miðvikudagur, október 15, 2003 :::
Hæ,
Ég las fyrir nokkru í Fréttablaðinu að veitt hefðu verið vefverðlaun Gneistans. Ungur og frumlegur strákur tók upp hjá sjálfum sér að veita Gneistann vegna þess að honum fannst vefverðlaun sem veitt voru hér á landi falla í ófrjóan jarðveg og næstum steingeldan. Hann kannaðist strax hreinskilnislega við að hann skammaðist sín ekki neitt fyrir að láta vini sína sitja fyrir þegar að verðlaunaúthlutun kæmi og lét koma skýrt fram að þeir væru vinstri sinnaðir. Það er gaman að svona opinskárri játningu og líklega ákaflega sjaldgæft að úthlutunarnefndir eða aðrir kannist við að klíkuskapur sé viðhafður. Ekki dettur nokkrum manni í forsætisráðuneytinu að kannast við að klíkuskapur sé nokkurn tíma í gangi hjá þeim og allra síst þegar kemur að húsi Nóbelskáldsins, svo eitt lítið dæmi sé tekið. Væri ekki nær að þeir segðu án þess að blikna né blána: Jú, við leyfum okkur þóknanlegum að gramsa í öllu á Gljúfrasteini og hleypum engum inn sem hefur hlotið Gneistann. Látið okkur svo í friði! Svo væri hægt að skella aftur hurðinni á Stjórnarráðinu í beinni útsendingu. Þetta væru skilaboð sem allir gætu skilið útskýringalaust.
Gneistinn á lof skilið fyrir hreinskilnina, en mér finnst þó að hann hallist fullmikið í átt til VG í úthlutunum sínum. Mér finnst hann mætti alveg láta svo sem eins og eina og eina Samfylkingarkonu njóta verðlauna.
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 1:26 e.h.
mánudagur, október 13, 2003 :::
Hæ,
Enn ein vikan er hafin – starf er varla hafið á mánudagsmorgni þegar vikan er liðin áður en nokkur fær rönd við reist. Mér finnst tíminn alltaf líða hraðar og hraðar, vera eins og hjól sem fer niður brekku. Það síeykur ferðina, hendist yfir stokka og steina og stansar að lokum á jafnsléttu. Þannig taka allar ferðir enda.
Í þessu sambandi datt mér í hug að á næsta ári lyki öðru kjörtímabili Ólafs Ragnars í forsetaembætti. Sjálfsagt horfa ýmsir mætir menn löngunaraugum til þessa feita og eftirsóknarverða embættis, en aðeins einn hefur enn sem komið er tilkynnt um forsetaframboð. Ekki gat ég skilið fréttina betur en að um hreint grínframboð væri að ræða. Nú hafa slík framboð oft skotið upp kollinum hér á landi og þegar vel hefur tekist til hafa þau orðið til að lífga verulega upp á kosningabaráttuna og orðið almenningi tilefni til hláturs og skemmtunar. Því er hins vegar ekki að neita að þó nokkur þeirra hafa fallið um sjálf sig vegna húmorleysis einhverra frambjóðenda, sem hafa tekið sig alltof hátíðlega.
Fréttablaðið birti viðtal við frambjóðandann verðandi, þar sem hann taldi upp það sem hann ætlar að gera þegar hann verður kominn lyklavöldin að Bessastöðum og Staðastað í hendurnar. Frumlegt og smellið sumtt hjá honum, en mér finnst samt vanta í stefnuskrána hina einu og sönnu kímnigáfu. Þó á hann vafalítið eftir að kitla hláturtaugar almennings. Aldrei er nógu mikið hlegið og víst er að margir ráðamenn þessa lands mættu brosa oftar og innilegar. Mér er samt til efs að þessi frambjóðandi til embættis forseta eigi eftir að koma ráðamönnum þessa kalda lands til að skemmta sér yfir framtakinu, sem hann virðist telja þjóðþrifamál.
En mér var ekki hlátur í hug yfir fréttinni vegna þess að ég hjó eftir því í viðtalinu að frambjóðandinn er búinn að útvega sér fé til að reka sína kosningabaráttu. Hann þarf ekki að leita á náðir almennings til að standa undir áróðrinum. Bandarísk auglýsingastofa hefur látið honum í té 200 milljónir til komandi baráttu fyrir embætti forseta Íslands. Það kom ekki fram hvort um dollara eða krónur var að ræða. Sama hvor upphæðin er – það má birta margar auglýsingar í ýmsu formi fyrir þetta fé, svo margar að allir verða löngu hættir að horfa á þær, skoða þær, lesa eða yfirleitt að skemmta sér yfir þeim eftir því sem hægt er.
Hvernig stendur á því að bandarísk auglýsingastofa styrkir eitthvert einkaflipp hjá listamanni á útkjálka veraldar? Hvaða arði eiga þessir peningar að skila henni aftur? Getur þessi stofa látið peningum rigna í hvað sem er og hvar sem er? Verður þessi kosningabarátta upp á amerískan máta? Sé þetta grín hjá hinum sniðuga frambjóðanda fellur það í dauðan jarðveg hjá mér og þykist ég hafa kímnigáfuna í góðu lagi.
Ég hef hitt konur frá Afríku, þar sem konur og börn sóttu og báru vatn langar leiðir vegna þess að enginn brunnur var í þorpinu. Þorpsbúum var fjárhagslega ofviða að leggja í svo kostnaðarsamt fyrirtæki sem brunngerð. Upphæðin sem til þurfti samsvaraði kostnaði við sunnudagsmáltíð íslenskrar meðalfjölskyldu. Fyrir 200 milljónir af einhverri mynt, sem virðist ekki þurfa að gera grein fyrir í viðtalinu væri hægt að sjá 100.000 börnum í barnaþorpum Sameinuðu þjóðanna fyrir öllum þörfum í rúman mánuð, ef við gerum ráð fyrir að um íslenskar krónur sé að ræða.
Reikni svo hver fyrir sig.
Sé satt og rétt sagt frá fjárstyrknum bandaríska verður þiggjandinn að reka kosningabaráttu sína með einstökum glæsibrag hið ytra og hið innra - og þar á ég ekki við fyndinn umbúnað og hnyttin tilsvör, heldur kærleika og virðingu í garð meðbræðranna - svo að hægt sé að leggja þetta atriði til hliðar eitt einasta augnablik. Víst er að ekki mun það gleymast í kjörklefanum.
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 12:59 e.h.