Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, janúar 11, 2008 :::
 
Hæ,
Miklar hræringar eiga sér stað á nýju ári. Hlutabréfin hafa hrært sig dálítið og það aðallega niður á við og hafa þær hæringar hrært tilfinningar og sálarlíf eigendanna svo um munar. Vitur maður sagði mér einu sinni, að gaman væri að eiga viðskipti með hlutabréf og hann gerði talsvert af því sér til skemmtunar. Enda á þessi vitri maður talsvert af peningum og hafði tekið dágóða summu af peningaeign sinni til að kaupa hlutabréf sér til upplyftingar og skemmtunar. Hann sagði mér jafnframt að markmið hans væri að græða á viðskiptunum, en hann gæti líka tapað á þeim. Það væru aftur á móti mjög fáir, sem væru tilbúnir til að tapa því sem þeir leggðu í hlutabréf eða einhverjum hluta af því fé, sem þeir hefðu lagt til þeirra hluta.
Og ég spyr í framhaldi af þessum hugleiðingum: Hefði Insolidum viljað skila hlutabréfunun í SPRON ef hluturinn hefði hækkað upp í 50 eða jafnvel 100? Hefði þá verið sagt þar á bæ, að félagið hefði verið gabbað til að kaupa hlutabréfin? Einhvern veginn efast ég verulega um það.
Mér hefur lengi fundist meðaumkun og samúð vera of sterkur og ríkur þáttur í eðli mínu og stundum fundist ókostur þegar þessi tilfinning hefur náð á mér heljartökum og orðið öðrum þáttum yfirsterkari. En þegar fluttar voru fréttirnar af bágborinni eignastöðu Gnúps og viðskiptum Insolidum í fjölmiðlum í gær og fyrradag, brá svo við að engin meðlíðan bærðist í brjósti mér með eigendunum og stórtapi þeirra á hlutabréfamarkaði. Ég er nefnilega búin að tileinka mér visku hins vitra manns: Ef þú ert tilbúinn að græða á hlutabréfamarkaði verður þú líka að vera tilbúinn að tapa á þeim vettvangi.
Margir sækjast eftir góðum stöðum og þar fer eins og í biblíunni að margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Davíðssonur hlaut góða stöðu í dreifbýlinu og það var sem við manninn mælt að upp spruttu endalausar mótbárur og andmæli og sáu afar margir þessari stöðuveitingu flest til foráttu. Settur dómsmálaráðherra varði ákvörðun sína með kjafti og klóm og nefndi m.a. að umræddur umsækjandi hefði staðið sig mjög vel í starfi sínu í dómnefnd Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar. Það vill svo til að dómnefndin er skipuð af borgarráði og er skipuð í maí fyrir verðlaun komandi árs og lýkur nefndin störfum fyrir 15. ágúst árið eftir. Hverjir voru við völd í borginni þegar sonur Davíðs hreppti hnossið og gat sannað sig á víðfrægum og umtöluðum vettvangi bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar? Rosaleg vinna gegnum árin eða hvað? Veit einhver hverjir fleiri eru í nefndinni? Þarf nokkuð að fjölyrða meira um þetta?
Kjarasamningar í uppnámi. Ögmundur og Ingibjörg R. voru í sjónvarpinu áðan og ræddu horfurnar. Ingibjörg var á skrifstofu ASÍ, en Ögmundur úti við, prúðbúinn að vanda. Það flaug í gegnum huga minn: “Hver skyldi eiga þennan bíl, sem er lagt þarna til hliðar við þingmanninn og kostar meira en árslaun margra BSRB-manna, jafnvel þótt þeir sinni tveim störfum?”
Með nýárskveðju,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:23 f.h.




Powered by Blogger