Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, mars 06, 2006 :::
 
Hæ,
Þá er nú allt komið í góðar hendur í þessu þjóðfélagi. Siv sjúkraþjálfari er orðin heilbrigðis- og tryggingaráðherra og Alfreð Þorsteinsson stjórnar byggingu hátæknisjúkrahúss. Valinn maður í hverju rúmi. Alfreð verður kannske bara líka yfirlæknir þegar hátæknispítalinn verður opnaður. Ég bara spyr Hvar væri þetta þjóðfélag án Framsóknarfokksins?
Ég fór í Hagkaup í Smáralindinni fyrir helgi til að kaupa vörur af skárri gerðinni í matinn. Aldrei skal ég aftur kaupa hætishót í þessari okurholu, sem Hagkaup er. Vörurnar voru illa verðmerktar - ég fann fimm vörutegundir á smásvæði,sem ekki var hægt að finna verð á, þótt ég læsi hverja verðmerkningu á nærlægum hillum - og verðið var upp úr öllu valdi miðað við Bónus og Nettó. Vara sem ég kaupi í Nettó á kr. 317 kostar kr. 589 í Hagkaup. Munurinn er kr. 272. Hér er um að ræða þurrvöru með margra ára geymsluþol, sem ekkert þarf að gera fyrir nema setja upp í hillu og bíða þess að einhver komi og stingi henni fimlega í innkaupakörfuna og greiði fúslega fyrir. Afföll af þessari vöru eru engin.
Ekki nóg með það - heldur var salathaus, sem ég fjárfesti í og átti að notast í dýrindis hrásalat, gersamlega ónýtur og morkinn innan, þegar hann var sneiddur í tvennt með búrhnífnum er heim var komið. Sama var uppi á teningnum með mangó og avocado. Mér var skapi næst að fara með vörurnar til baka og grýta þeim í verslunarstjórann eða eigendurna. En ég stillti mig um það og ákvað að heiðra þessa verslun sem minnst með minni nærveru í náinni framtíð.
Áfram heldur Idolið. Ég hélt að Ingó mundi detta út, en þá hvarf Nana af vettvangi, þrátt fyrir að hafa dyggan stuðning tíu árganga úr MH og samtakanna '78. Dugði greinilega ekki. Égt sé ekkert eftir henni, mér fannst hún alltof ánægð með sig og sigurviss. Nú er bara að finna einhvern annan nógu sjálfsánægðan í hópnum til að láta fara í taugarnar á sér. Ég held að það sé ekki vandi. En ég hafði ekki fyrir því að hringja og greiða atkvæði í þetta skipti frekar en fyrri daginn. Sé til hvað ég geri næst.
Fór á opnun málverkasýningar hjá Hafsteini M á laugardaginn hjá Sævari K. Flott sýning hjá Hafsteini M - hvet alla til að fara og helst að kaupa sér verk ef eitthvað verður eftir. Flott búð hjá Sævari K - of dýr.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:03 e.h.




Powered by Blogger