Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, maí 28, 2003 :::
 
Hæ,
Síðasti dagurinn í vinnunni í rúmar þrjár vikur. Fjármáladeildin drakk saman kaffi í morgun, sem er mánaðarlegt fyrirbæri í þessari kvennadeild - það er einn hani í hópnum. Við áttum saman góða og skemmtilega stund, þar sem ýmsir brandarar voru látnir fjúka. Ætti ég að láta einn flakka? E.t.v. síðar.
Á föstudaginn leggjum við af stað í sumarfrí. Ég hlakka svooooo til. Við byrjum á að lenda í Köben þar sem allt er svo hyggeligt og sødt! Þar ætlum við að hitta Lindu vinkonu og fara í Tøj og sko, sem er uppáhaldsbúðin okkar í Danmörku og þótt víðar væri leitað. Ætlum að keyra í rólegheitum til Spánar - á eftir að sjá rólegheitin - og slaka síðan á í Barcelóna - í miðborginni hjá Friðgeiri og Súsönu. Við munum eyða helgi í sumarhúsi hjá Gullý og Antóníó - aðallega á sundlaugarbarminum. Á heimleiðinni heimsækjum við Klaus vin okkar í Magdeburg, gamlan skólabróður frá Moskvu.
Nú er bara að hreinsa skrifborðið í vinnunni, ljúka öllu sem ég hef sett til hliðar undanfarið og koma af mér verkefnum. Allir samgleðjast mér innilega að vera að fara í frí. Það er dásamlegt að vinna með glöðu og elskulegu fólki, þar sem ríkir góður andi og jákvætt hugarfar í garð annarra samstarfsmanna. Meðan ég skrifa þetta er stjórn starfsmannafélagsins á fundi í herberginu við hliðina á mér. Hrikalegur hávaði er í þessu liði!

Hvað er framundan?
Hver eru helstu verkefnin?
Að njóta sumarleyfisins og hætta að nota fátæklegan lýsingarorðaforða Völu Matt og Bittu Hauk, sem samanstendur af: Frábær, brillíant og rosalegur. Verðlaun handa þeim sem veit hvor kann hvaða orð!
Sem sagt ný lýsingarorð í orðaforðann.
Kveðja,
Bekka




::: posted by Bergthora at 1:45 e.h.


 
HEILRÆÐI DAGSINS:
OSTASTENGUR -
ÞAÐ TEKUR ÞVÍ EKKI AÐ BÚA TIL MINNA EN TVÖFALDA UPPSKRIFT!

::: posted by Bergthora at 1:22 e.h.


mánudagur, maí 26, 2003 :::
 
Hæ,
Uppskriftin góða!

OSTASTENGUR
375 gr hveiti
225 gr smjörlíki
300 gr Óðalsostur
1 1/2 dl rjómabland
1 tsk salt - ég hef minna salt
hjartarsalt á hnífsoddi.

Hveiti og smjörlíki blandað saman.
Osturinn rifinn og blandað saman við.
Rjóminn, saltið og hjartarsaltið sett saman við.
Hnoðað.
Gott að kæla áður en deigið er flatt út.
Fletja úr, 0,25 sm þykkt, skorið í lengjur.
Bakað við 200° í 5 - 8 mínútur eða 175° í 8 - 10 mínútur.

Kælt og geymt í lokuðu íláti. Geymist á köldum stað eða í frysti ef á að geyma stengurnar lengi.
Það hefur ekki reynt sérstaklega á það hjá mér.
VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!


::: posted by Bergthora at 5:32 e.h.


 
Hæ,
Fín helgi.
Fór með mömmu á föstudaginn í bæinn, Fórum á veitingahúsið hjá Leó, Garðurinn heitir það. Ég fékk mér að borða þar, svo góðan mat, asíska súpu og hnetuhleif. Svo ljúffengt og bragðgott. Á eftir fékk ég mér Columbia-kaffi. lagað á hefðbundinn máta og kláraði afganginn af gulrótartertunni hennar mömmu, sem hún gat bara borðað smápart af. Mæli með Garðinum! Staðinn á og rekur Leó Torfason ásamt konu sinni Guðnýju. Þau eru alveg yndisleg hjón.
Við komum við í búðinni hjá Guðrúnu og síðan litum við inn Hjá Berthu. Mamma keypti sér gellublússu, alveg svakalega flotta. Hún verður fínust í kórnum, sagði Bertha. Ég tek undir það.
Mamma fór í mat til Ásgríms um kvöldið (sumir mundu segja: Ásgrímur hafði mömmu í mat um kvöldið). Á meðan fór ég sem hvítur stromsveipur um íbúðina, þreif og þurrkaði af, skúrarði og skrúbbaði, bónaði og bakaði.
Las á bloggsíðum afkomenda að ég hefði haldið svo fínt kaffiboð á laugardagsmorguninn. Ég er alveg sammála því. Ég dekkaði upp með næstfínasta stellinu mínu - þetta var nú að morgni dags - og setti margar sortir á borðið. Gestirnir voru allir hinir ánægðustu og mjög hamingjusamir með veitingarnar. Mættar voru Þóra Þorst, Dísa, Silja, Hildur Karitas, Ásta, Harpa, Guðrún, Ragnheiður, Úrsúla Örk, Beigó og Agneta. Þórdís frænka var sofandi heima.
Síðari hluta dagsins var stúdentsveislan hennar Hildigunnar, sem allir hæla á bloggsíðunum, og svo sannarlega tek ég undir það. Hildigunnur var svo falleg og glöð, ræðan hennar var svo frumleg og skemmtileg, Jóhanna var dásamleg, veitingarnar voru æðislegar, söngurinn var yfirnáttúrulegur, gestirnar skemmtilegir, öll fjölskyldan stórkostleg - yndisleg stund. Ég ætti e.t.v. ekki að tala um stund - við mamma vorum í boðinu í 8 klukkutíma. Ég hefði bara átt að vera lengur og keyra fólk heim í lokin - sumir urðu að labba heim.
Ostastengurnar mínar gerðu taumlausa lukku, bæði í mínu boði og stúdentsveislunni, þó ég segi sjálf frá. Enginn vandi að baka þær. Prófið bara.
Sjá uppskriftina hér annars staðar á síðunni.
Við mamma fórum svo í Perluna i hádeginu á sunnudag og fengum okkur hádegismat. Jóhanna og Hildigunnur komu í kaffi, alveg í skýjunum eftir veisluna. Eyjó kom úr Skálholti og við keyrðum mömmu út á flugvöll. Þar hitti ég Ninnu og Halla, sem voru að halda upp á demantsbrúðkaup um daginn. Búin að vera gift í sextíu ár. Ég var heimagangur hjá þeim á Akureyri í gamla daga. Ó, það var alltaf svo gaman að koma til þeirra.
Sigrún Sól kom til okkar frá Keflavík, var í tölvunni þangað til mamma hennar, Hafsteinn og Úrsúla Örk komu að sækja hana. Fórum að skoða myndir og Úrsúla var mjög hrifin að sjá myndir af systur sinni og benti á allar myndir af henni og sagði: Gogga, Gogga.
Þetta er bara orðið gott í dag.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:50 e.h.




Powered by Blogger