föstudagur, febrúar 24, 2006 :::
Hæ,
Idol í kvöld. Je minn eini. Þá getur þjóðin enn á ný skipt sér í tvær andstæðar fylkingar út af því hver á að halda áfram og hver á ekki að halda áfram í keppninni, hvort Bubbi er hrokafullur eða mildur í dómum sínum, hvort Páll Óskar fer yfir strikið eða heldur sig á mottunni, hvort Sigga er hrukkótt eða ekki miðað við aldur, hvort Einar Bárðarson hefur einhver tengsl við dómsmálaráðuneytið eða hvort hann er bara að gera sig breiðan, hver syngur vel og hver syngur illa. Hið eina óumdeilanlega og óaðfinnanlega í þessari keppni virðast vera Simmi og Jói. Í hverjum þætti hæla þeir Jói og Simmi öllum krökkunum fyrir frábæra frammistöðu hversu aumlega og laklega sem þau gaula, veina og væla, þeir hæla öllum í bak og fyrir þáttinn út í gegn - nema Bubba. Ég hef ekki heyrt neinn hallmæla þeim eða gagnrýna þá - nema Bubba.
Hvern kýs fólk í svona keppni? Það er spurning. Ég kaus einn karlmanninn í fyrsta Smáralindar-þættinum vegna þess að systir hans er vinkona dóttur minnar. Fáránlegt eða ekki? Er það ekki jafngóð ástæða og hver önnur? Ef fólk kýs almennt eins og ég kaus í Idolinu, er ekki mikið að marka kosningaúrslit og því miður held ég að svo sé raunin þegar um er að ræða hæfileikakeppni. Íbúar einhvers dreifbýliskjarna kjósa allir sem einn einhvern óverðugan fulltrúa kjarnans, sem hefur slysast inn í Smáralindina vegna uppruna síns.
Síðan ég kaus bróður vinkonu dóttur minnar hef ég engan kosið í Idolinu og best að ljóstra því upp núna að ekki var hringt af mínu heimili til að kjósa í lokaþætti Evróvisjón á Íslandi, þar sem sigraði einhver stelpa, sem fór úr pilsinu í miðju lagi. Svo er aldrei að vita hvað ég geri í kvöld, kannske ég kjósi til tilbreytingar eftir sannfæringu, ef einhver nær að sannfæra mig.
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 12:14 e.h.
fimmtudagur, febrúar 23, 2006 :::
Hæ,
Þá er búið að greina mig sem bitra kellingu, sem hefur lítið sem ekkert að gera annað en að hella úr skálum reiði minnar í beinni útsendingu vegna sigurs Silvíu Nætur í evróvisjón-bardaganum. (sjá komment við pistil hér á undan). Þegar ég fór að róta í innstu hugskotum mínum fann ég auðvitað niðurbælda reiðistrauma krauma og vella í hverjum krók og kima sálarlífsins, sem jöfnuðust á við helstu stjórfljót í vorleysingum. Því ákvað ég að fara í sálfræðimeðferð til að losa mig undan þeim gríðarlegu áhrifum, sem stelpugimpið hún Silvía Nótt hefur á andlega velferð mína. Viti menn, það er langur biðlisti hjá sálfræðingum vegna þess allar bitrar kellingar þessa lands eru greinilega þegar búnar að panta sér meðferð til að geta orðið eðlilegar að nýju eftir Evróvisjón-kosninguna og farið að ergja sig út af þessu venjulega, þ.e. R-listanum, Samfylkingunni og Ingibjörgu Sólrúnu, en ekki jafn sjálfsögðu þjóðþrifamáli og þátttöku Silvíu Nætur í Evróvisjón. Það kemur málinu náttúrulega ekkert við að þessar bitru kellingar borgar afnotagjald til RUV og eru búnar að borga það í nokkra áratugi. Þess vegna vilja þær fá sem mest fyrir sinn snúð og eru eðlilega pínulítið pirraðar þegar atburðarásin er ekki þeim í hag, t.d. þegar Birgitta Haukdal, smámælt, brosandi og dúkkuleg, kemst ekki til Grikklands fyrir okkar hönd. Ég veit auðvitað að allir aðdáendur Sivíu Nætur hefðu tekið sigri Birgittu Haukdal með brosi á vör hefði slíkt orðið ofan á og sent henni innilegar og falslausar heillaóskir að fengnum sigri. Þeir hefðu ekki látið eins og ég og allar hinar bitru kellingarnar, sem erum hringjandi í Pétur og Pál, aðallega Pál Magnússon útvarpsstjóra, til að ausa úr okkur skömmum og svívirðingum í ómældu magni.
Silvía Nótt fékk 70.000 atkvæði í kosningunni og ég leyfi mér að túlka það sem svo að um 14.000 manns hafi kosið hana og geri því skóna að þeir hafa verið svo örlátir að gefa henni öll atkvæðin sín fimm. Mér fannst á einlægum aðdáendum hennar að þeir myndu leggja allt í sölurnar til að koma henni til Grikklands og býst ekki við að þeir hafi farið að halda fram hjá henni með Regínu Ósk, Árnýju eða ljóshærða Dalvíkingnum.
Sem sagt um 5% þjóðarinnar hafa stutt hana sem er bara nokkuð gott og slagar hátt upp í fylgi Framsóknarflokksins, sem fer með æðstu stjórn þessa lands.
Þjóðin eyddi 15 milljónum í hringingar, RUV eyddi 70 milljónum í umgerðina og ég eyddi mörgum klukkutímum fyrir framan sjónvarpið ásamt stórum hluta þjóðarinnar nagandi neglur í örvæntingu og spenningi. Hver græddi mest? Auðvitað símafyrirtækin.
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 6:05 e.h.
þriðjudagur, febrúar 21, 2006 :::
Hæ,
Ég er alveg í skýjunum yfir sigri Silvíu Nætur í evróvisjón. Frumlegt og menningarlegt framlag Fróns til evrópskra dægurlaga, sem á ekkert annað skilið en fyrsta sæti, ekkert annað en toppsigur. Svo er Silvía Nótt líka svo sérlega gáfuleg og hæversk í alla staði. Flott og óaðfinnanleg í Kastljósinu. En þar fannst mér sjónvarpsliðið algerlega bregðast, þegar þeir létu vera að sýna áhorfendum hvernig skurðgoðið pissaði í beinni útsendingu, af því hún hafði ekki mátt vera að því að fara á klósettið áður en hún fór í viðtalið, sem er ekkert skrýtið, önnum kafin kona. Hræðileg mistök hjá upptökuliðinu. Þó þeir hefðu ekki nema sýnt manni rjúkandi pissupoll stjörnunnar á gólfinu eða pissublettinn eftir hana í stólnum. Ég skil ekkert í þeim að taka ekki nærmyndir af svona einstökum atburði. Vonandi hafa þeir hjá sjónvarpinu haft vit á að varðveita ummerkin, sem í dag eru orðnar sjálfsagðar söguminjar, sem skáka öllum torfbæjartóftum og gömlum beinasamtíningi. Ef ekki - þá er þetta ekkert annað en lögreglumál.
Ogisslea lélt að sýna manni ekki pissið úr henni. Aular!
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 12:25 e.h.