föstudagur, febrúar 23, 2007 :::
Hæ,
Mér hefur alltaf fundist Eiríkur Hauksson flottur. Ég hef ekki fylgst fyllilega með ferli hans, en fannst hann gera sig í Gaggó Vest fyrir ótal árum, vera góður í Gleðibankanum á sínum tíma, passa nákvæmlega í Júrovisjón fyrir Norge og Norðmennina og slá í gegn í sænsku þáttunum um Júróvisjón.
Þegar hann birtist á sviðinu vestur á Granda fyrir stuttu fannst mér hann svolítið staðnaður í leðurbuxunum með síða hárið slegið, en þegar hann byrjaði að syngja fannst mér hann og lagið – sem ég man ekki hvað heitir - vera hin eina sanna Júróvisjón. Ég meira að segja hökti upp úr sófanum til að ná í símann og sendi honum atkvæði mitt á síðustu sekúndubrotum atkvæðagreiðslunnar, þótt ég hefði næstum verið búin að sverja þess eið að hreyfa mig ekki úr þeirri þægilegu stellingu, sem ég var búin að hreiðra um mig í.
Ég missti af úrslitakvöldinu vegna árshátíðar, en frétti þar að Eiríkur Hauksson hefði sigrað, mér til mikillar undrunar, og gladdist yfir því að æskudýrkunin tröllríður ekki alveg öllu hér á landi, bara langflestu.
Svo kom Eiríkur Hauksson í Kastljósið og þá sá ég að það sem ég hafði alltaf haldið var rétt: Eiríkur Hauksson er bara flottur!
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 3:48 e.h.