Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, júlí 22, 2004 :::
 
Hæ,
LEIKRIT UM LÚXUSVANDA Í EINUM ÞÆTTI
Fín frú: Veistu nokkuð hvar ég fær statív undir rúmteppi?
Ég: Fæ hvað?
Fín frú: Fyrirgefðu, en mér liggur svo lágt rómur. Mig vantar svo statív fyrir rúmteppið. Ég fæ þetta hvergi. Ég skil ekkert í því að þetta skuli ekki fást hérna.
Ég: Hérna hvar?
Fín frú: Hér á landi. Það er allt fullt af þessu í Ameríku. Þetta er allt svo takmarkað hérna.
Ég: Ég vissi hreint ekki að svona nokkuð væri til. Ég hendi mínu rúmteppi bara á næsta eða þar næsta stól og hef það þar svo dögum og vikum skiptir eða þangað til mér dettur í hug að búa um rúmið næst, t.d. á jólum eða páskum.
Fín frú: Guð minn almáttugur. Ég var að hugsa um að láta smíða svona fyrir mig, Veistu nokkuð hvar ég gæti látið smíða svona rúmteppastatíf?.
Ég: Ég hef ekki græna glóru og  hver mundi njóta þess að horfa á rúmteppið manns á statífi? Það er þar bara á nóttunni og það væru þá helst innbrotsþjófar, sem gætu dáðst að teppinu hangandi í niðamyrkri á forláta teppastatífi.Ég hef þá trú að þeir séu um annað að hugsa en hvernig fólk kemur rúmteppum fyrir á nóttunni, nema þeir séu að brjótast inn í þeim tilgangi einum að kanna slíkt.
Fín frú: Drottinn minn, ég ætla að vona að verði ekki brotist inn til manns. Það er allt orðið svo hræðilegt hér, ekkert nema glæpir og rán.
Ég: Jæja, ég má ekki vera að því að velta mér upp úr svona lúxusvandamálum. Ég missti demantseyrnalokk niður um niðurfallið á baðkerinu og þarf annað hvort að leiga pípara og smið til að rífa upp baðherbergisinnréttinguna og setja allt saman aftur eða kaupa nýjan lokk. Svo spjallar þú bara um rúmteppisstatíf sem einhverja grunnnauðsyn.
Fín frú: Ókei, bæ, bæ.
Ég: Vertu sæl
Kveðja,
Bekka



::: posted by Bergthora at 4:03 e.h.


miðvikudagur, júlí 21, 2004 :::
 
Hæ,
Enn um mat.
Í útvarpsþætti var nýlega fjallað um matarhefðir og hvernig hægt er að notfæra sér íslenskar jurtir í matargerð. Þessi þáttur var á gufunni, ef einhverjum skyldi detta eitthvað annað í hug. Enn var fjallað um hina lostætu fífla og fíflablöðkur, ásamt njóla, hundasúrum, arfa og fleiri jurtir, sem fæstir telja að séu nothæfar til átu. Lesnar voru upp alls kyns uppskriftir, einfaldar og flóknar og sumar býsna freistandi. Maður fékk auðvitað létt samviskubit yfir því að vera alltaf úti í búð að kaupa í matinn í staðinn fyrir að vera uppi í brekku með derhúfu, í pokabuxum og köflóttum sportsokkum, vopnaður grasasekk og berjatínu. Og þó – ég veit ekki betur en ég hafi tínt sveppi til matar í 30 ár, þróað mínar eigin sveppauppskriftir, fryst, saltað og þurrkað og ég hef meira að segja verið í aðalkvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins, sem sérfræðingur í sveppatínslu, þar sem ég fór á kostum. Var spurð að því eftir viðtalið hvort mér hefði aldrei dottið í hug að leggja fyrir mig störf á öldum ljósvakans. Nei, mér hafði aldrei dottið slíkt í hug.
Í mörg ár tíndi ég blóðberg og þurrkaði af vísindalegri nákvæmni til að blanda saman við te. Ég hef þurrkað birki og elftingu í teblöndur. Svo hef ég nokkrum sinnum búið til hundasúrusúpu, hrært arfa saman við smjör, farið til berja ótal sinnum, sultað og saftað og notað talsvert af fjallagrösum gegnum árin, fyrir utan að borða (fjalla)grasamjólk tvisvar til þrisvar í viku í uppvextinum, svo ekki sé talað um afla úr veiðiferðum í vötn og ár, sem var borinn samviskusamlega á borð jafnóðum. Að þessu upptöldu held ég að ég þurfi ekki að vera með neina minnimáttarkennd.gagnvart beinni snertingu við gæði landsins.
Þetta er samt aðeins örlítið brot af því sem ég hef afrekað á sviði eldamennsku um ævina og ég leyfi mér að fullyrða að það hverfi algerlega í skuggann hjá því sem ég hef eldað úr hráefni, sem ég hef dregið heim úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar ég sá nýlega uppskrift í nýrri matreiðslubók, sem bar nafnið Einfaldur austurlenskur pottréttur og hafði að geyma 26 tegundir hráefnis þótti mér einfaldleikinn vera orðinn nokkuð flókinn. Ég minntist kokteilsósu með 14 tegundum hráefnis, ég fækkaði þeim í 5 – 6 eftir því hvernig á stendur í ísskápnum og vil meina að hún hafi ekki versnað við það, a.m.k. hef ég alltaf fengið mikið hól fyrir mitt afbrigði. Og í framhaldi af því var mér hugsað til Carrie Bradshaw, sem sagði furðu lostin, þegar nýjasti kærastinn birtist á tröppunum hjá henni með fulla innkaupapoka til að elda rómantískan kvöldverð handa þeim: “Ég hef aldrei notað eldhúsið”. Þegar hann stakk upp á að þau fengju sér expressó-kaffi eftir matinn, sem hann hafði kokkað í frumstæðu og því sem næst áhaldalausu eldhúsi Carrie, hrópaði hún í gleði sinni: “Hvar?” Þá kom í ljós að hún átti ekki expressó-vél. Kærastinn skildi hvorki upp né niður í þessari búsáhaldafátækt, en henni var skítsama. Henni hafði aldrei dottið í hug að hægt væri að gera svona hluti heima við.
Óneitanlega væri nú þægilegt að þurfa ekki að eyða endalausum tíma í matseld, nota aldrei eldhúsið, það væri alltaf spánýtt og skínandi hreint. Segja með kæruleysissvip: “Nei, ég kann ekkert á þennan bakaraofn. Nei, ég hef aldrei kveikt á eldavélinni. Ég bara veit ekki hvort er vifta í eldhúsinu hjá mér.”
Allir eru í samfelldri megrun, mega ekki borða þennan mat, mega ekki borða á þessum tíma, vilja ekki svona mat, vilja eitthvað annað, en samt er alltaf verið að kaupa inn til heimilisins og elda mat. Þá má enn spyrja, hvort yfirleitt sé nokkur þörf á eldhúsi. Er ekki hægt að sleppa eldhúsinu? Það er hvort sem er hægt að fá pizzu á innan við hálftíma.
Kveðja,
Bekka



::: posted by Bergthora at 11:25 f.h.




Powered by Blogger