Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, apríl 29, 2005 :::
 
Hæ,
Það er nú meiri friðar- og kærleikshugurinn, sem ríkir hjá söfnuðinum og samfélagi heilaga anda í Garðabæ. Ætli þetta sé ekki allt saman framkvæmt í Drottins friði og Guðs nafni? Ekki skrítið þótt bæjarstjórinn sé að yfirgefa skipið, en hún sér kannske fram á að geta selt Garðabæ efni til skólplagna til að bjarga holræsamálum í bænum, sem eru víst ekki upp á marga fiska. Nema hún hafi talið ósigur sinn í baráttunni um lóð undir Háskólann í Reykjavík svo mikla niðurlægingu að hún hafi tekið til fótanna.
Ég sá unga stúlku í Kastljósi í fyrrakvöld, sem berst fyrir því að fá áfengi til sölu í matvöruverslunum. Ég sé enga þörf á því að selja vín í matvöruverslunum - fer bara í Ríkið, ef ég ætla að kaupa áfengi - ég var að velta því fyrir mér hvað fyrir henni vakir. Líklega vill hún gera heimilisinnkaupin á sem skemmstum tíma til að geta komist sem fyrst heim til að drekka. Það getur örugglega munað hana 5 – 10 mínútum í tíma, tveim til þrem glösum í magni. Skiljanlegt!
Hafið þið heyrt um konuna, sem fór til Ameríku þegar dollarinn var 60 krónur og keypti sér ekkert nema eina tannkremstúpu í Dollar Tree?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:35 e.h.


þriðjudagur, apríl 26, 2005 :::
 
Hæ,
Nokkrum sinnum hef ég verið að skapillskast út í forsætisráðherrann fyrrverandi og gagnrýnt hann fyrir bræðiköst og að hreyta fúkyrðum í þjóð sína við ótal tækifæri, sem hann hefur vissulega gert. Oft var ég búin að gæla við þá tilhugsun að við þegnar þessa lands myndum einhvern tíma losna við þennan úrilla mann, sem á sér líka í og með skemmtilegar hliðar, sem svo oft hafa horfið í skuggann fyrir ofsaköstunum. Í draumum mínum var ég þess fullviss að arftakinn yrði víðsýnn, kurteis, fágaður og umburðarlyndur einstaklingur, sem bæri virðingu fyrir öllum sínum þegnum með tölu, sem aldrei léti sér detta í hug að uppnefna samstarfsfólk sitt og andstæðinga né senda þeim tóninn.
Svo eignaðist þjóðin og þar með ég nýjan forsætisráðherra í haust. Við fengum ekki að kjósa hann, heldur fékk nýi forsætisráðherrann embættið vegna einstakrar hlýðni, hollustu og þjónustulundar við málstað fyrirrennara síns, þótt hann væri í allt öðrum flokki með aðra stefnuskrá. Hefði margt þýið mátt taka sleikjuskap hans sér til fyrirmyndar.
Þegar nýi ráðherrann settist í stólinn þá sannaðist á mér hið fornkveðna og sígilda, að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Guð veit, að ég mundi gjarnan vilja skipta aftur og fá gamla skapillskupúkann og brandarakallinn - þegar sá gállinn er á honum - í forsætisráðherrastólinn að nýju. Það hefur líka sýnt sig að fáir muna eftir skiptunum, nýi forsætisráðherrann hefur hvað eftir annað orðið fyrir þeirri hneisu að hann er ávarpaður með sínum gamla titli og stór hluti þjóðarinnar hefur ekki hugmynd um ráðherraskiptin.
Mér hundleiðist nýi forsætisráðherrann, sem mjálmar í vælutón yfir þjóðina og er alltaf að reyna að ná til allra með endalausri skinhelgi. Hann slær alla helgislepjupresta út með glans. Hann talar um mikilvægar og afdrifaríkar ákvarðanir, sem snerta alla þjóðina, hvert heimili, hvern mann og vonast til að allir geti lagst á eitt og komið málinu heilu og höldnu í höfn. Slíkt sé áríðandi og öllum fyrir bestu þegar fram sé horft. Þjappa beri þjóðinni saman á erfiðleikastundum og nauðsynlegt sé að allir geti treyst forystumönnum þjóðarinnar, o.s.frv., o.s.frv. Svona lekur vellan úr honum endalaust og henn er búinn að koma sér upp sérstakri landsföðurrödd fyrir hljóðnemana og sérstökum mærðar- og ábyrgðarsvip fyrir myndavélarnar og skal þessi uppstilling höfða til kjósenda. Hann veit sem er að kjósendur hans eru fáir og ótryggir og hefur valið þessa leið til að afla sér vinsælda. Ég held að hún sé lítt vænleg til árangurs.
Fyrst við sitjum uppi með þessa ríkisstjórn vil ég losna við Mr. HÁ og hafa Mr. DO í forsætisráðuneytinu.
Öðru vísi mér áður brá!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:05 e.h.




Powered by Blogger