Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, júlí 10, 2006 :::
 
Hæ,
Ég hef verið að fylgjast með tískunni undanfarna daga og þá sérstaklega línur og liti herrafatatískunnar vor og sumar 2007. Þegar ég opnaði Fréttablaðið yfir hafragrautnum á fimmtudaginn var, gaf þar að líta nokkrar myndir af glæsiherrum uppáklædda í sumarföt frá hinum ýmsu tískuhúsum með alls kyns fylgihuti til að lífga upp á útlitið og heildarmyndina. Þar vakti auðvitað óskipta athygli mína sumarklæðnaður fyrir herra frá Givenchy: Ljósblá stutterma skyrta með hvítum uppslögum, hvítar buxur, sem lögðust þétt að mjöðmunum, en náðu ekki alveg upp í mitti, hvítt belti við og sólgleraugu í gamaldags stíl með hvítri umgerð. Textinn var á þá leið að þetta væri upplagður klæðnaður á golfvöllinn.
Ég hafði auðvitað strax á orði við eiginmanninn hvort hann vildi ekki að ég pantaði svona klæðnað frá Givenchy handa honum gegnum klíku, en undirtektirnar voru þær sömu og vanalega, að hann ætti nóg af fötum og ætti enga peninga fyrir einhverjum tískuleppum. Svo hélt hann áfram að hlusta á fréttirnar og lesa dagblöðin.
Þá hringdi ég í tískufrömuð fjölskyldunnar og sérlegan ambassador Íslands hjá Givenchy sjálfum, sem var þar við störf sem model-ráðgjafi og allsherjar skipuleggjandi. Ég bar upp hugmyndina við hátískusérfræðinginn, þ.e. hvort ekki ætti að dressa ættföðurinn upp í ljósbláu skyrtuna og hvítu buxurnar, sem hefðu gert stormandi lukku á tískupallinum í Pompidou-safninu í París og auðvitað ættu sólgleraugun að fylgja með í kaupunum. Það setti slíkan óstöðvandi hlátur að tískufrömuðinum sem þá stundina sat í heiðurssæti á haute couture sýningu kvenfatatísku Givenchy vor og sumar 2007, að hætta varð sýningunni meðan hún jafnaði sig á tilhugsuninni.
Það er af sem áður var. Þegar við vorum aðeins yngri sendi ég eiginmanni mínum pakka yfir járntjaldið, svo hann liti sómasamlega út þegar hann kæmi heim úr þrælabúðunum, svo hann þyrfti ekki að spranga um í þykkum vetrarklæðnaði, sérgerðum fyrir 40 stiga frost. Pakkinn innihélt ljósgula skyrtu, að vísu langerma, buxur í sama lit og hvíta skó! Minn maður klæddi sig í þetta orðalaust, keypti sér köflóttan jakka í setteringu við herlegheitin, flaug heim og spókaði sig í þessum fötum á götum höfuðborgarinnar allt sumarið og hefði fyllilega sómt sér á tískupallinum hjá einhverjum af frönsku tískukóngunum.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:41 e.h.




Powered by Blogger