Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, maí 23, 2003 :::
 
Hæ,
Dásamlegt veður, vor og birta. Getur nokkuð verið betra? Leit á nokkrar bloggsíður í morgun og sá að Þóra Þorsteins á afmæli í dag. Ég hringdi auðvitað í hana og sagði si svona við hana: Til hammara me ammara! Hún var mjög impóneruð. Ég bauð henni og Dísu í morgunkaffi í fyrramálið. Það hefst um tíuleytið, ef einhver/einhverjir/einhverjar vill vita af því.
Í þessu samhengi datt mér í hug hvað vissir ættingjar mínir hefðu sagt við Ólaf Ragnar um daginn: Til hammara me ammara og gimmara (gifting) eða var sagt: Til hammarra me ammara og brummara (brúðkaup, brullaup), eða: Til hammara me ammara og pemmara (peningana)? Ég hefði sagt: Hjartanlegar hamingjuóskir með afmælið og einnig vil ég óska ykkur hjónum allra heilla á brúðkaupsdaginn - þ.e.a.s. hefði ég verið boðin persónulega.
Í gær fór ég austur í sveitir, keyrði Eyjó í Skálholt, þar sem hann mun dvelja við andlega iðkun fram á sunnudag. Síðan fórum við mamma til Óttars bróður, sem ekki bloggar, snæddum kvöldverð með honum í Oddsholti, drukkum te og keyrðum síðan heim í glampandi kvöldsól. Ekki amalegt það.
Fór snemma af stað í morgun, keyrði beint á smurstöð og lét smyrja bílinn, renndi honum þar á eftir í gegnum þvottastöð og síðan beint í vinnuna. Gott að vera búin að þessu. Nú þarf bara að þrífa bílinn innan. Ég er að hugsa um að bíða eftir því að það gerist af sjálfu sér. Kannske vill einhver vinna sér inn prik eða inneign hjá mér og taka verkið að sér. Bíð eftir tilboðum.
Eftir viku mun ég fara utan og dvelja erlendis um alllangt skeið, eða næstu þrjár vikurnar. Verði tími fæ ég aðstoð hjá sérfræðingi mínum í bloggsíðugerð við að uppfæra mína síðu og gera hana smartari, innskot og fl. Eins mun ég setja þar inn skemmtilegar frásagnir af ferðinni, t.d. heimsóknum á söfn (þjóðminja- og forngripa) í Evrópu, slæpingshætti okkar hjóna á sólarströndum o. fl, ef það SÉ tími.
Og Palli farinn að blogga. Til hamingju! Ummælin á síðum okkar fólks eru eins og hann hafi verið að koma út úr skápnum.
Ég hitti flesta lesendur mína á morgun í stúdentsveislunni hennar Hildigunnar. Ég grét þegar ég las bloggið hennar í morgun.
Verið sæl á meðan,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:54 e.h.


þriðjudagur, maí 20, 2003 :::
 
Hæ,
Lítið af mér og mínum að frétta. Leit aðeins lauslega yfir bloggsíður ættmenna, sem varð ekki til að draga úr minnimáttarkenndinni. Allir alltaf að skemmta sér. Svo fór ég að hugsa aðeins aftur í tímann. Viti menn - ég hef líka verið að skemmta mér og ekki síður en aðrir.
Á laugardaginn bauð ég Eyjó og mömmu á kaffihús í Smáralind. Ég fékk mér grænmetisböku, en svoleiðis blóðlangaði í marenstertuna (minni á pistil minn frá 15. maí sl.). Mér tókst með herkjum að neita mér um hana og það varð mér til happs að hún var frekar klessuleg. Ég hefði sennilega splæst tertunni á mig hefði hún verið léttari og loftkenndari. Við keyptum okkur nýja digital myndavél í leiðinni - skiluðum handónýtri myndavél sem samviskulaus sölumaður hafði prangað inn á okkur fyrir þrem vikum. Sölumaðurinn, sem við hittum á í þetta skipti, hafði fullkominn skilning á því að við vildum ekki eiga fyrri myndavélina. Hann hélt illskiljanlegan samanburðarfyrirlestur um vélarnar, en við föttuðum að sú fyrri er algert drasl. Við skelltum okkur á Kodakvél og allir kvöddust afar hamingjusamir. Hann vegna þess að við höfðum enn aukið veltu verslunarinnar og við vegna nýju vélarinnar sem við keyptum eingöngu út á vörumerkið.
Um kvöldið fórum við mamma í Borgarleikhúsið að sjá Vetrarævintýri eftir Shakespeare og leikhópinn. Meðlimum hans fannst greinilega hægt að hressa upp á skrif skáldjöfursins. Það var ljómandi gaman. Við fórum í boði Hörpu Arnardóttur, stórvinkonu og leikkonu. Guðmundur G. - Nýtt afl var í leikhúsinu með konu sini og tengdamömmu. Hann var hinn hressasti og virtist ekkert skammast sín fyrir þessi örfáu atkvæði sem honum og hans flokki tókst að kreista út úr kjósendum. Við hittum nýgiftu hjónin í leikhúsinu ásamt helmingnum af svaramönnunum og eiginmenni hennar. Þau voru í öðrum sal. Þau voru auðvitað að horfa á Rómeó og Júlíu.
Efnir svo ekki Þórdís frænka til síns fyrsta kaffiboðs á sunnudaginn. Hún bauð okkur til þessa merka viðburðar. Gamla borðstofuborðið úr Bjarkarstígnum svignaði undan krásunum. Óttar bróðir hafði á orði að gaman hefði verið að fá að setjast aftur við þetta borð. Þórdís var auðvitað með aðstoðarkonu í eldhúsi þennan dag og hafði þar að auki notað sér brauðgerðarhús í nágrenninu. Þá skildist mér að Einar Bjarni hefði ekki látið sitt eftir liggja í undirbúningi. Þórdís gekk sjálf um beina og það var verulega "flott í boðinu" eins og Kalla vinkona mín segir alltaf. Eftir kaffi-, te- og kókdrykkju settumst við í betri stofuna, spjölluðum og skoðuðum ljósmyndir. Einnig áttum við létt spjall um bókmenntir, þar sem við bárum saman verk eftir unga og aldna höfunda hér á landi, skoðuðum verk nokkurra höfunda út frá stöðu þeirra og sálarástandi og fjölluðum um stöðu íslensku glæpasögunnar í dag. Huggulegt og siviliserað boð hjá Þórdísi frænku. Nú bíð ég bara eftir næsta kaffiboði (gæstebud) Þórdísar.
Um kvöldið horfðum við hjónin á þriðju myndina um ævi Don Corleone. Við horfðum á þær allar - vöktum fram á nætur og sökktum okkur niður í líf þessarar óhamingjusömu og ólánsömu mafíósafjölskyldu. Ég missti að vísu af fyrsta hlutanum af fyrstu myndinni, en við eigum hana á bandi. Ég verð að gefa mér tíma í að horfa á hana, sjá þegar vinurinn vaknar með hestshausinn undir silkirúmfötunum. Þessar myndir hafa eitthvað við sig þrátt fyrir að vera bæði leiðinlegar og ógeðslegar. Það hefur ábyggilega verið ráðið í mafíósahlutverkin eftir útliti. Ef ég hefði verið Don Corleone hefði ég reynt að hafa aðeins fríðari gæja í kringum mig, ekki látið þá bera starfstitilinn svona áberandi utan á sér.
Guð, ég held ég sé brjáluð! (Þið megið geta hvað veldur).
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 12:15 e.h.




Powered by Blogger