föstudagur, febrúar 17, 2006 :::
Hæ,
Ég er búin að horfa samviskusamlega á evróvisjón-spurningakeppnina í ríkissjónvarpinu og lagasamkeppnina. Í kjölfar þess gæti ég skrifað marga og ítarlega pistla um lögin, flytjendur, höfunda, kynna og skipulagsnefnd. En ég ætla að einbeita mér í dag að einum þætti í þessari veigamiklu umgerð um 24 lög, sem öll eiga það sammerkt að ég man ekki eina einustu laglínu úr nokkru þeirra eftir að hafa setið límd við skjáinn í von um að eitthvert lagið næði inn að mínum innstu hjartarótum og ég gæti sungið það næstu daga, gert það að mínu eftirlætislagi, sem sagt verið með það á heilanum og bundið miklar og bjartar vonir við að það sigraði í Grikklandi þegar vora fer. En látum það liggja á milli hluta og einbeitum okkur að málefni dagsins.
Ég verð að segja að ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um stjórnendur spurningakeppninnar. Hver velur þetta fólk? Stelpan vandar sig afskaplega í einu og öllu, bítur á vörina í einbeitingu og ber hvert orð svo skýrt og hægt fram að það verður næstum því tilgerðarlegt og væmnislegt. Strákurinn er aftur á móti varla talandi á íslensku og ábyggilega ekki nokkru tungumáli, kannske gæti hann náð árangri í bendingamáli. Svo er hann með vægast sagt mjög óáheyrilegan málróm og mér finnst að hann sé ekki til neins nýtur nema kannske til að leika Ketil skræk í dreifbýlisuppsetningu á Skugga-Sveini. Þá mætti líka flikka aðeins upp á hágreiðslu og klæðaburð dómarans, jafnvel gefa honum árskort í líkamsræktarstöð.
Og ég spyr enn. Hver sér um leikmynd og leikmuni í þessu rándýra gæluverkefni örfárra manna, sem leika sér með skattpeningana okkar eins og þetta sé upphæð á borð við vasapeninga nokkurra grunnskólakrakka? Voru ekki til peningar fyrir fægiklút til að pússa gítarinn sem stelpan leikur á þegar þáttastjórnendurnir láta ljós sitt skína og syngja og spila gömul evróvisjón-lög sem er einn spurningaliðurinn. Hafið þið séð hvað gítarinn er kámugur og illa hirtur? Ef ekki, þá hvet ég ykkur til að skoða það í síðasta þættinum. Vona svo sannarlega að gítarnum bregði þar fyrir. Sannir tónlistarmenn, sem bera virðingu fyrir list sinni og hljóðfæri, fara ekki svona með hljóðfærin sín. Hafi milljónirnar verið uppurnar þegar kom að þessum hluta þáttarins, gat þá ekki einhver komið með tusku að heiman, eins og konur af minni kynslóð gera gjarnan í sparnaðarskyni?
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 11:40 f.h.