Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

þriðjudagur, febrúar 27, 2007 :::
 
Hæ,
Ég var fyrir algera tilviljun stödd niðri i miðbæ þegar út braust mikil vetrarhátíð í borginni með tónleikum, opnum söfnum og hvers kyns uppákomum. Ég veit ekki hvort var meiri frétt, hin árlega vetrarhátíð eða það að mín auma persóna var stödd í miðbænum það hið sama kvöld upptekin við að stunda skemmtana- og gjálífi af veikum mætti. Þegar leið að lokum minnar einkahátíðar gekk ég ásamt fleirum gegnum miðbæinn og yfir Austurvöll til að klára kvöldið á krá í nágrenni við Dómkirkjuna, þar sem okkur var í mun að vera sem næst almættinu í þeirri spillingu, sem umlukti okkur á alla vegu í þeirri Sódómu og Gómorru skemmtanalífsins sem miðborgin er. Á Austurvelli blasti við mikil ljósadýrð þar sem Alþingishúsið var miðpunktur og skiptust þar fagurlega á geislar og skuggar. Það var ekki hægt annað en að staldra við og horfa á þessa skemmtan og dást að þeirri fögru byggingu sem Alþingishúsið er. Nokkrir unglingar komu aðvífandi og stoppuðu til að virða ljósasjóið fyrir sér. Þá gall í einni stúlku í hópnum: “Sjáið þið, það er verið að lýsa upp Sjálfstæðishúsið.” Ekkert furðulegt að hún skyldi halda að byggingin héti Sjálfstæðishús, þar sem þar hafa sjálfstæðismenn ráðið lögum og lofum hátt í tvo áratugi, nema hún hafi verið að vitna til sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á fyrri öldum. Einhvern veginn hallast ég að fyrri tilgátunni, þótt ógeðfellt sé.
Að lokinni hestaskál á bar í skjóli kirkju og þings hringdi ein úr hópnum í vinkonu sína, rúmlega tvítuga stúlku búsetta í einu af þeim sveitarfélögum, sem liggur að höfuðborginni og bað hana að sækja sig á Vínbarinn. Hún hafði ekki hugmynd um hvar sú stofnun væri, sem var harla gott og hreint ekkert út á það að setja. En heimur átti eftir að fara versnandi. Þetta væri við hliðina á Dómkirkjunni. Nei, hún vissi ekkert hvar Dómkirkjan var. Þetta reddaðist þegar loks fannst einn staður í miðborginni, sem viðkomandi þekkti. Hún vissi hvar bra bra átti heima.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:35 e.h.




Powered by Blogger