Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, júní 18, 2007 :::
 
HILDIGUNNUR 17. júní 1947 - 27. maí 1987

Ég man lítið nýfætt barn í fangi ljósmóður uppi á lofti í Lækjargötu.
Hildigunnur er fædd.

Hildigunnur - sæt og budduleg – hún er hátt í eins árs. Ég sit á rugguhesti í eldhúsinu í barnaskólanum. Hún er sett fyrir framan mig á hestinn. Eitthvað fer knapinn óvarlega, rugguhesturinn skellur á veggnum. Hildigunnur fer að gráta og síðar kemur í ljós að hún er viðbeinsbrotin. Ég er fjögura ára og búin að beinbrjóta litlu systur mína. Hún erfir beinbrotið aldrei við mig.
Hildigunnur var hvorki langrækin né hefnigjörn.

Hildigunnur fer að tala, skemmtilega smámælt. Meðan á máltíðum stendur er gaman að biðja hana að koma í leik. Svarið er alltaf það sama: "Fina é búvin báva" – Þegar ég er búin að borða.
Hildigunnur hljóp ekki frá hálfkláruðu.

Hildigunnur á lóðinni við Barnaskólann. Við erum í rósóttum sumarkjólum, með slaufur í hári og í lakkskóm. Alltaf sumar og sól. Við erum í búðarleik. Ég er eldri, ég ræð. Ég er búðarkonan, hún viðskiptavinirnir. Allt í einu mótmælir kúnnahópurinn og vill fá að afgreiða, hótar að koma aldrei aftur í búðina. Allt stefnir í óefni. Hildigunnur fellir Salómonsdóm. Við erum báðar búðarkonur, viðskiptavinirnir eru í þykjustunni. Leikurinn verður miklu skemmtilegri.
Hildigunnur sagði sína skoðun og fann lausn á vandanum.

Hildigunnur á afmæli 17. júní. Afmælið hennar er allt öðru vísi en mitt. Hennar afmæli fellur yfirleitt í skuggann fyrir þjóðhátíðardegi og stúdentaútskrift. Engin afmælisveisla sem skólasystkinum og vinum er boðið til, heldur keyrir blómabíll um bæinn og það er dansað fram á rauða nótt á torginu. Kannske gleymist einhvern tíma að óska henni til hamingju með afmælið. Afmælisbarnið fjargviðrast ekki út af þessu.
Hildigunnur tók hlutunum með jafnaðargeði.

Hildigunnur unglingur. Kynslóðabilið er óendanlegt í augum stóru systur. Allar tilraunir til að hafa áhrif á yngri systur jafnast á við að skvetta vatni á gæs. Hildigunnur haggast ekki, henni er alveg sama um önuga eldri systur.
Hildigunnur var sjálfstæð og örugg. Með sterka sjálfsmynd - væri sagt í dag.

Hildigunnur slær í gegn í vélritun við gagnfræðapróf. Henni er boðið ritarastarf á sjúkrahúsinu, þar sem hún slær aftur í gegn – ekki bara fyrir færni og hraða í vélritun og íslensku- og stafsetningarkunnáttu, heldur einnig fyrir fágað fas og hæverska framkomu. Hún ávinnur sér traust og vináttu samstarfsmanna sinna. Hún er virt og mikils metin.
Hildigunnur var snillingur í mannlegum samskiptum – löngu áður en það hugtak var fundið upp.

Hildigunnur fer á húsmæðraskóla á Ísafirði. Hún saumar skírnarkjól, sem ber af öllum öðrum slíkum. Enginn hefur séð svo fallegan skírnarkjól.
Hildigunnur var vandvirk, smekkvís og nákvæm.

Hildigunnur sækir um ritarastarf á sjúkrahúsi í Svíþjóð og er valin úr hópi næstum hundrað umsækjenda. Síðan verður hún ritari yfirlæknisins á Kleppi, sem fær næstum taugaáfall, þegar hún segir upp störfum.
Hildigunnur skaraði fram úr og var samviskusamur og eftirsóknarverður starfsmaður.

Hildigunnur festir ráð sitt og eignast börn og buru. Hún skapar fallegt heimili, þar sem ríkir gestrisni og gleði, öryggi og friður.
Hildigunnur sinnti sínu og sínum af alúð og kostgæfni.

Hildigunnur er gædd góðri tónlistargáfu og afbragðs tónheyrn, lærir á fiðlu og syngur millirödd við hvaða lag sem er. Hún hefur yndi af leikhúsi. Nokkrum dögum fyrir andlátið ákveður hún að sjá Kabarett í samkomuhúsinu. Að lokinni sýningu er keyrt inn í Brynju til að kaupa ís.
Hildigunnur var listunnandi og fagurkeri fram í fingurgóma.

Hildigunnur berst í tæp sex ár við veikindi og dauða. Alltof snemma, alltof ung. Baráttan er háð af hugrekki og kjarki og lýsir hennar innri manni. Ósigrinum er tekið með æðruleysi.
Hildigunnur er öll.

Harmurinn er þungur, söknuðurinn djúpur. Eftir lifir björt og fögur minning um heilsteypta, gáfaða og mæta konu og innilegt þakklæti fyrir að hafa átt hana að og verið hluti af hennar lífi.

::: posted by Bergthora at 11:17 f.h.




Powered by Blogger