Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, maí 02, 2005 :::
 
Hæ,
Ég fór eldsnemma á fætur á laugardagsmorguninn til að leggja mitt af mörkum til kökubasars, þar sem Sigrún Sól var einn af skipuleggjendunum. Bakaði tvær ilmandi afmæliskringlur, sem heppnuðust með afbrigðum vel. Sigrún Sól átti að mæta klukkan 9:30 í Kringluna ásamt fleiri ungmennum úr BUSL, sem er æskulýðsstarf fatlaðra unglinga á vegum Sjálfsbjargar. Amman var ekki alveg á réttum tíma, mætti með volgar kringlunar í Kringluna klukkutíma of seint. Þá var þegar búið að selja eina bangsalaga, smartísskreytta súkkulaðiköku, sem Sigrún Sól hafði komið með að heiman og var hún að vonum afar hreykin yfir þessum frábæra árangri. Hún geislaði af ánægju og gleði, hafði komið sér fyrir á besta afgreiðsluplássinu í sölubásnum og batt miklar vonir við innkomuna af kökusölunni, sem er liður í fjáröflunarátaki fötluðu barnanna fyrir Svíþjóðarferð.
Þar sem ég stóð og spjallaði við Sollu og hina krakkana, fannst mér salan ganga frekar hægt og of fáir koma til að skoða vörurnar. Mér fannst að sem flestir ættu að kaupa af þeim og borga jafnvel hærra en upp var sett, en ekki flýta sér hjá og forðast að horfa í augu þessara barna, sem Guð hafði auðkennt andlega eða líkamlega. Þá flaug mér einnig í hug sú hugsun – og ekki í fyrsta skiptið - að auðvitað ætti samfélagið að styðja fatlað fólk svo ólíkt betur og af meiri umhyggju en gert er. Væri ekki eðlilegt að ríkið hefði allar þarfir þess og langanir innan eðlilegra marka á fjárlögum, svo að fatlaðir þurfi ekki að vera á snöpum til að fjármagna skemmtiferðir?
Væri ekki nær að Halldór og Davíð héldu kökubasar í Kringlunni til að fjármagna hlut Íslands í innrásinni og stríðinu í Írak? Væri ekki gaman að sjá þá standa í dökkum jakkafötum innan við afgreiðsluborð og hamast við að selja marenstertur og kleinur til að geta lamið á fátæklingum í Írak og sprengt þá í tætlur? Hvort fólk vildi ekki gera svo vel að kaupa kaffibrauð og styðja þá þar með fjárhagslega til manndrápa. Þeir hefðu því miður ekki komið þessum málalið inn á íslensku fjárlögin, vegna þess að fatlaðir og sjúkir hefðu þar algeran forgang. Íslensku friðargæsluliðarnir í Afganistan gætu jafnvel puntað upp á básinn og verið þeim innan handar við afgreiðsluna á mili þess sem þeir gætu skotist í búðarferðir í Kringlunni.
Eitt var víst að gleðin var í fyrirrúmi í sölubási fötluðu krakkanna, yfir hverri krónu, sem inn kom ríkti falslaus ánægja, bjartsýni og trú á góðvild og hjartagæsku viðskiptavina Kringlunnar. Líklega heilbrigðari fjáröflun heldur en að vera á fjárlögum ríkisins.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:47 f.h.




Powered by Blogger