Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, janúar 08, 2009 :::
 
Hæ,
Það er löngu búið að ákveða hvaða þegnar Kreppuklakans sleppa undan klóm kreppunnar og hverjir munu bera hinar þungu byrðar hennar. Það er náttúrulega almenningur, hinn almenni launþegi, daglaunafólkið með breiða bakið, gamalmenni og sjúklingar, sem koma til með að standa að fullu undir klafanum í margar kynslóðir. Vesæl og hriktandi gamalmenni eru flutt nauðungarflutningum milli stofnana, sjúklingar greiða fyrir innlögn á sjúkrahús, fólk á að sækja sjálfsagða heilbrigðisþjónustu milli byggðarlaga og leikskólagjöld í borginni eru hækkuð til að stoppa í götin. Það er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, á gamalmenni og börn. Hvað kostar þessi sparnaður? Hefur einhver reiknað það út?
Aftur á móti var tónninn gefinn mjög snemma hvað varðaði lausn undan skuldahelsinu. Þar nutu náðarkjara bankastýra, sem var svo heppin að gerð voru mistök í vinnslu af hálfu bankans - ég get lofað ykkur því að hún hefði látið leiðrétta þessi mistök og fengið greiddan hagnaðinn, ef mál hefðu skipast svo - starfsmenn á efri þrepun annars ónefnds banka nutu örlætis við úrlausn síns vanda, Milestone-eigendurnir fengu veglega gjöf og sjávarútvegurinn á að fá skuldir sínar felldar niður.
Hvað með bændur, hvað með smáfyrirtæki og hvað með okkur, fulltrúa almennings í þessu landi? Jú, við getum bara étið skít og mér fyndist hreinlegast af ríkisstjórninni að segja okkur það berum orðum í stað þess að fara stöðugt eins og köttur í kringum heitan graut.
Lögfræðingur sem vann hjá FME í nokkur ár stígur fram í Mogganum í dag og lýsir hvaða viðtökur starfsmenn FME hlutu hjá bönkunum þrem, þar sem tekið hafi á móti þeim her af lögfræðingum og yfirmönnum, sem hafi rauðir af reiði mætt starfsmönnum FME af fullri hörku. En ég hef líka heyrt, að starfsmenn FME eigi til að sýna smærri aðilum talsvert vægðarleysi og verulega smámunasemi, líklega á þeim stöðum, þar sem menn hafa ekki á að skipa harðsnúnu liði illskeyttra lögfræðinga. Lögfræðingurinn klykkti svo út með því að launin í FME hefðu ekki haldist í hendur við launin í bankakerfinu og því ekki tekist að halda lykilstarfsmönnum. Þeir hafa líklega horfið í störf til bankanna og þá tekið á móti fyrrverandi samstarfsfólki sínu rauðir af reiði og með fullri hörku. En það er vert að muna að það fara einhverjar milljónir á dag í þessa stofnun - frá engum öðrum en hinum örlátu og vellauðugu skattgreiðendum Kreppuklakans - og að þessi stofnun er nú með á sínum snærum mýgrút af sérfræðingum á útseldum taxta. Það virðast vera til peningar fyrir sliku. Af hverju ráða þeir ekki fólk til starfa?
Svo er nýjasta útspilið nefnd sem á að rannsaka bankahrunið. Líklega gott og þarft verkefni. En það fyrsta sem heyrist frá nefndinni er að hún ætlar að leita til almennings eftir upplýsingum og lögð er áhersla á mikilvægi þess að almenningur veiti nefndinni liðsinni í störfum sínum. Einmitt! Hvernig væri að þessi nefnd byrjaði á einhverjum öðrum en almenningi, sem hefur ekkert til saka unnið og veit hvorki í þennan heim né annan? Hvað ætti almenningur að vita? Réði hann einhverju í bönkunum fyrir hrunið. Höfum við þegnar og smælingjar þessa lands fengið einhverjar upplýsingar umfram aðra? Nei, ráðamenn hafa engar upplýsingar veitt okkur, bara talað við okkur eins og við óþekk smábörn. Hvernig væri að nefndin byrjaði á seðlabankastjóra og píndi hann hreinlega til sagna í bókstaflegri merkingu? Þykist hann ekki vita eitthvað meira en aðrir?
Það tók ekki nema nokkra klukkutíma fyrir Símann að fá samkeppniseftirlitið til að fara í gögnin hjá samkeppnisaðilanum. Ansi voru þeir snöggir. Hvað skyldi liggja að baki? Kannske það hver samkeppnisaðilinn er?
Mig langar í þessu sambandi að minna á að fyrir nokkrum dögum var skýrt frá því í fréttum að frestað hefði verið aðgerðum í olíusamráðsmálinu. Þeir, sem þar stóðu fyrir því að okra á okkur, eiga að sleppa. Það liggur ekkert á að hegna þeim, enda eru þeir þóknanlegir þeim öflum, sem ákveða hverjir eru sekir og hverjir saklausir - eða réttar sagt - hverjir eiga að sleppa og hverjir eiga að bera skaðann. Þórólfur tók skellinn á sínum tíma og það nægði, allt datt í dúnalogn á augabragði. Hann skal standa uppi með olíublettinn meðan forstjórarnir þrír sitja með gljáfægðan geislabaug og sleppa undan sök.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 10:04 e.h.




Powered by Blogger