Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, febrúar 25, 2008 :::
 
Hæ,
Vilhjálmur Þonn er búinn að taka ákvörðun um framtíð sina eftir að hafa verið lengi undir feldi. Það má með sanni segja að allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi verið meira og minna undir feldi vikum saman. Ég var farin að halda að þeir væru lagstir í dvala eða farnir að púpa sig í rólegheitum á fullum launum hjá mér og þér, kæri lesandi. En Guði sé lof - loks sást lífsmark með einum þeirra á laugardagskvöldið, en það var þegar Gísli Marteinn, heiðursdoktor í greininni, tjáði sig vel og lengi í sjónvarpinu um Eurovision, enda þar um þjóðþrifa- og forgangsmál að ræða og ólíkt skemmtilegra en þrefið og þrasið í borginni, sem hann hefur ekki séð ástæðu til að tjá sig um að neinu leyti ásamt öðrum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins - enda hefur ríkt alger sátt og fullkomin eining þeirra á milli um það atriði að láta fjölmiðla alls ekki ná tali af sér, um það hefur ríkt gagnkvæmt traust í þeirra hópi og það hefur lika tekist fullkomlega hjá þeim.
Þegar Vilhjálmur Þonn var búinn að tilkynna þjóðinni ákvörðun sina fór hann aftur í felur, lét ekki ná meira í sig. Hvenær ætli hann birtist næst? Borgarstjórinn líður um eins og svefngengill og lítur út fyrir að vera haldinn fjölmiðlafælni. Kannske hún sé smitandi? Dagur Bjé og Svandís hafa samt ekki smitast enn þá.
Gísli Marteinn og Hanna Birna telja að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki bíða tjón eða skaða af þessari léttvægu uppákomu í borginni, þar sem þau allra náðarsamlegast tjáðu sig í einni setningu í fréttum í gærkvöldi um sátt, samlyndi, traust og órofa heild borgarstjórnarflokks síns. Gísli Marteinn er hættur að brosa, en áður en þessi hörmunarganga hófst man ég ekki eftir honum öðru vísi en brosandi út að eyrum og iðandi af kátínu hvar sem hann kom fram. Að því er virkileg eftirsjá - mér fannst alltaf gaman að sjá Gísla Martein vegna þess að hann hefur ávallt verið glaðlegur og ánægjulegur og laus við allt vol og víl. Nú er búið að þurrka af honum brosið og ánægjusvipinn, en mér finnst alveg nóg fyrir af stjórnmálamönnum, sem ekki geta brosað. og leitt að enn skuli einn hafa bæst í þann hóp.
Gaman að vera í svona flokki, þar sem er enginn ágreiningur, þar sem öll dýrin í skóginum eru vinir.
Ef þetta væri ekki svona agalega sorglegt, myndi ég skella upp úr!
Kveðja,
Bekka

P.S. Sunnudagskvöldið 17. febrúar ræddi Eva María við Þórólf Árnason fyrrverandi borgarstjóra. Þórólfur var ekkert nema FLOTTUR í þessu viðtali, lagði ekki illt orð til eins eða neins, áfelldist engan, dæmdi engan. Stóð eftir sem sigurvegari.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:41 f.h.




Powered by Blogger