ,
Ekki hefur skánað í mér hljóðið út af verkfalli kennara. Sigrúnu Sól var neitað um undanþágu, en aftur á móti geta kennarar, sem voru búnir að skipuleggja náms- og kynningarferð til útlanda á verkfallstímabilinu, farið sína ferð eins og að drekka vatn. Mér finnst þeir vera að fremja grimmilegt verkfallsbrot með þessari námsferð, að þetta sé hið sama og sækja vinnu, nema að hér fáist hrein og bein viðurkenning á því sem margir hafa haldið, en aldrei hefur fengist staðfest: Náms- og kynningarferðir eru svallferðir.
Sigrún Sól er í sjöunda bekk og skólagangan stendur frá klukkan 8:10 á morgnana til 13:00. Einu sinni í viku er hún til 13:40. Það er ekkert meira í boði í skólanum. Engin lengd viðvera. Ekkert.
Hún er í skammtímavist einu sinni til tvisvar í mánuði í þrjá til fjóra daga. Hún átti skammtímavist frá kl. 16:00 á mánudegi 20. september til kl. 12:00 á fimmtudegi 23. september, sem sagt fyrstu dagana í verkfallinu. Skammtímavistin ákvað að styðja kennara í verkfalli og lét sækja barnið eða keyra það heim á kennslutíma samkvæmt stundaskrá. Þetta var þegar verkfallið hafið varað í rúman sólarhring.
Þegar ég hugsa um aðbúnað samfélagsins sem lýtur að Sigrúnu Sól, finnst mér ég ekki búa í velferðarþjóðfélagi, heldur í einhverju samfélagi, sem kemur þetta mál ekki við. Á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi starfar hópur sérfræðinga, sem hefur náð undraverðum árangri í að bjarga fyrirburum frá dauða og í umönnum þeirra á allan hátt. Þeir gera t.d. hjartaaðgerðir á börnum sem eru 500 grömm eins og ekkert sé til að bjarga lífi þeirra og gera þau að þegnum velferðarþjóðfélagsins, sem borgar læknunum vel fyrir aðgerðina. Hróður sérfræðinganna fer víða um lönd og erlendir læknar og hjúkrunarfólk koma til að kynna sér og skoða hvernig þessi kraftaverk eru unnin og fer héðan kunnáttu og þekkingu ríkari. Eins gott að stéttin sé ekki í verkfalli meðan á þeirri náms- og kynningarferð stendur.
Sérfræðingahópurinn tekur sér óbeðinn það vald að halda lífi í börnum, sem eiga varla lífsmöguleika og leggja óendanlegar raunir, vinnu og fyrirhöfn á einhverja fjölskyldu úti í bæ, sem þeir þekkja hvorki haus né sporð á. Nú veit ég að þeir sem hafa eignast fötluð börn elska þau heitar en öndina í eigin brjósti og eru reiðubúnir að leggja á sig endalausa fyrirhöfn fyrir þessi börn og það án nokkurra skilyrða, en ég veit líka að sú vinna og álag koma á engan hátt niður á sérfræðingunum á sjúkrahúsinu, sem hefur tekist afbragðs vel upp í rannsókna- og tilraunastarfsemi sinni og baða sig í aðdáun starfsmanna úr erlendum heilbrigðisgeira.
Þegar búið er að gera kraftaverkið á sjúkrahúsinu hefst eitt allsherjar kraftaverk hjá fjölskyldum fötluðu barnanna, þar sem foreldrar, stjúpforeldrar, systkyni, afar, ömmur og jafnvel vina- og frændgarður leggur á sig andlega og líkamlega raun til að komast gegnum hvern og einn dag, er á vakt nótt sem nýtan dag og síðast en ekki síst - það þarf að reka á eftir hverju viðviki samfélagsins. Það má heita næstum full vinna að gæta hagsmuna hins fatlaða og fá þá þjónustu sem honum er ætluð, ef þjónustu skyldi kalla. Þar virðist kurteisi og hógværð ekki skila neinum árangri, heldur er vænlegast að missa stjórn á sér, kalla allt og alla ónefnum og hreyta út úr sér fúkyrðunum. Með slíkri framkomu næst frekar skárri árangur.
Til að gera langa sögu stutta – ef við rekum og greiðum fyrir sjúkrahús, sem hefur á sínum snærum starfsfólk, sem getur gert kraftaverk á litlum, veikum börnum, svo þau megi halda lífi, ættum við þá ekki að sjá til þess að fjölskyldum þessara barna sé kleift að halda kraftaverkinu áfram með þeirri aðstoð frá samfélaginu, sem hverri og einni fjölskyldu er nauðsynleg.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 5:41 e.h.




Powered by Blogger