Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, október 19, 2007 :::
 
Hæ,
Í gær kom dótturdóttirin heim með heimaverkefni í móðurmálinu - leifunum af ástkæra, ylhýra - úr skólanum, sem hún átti að skila næsta dag og bar hún ömmu og afa strengileg fyrirmæli um að hún skyldi skila verkefninu fullunnu næsta dag. Ábyrgðin lenti á ömmunni, sem er sjálfskipaður hreintungusérfræðingur og réttritunardómstóll á heimilinu, vinnustaðnum, innan stórfjölskyldunnar og þótt víðar væri leitað. Hún tók strax upp úr skólatöskunni skilaboðabók, þar sem menntaðir leiðbeinendur skrásetja vandlega öll fyrirmæli um heimavinnu og hvenær henni skuli skilað. Skyldi nú hafist handa og verkefnið klárað sem fyrst.
Það varð samt smábið á því að hægt yrði að byrja á heimavinnunni, þar sem amman fékk því sem næst hjartaáfall og hneig í djúpri geðshræringu niður í næsta stól með andnauð og glóandi blóðþrýstingssúlu upp undir rjáfur, þegar hún las skilaboðin, sem hljóðuðu svona:
Gera stafsettningar æfingu. í stílabók
Það sem ömmunni þykir verst er að það er því miður til fullt af fólki, sem hefur litla sem enga hugmynd um í hverju villurnar í þessari stuttu setningu eru fólgnar og er alveg nákvæmlega, hjartanlega skítsama.
Kveðja, Bekka

::: posted by Bergthora at 2:57 e.h.


fimmtudagur, október 18, 2007 :::
 
Hæ,
Í dag er fimmtudagur.
Í gær og á morgun er Dagur B. Eggertsson.
Nú ráða tvær Dísir Orkuveitunni.
Einu sinn var Villi.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:32 f.h.


miðvikudagur, október 17, 2007 :::
 
Hæ,
Þá er ég búin að fara enn eina ferðina til Rússíá og heim aftur. Búin að vera þar í mörg hundruð manna hópi útlendinga, sem allir töluðu saman á rússnesku. Dásamlegt. Það sem gladdi mitt gamla kommahjarta var að allt þetta fólk bar afar hlýjar taugar til Sovétríkjanna sálugu. Hver af öðrum lýsti yfir þakklæti og ánægju með dvöl sína í Sovétríkjunum, en þetta fólk átti það sameiginlegt að hafa numið þar við háskóla, fengið þar námslaun, frítt húsnæði, fríar skólabækur, fatastyrk og úrvals kennslu. Sovétríkin sálugu menntuðu hátt í sjöhundruð þúsund erlenda stúdenta án nokkurra skilmála. Þegar námi lauk var viðkomandi afhentur farmiði til heimalandsins. Megnið af þessu fólki var frá þróunarlöndunum og hafði að loknu námi snúið aftur til síns heima og hafið þar kennslu, tekið þátt í stjórnun landsins, gegnt ráðherraembættum og trúnaðarstörfum, þannig að menntun þess bar margfaldan ávöxt. Í Moskvu hafði verið stofnaður háskóli til að mennta fólk frá þróunarlöndunum. Ekkert land hefur unnið slíkt afrek í þróunaraðstoð nema Sovétríkin.
Enn var ég á ferð í gamla háskólanum á Lenínhæðum, þar sem ég bjó um nokkurra ára skeið. Að vísu heita hæðirnar Vorobjovhæðir núna, en enn prýða hamar og sigð hæsta háskólaturninn. Kannske bara erfitt að ná merkinu niður. Það gladdi mig mjög að þarna var búið að finna upp hjólið, en þegar ég bjó í háskólanum var það ekki til. Það eru greinilega háskólastúdentar, sem hafa fundið upp hjólið, vegna þess að við vistarinngangana var allt fullt af slíkum gripum og unga fólkið greinilega farið að hjóla í skólann.
Maturinn hafði skánað verulega í háskólamötuneytinu, en úrvalið var svo sem ekkert fjölbreyttara en í gamla daga. Þeir sem höfðu lifað og hrærst í háskólanum réðu sér ekki fyrir kæti þegar farið var að borða í mötuneytinu í zónu B.
Ég fór og skoðaði matvörubúðina sem var rétt við vistirnar í gömlu zónunni minni. Þar hafa átt sér stað talsverðar breytingar. Ég mundi þær stundir er ég gekk um búðina og var alveg í vandræðum með að finna eitthvað sem hægt væri að hafa í matinn þann daginn og lét mig dreyma um fallegar neytendapakkningar eins og voru til vestan tjalds, meðan ég beið í endalausum biðröðum í hverri deild og við kassana. Núna er úrvalið mjög fjölbreytt, hægt að kaupa næstum allt sem hugurinn girntist í matinn og nú hefði verið gaman að kaupa inn handa lítilli háskólafjölskyldu. Og núna þegar ég hefði getað fyllt innkaupanet af gæðavöru og ekki þurfti að bíða í langri biðröð í hverri deild og við tvo til þrjá kassa, brá svo við að mig vantaði ekkert sem þarna var á boðstólum, þarfnaðist einskis og langaði ekki í neitt af því. Á þessu augnabliki fylltist hjarta mitt óendanlega mikilli depurð, er ég endurlifði fornar innkaupastundir. Nú þegar búðin var orðin eins og ég lét mig dreyma svo ákaft um á sínum tíma, þurfti ég ekki lengur á því að halda. Það var orðið um seinan.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:00 e.h.




Powered by Blogger