Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, apríl 27, 2006 :::
 
Hæ,
Skáldsögusalan í hverfisbúðinni heldur áfram að leita á huga minn. Ég gerði nokkuð ítarlega könnun á bókmenntaúrvalinu í hillunum við kassann þegar ég stóð og beið með óþreyju eftir að reiða af hendi nokkra þúsundkalla fyrir smáræði sem ég hafði tínt í innkaupakörfuna, allt óhollusta og óþarfi. Skáldverkin skiptast í bókaflokka eftir innihaldi: Spennusögur, örlagasögur, ástarsögur og sjúkrahússögur.
Spennusögurnar eru auðvitað ákaflega spennandi, ganga út á dirfsku og dug, þar sem teflt er á tæpasta vað allan tímann. Ástin og örlögin eru ekki langt undan í slíku verki. Að lokum stendur aðalsöguhetjan uppi sem allsherjar sigurvegari og lesandinn með allar neglur nagaðar upp í kviku af spenningi og æsingu.
Örlagasögurnar fjalla um svo mikilfengleg örlög og hlutskipti, að ætla mætti að slíkt væri ekki nokkurri lífveru bjóðandi, en söguhetjunni tekst að spinna lífsvef sinn í rétta og farsæla átt þrátt fyrir hrikalegur gildrur og flækjur bæði af guðs og manna völdum. Í bókum af þessu tagi gegna spenna og ástir líka veigamiklu hlutverki.
Í ástarsögunum koma spenna og örlög líka ríkulega við sögu, en þarna er ástin í aðalhlutverki og gefur tóninn út í gegn. Persónurnar skiptast í góðar og vondar söguhetjur. Flestar góðar, ein eða tvær ofsalega vondar og grimmar. Ekkert venjulegt fólk þar á ferli.
Ég leyfi mér að setja fram þessa einföldu skilgreiningu án þess að hafa lesið þessi margslungnu meistaraverk, sem greinilega höfða mjög til bókhneigðra viðskiptavina hverfisbúðarinnar. Þau virðast renna út eins og heitar lummur, vegna þess að það skiptir mjög ört um bókartitla í hillunum. Ég er líka handviss um að ég get sagt fyrir um endalok hverrar sögu eftir að hafa lesið fyrstu 10 – 20 blaðsíðurnar – eða bara eftir að hafa lesið kynninguna á baksíðu.
Sjúkrahússögurnar eru að mínu mati alveg í sérflokki.. Það virðist sem sjúkrahúsin séu vinnustaður, þar sem ást, spenna og örlög tvinnast saman og allt ólgar og kraumar á suðupunkti, vinnustaður, sem er þess virði að nota sem umgerð í vinsælar skáldsögur. Enginn virðist hafa áhuga á að nota verslunarmiðstöðvar, bílaþvottastöðvar, niðursuðuverksmiðjur, verkfræðistofur, skóverkstæði, lakkrísgerðir, sjoppur, hárgreiðslustofur eða smurstöðvar sem umgerð í fallega, rómantíska og spennandi ástar- og örlagasögu.
Ein bókin í flokki sjúkrahússagna ber t.d. þann ógnþrungna titil: Faraldur. Önnur heitir: Hjúkrunarkona á batavegi. Á batavegi eftir hvað? Kannske faraldurinn í bókinni við hliðina? Hún gæti líka hafa fengið fuglaflensu. Skyldi hugprúði skurðlæknirinn hafa komið þar við sögu og fengið hugprýðititilinn fyrir að vinna brautryðjendastarf á sviði læknavísinda er hann læknaði fuglaflensusmitaðan einstakling? Hvernig skyldi svo sambandi þeirra vera háttað. Spennandi og leyndardómsfullt. Rómantískt. Nei, þau ná líklega ekki saman, enda eru þau ekki söguhetjur í sömu bókinni.
Mundi einhver kaupa bók sem héti: Bakari á batavegi? Gæti hafa brennt sig við baksturinn - sem sagt klaufi. En Draumlyndi dúklagningamaðurinn? Sá væri svo utan við sig að hann myndi bara skera af sér fingur og þá blasir við tekjuleysi og eymd. Ekki spennandi. Hefði einhver áhuga á að lesa Prúða pípulagningamanninn, Vinstri sinnaða verkfræðinginn eða Ráðsnjalla rafvirkjann? Virkar ekki á mig þótt rafvirkinn gæti reddað skammhlaupi í aðveitustöð.. Hvað með Úrræðagóða iðnrekstrarfræðinginn? Gæti hann selst vel?
Ástir í efnalaug. Geta kviknað heitar ástríður og tilfinningar í efnalaug? Ekki líklegt. Hvað með Kærleikur í kirkju? Maður myndi halda að það ætti vel við, en þessi titill gerir sig ekki, enda þjóðfélagið ekki hrifið af því að fólk sé að nota kirkjuna til ástarhóta. Slíku er samstundis slegið up á forsíðu í DV og allt fer í bál og brand.
Nei, það virðast bara sjúkrahúsin og læknastéttin sem virka í ástarsögunum. Læknirinn hennar. Fínn bókartitill. Hann læknar hana af einhverjum óþekktum sjúkdómi, sem enginn hefur lifað af áður, tjaslar henni saman eftir ógnvekjandi slys eða bjargar lífi hennar á einhvern annan undraverðan hátt, trúlofast henni að lokum og allt er svo dásamlegt, heillandi og draumkennt. En takið eftir: Ttitillinn Tannlæknirinn hennar verður óspennandi – tannskemmdir, andremma og tannholdsbólgur. Svimandi tannlæknareikningar og blankheit. Ekkert gaman. Þjónustufulltrúinn hennar. Manni dettur í hug yfirdráttur, vanskil og meiri blankheit. Gæti verið framhald af bókatitlinum hér á undan, blönk eftir samskiptin við tannlækninn. Bifvélavirkinn hennar. Óspennandi kona, sem hefur ekki efni á að kaupa nýjan bíl og á bíldruslu, sem stöðugt þarf að láta lappa upp á og endalausir reikningar fyrir viðgerðum hlaðast upp.
Ég átti eftir að slá botninn í þessa langloku þegar ég kom við í hverfisbúðinni til að kaupa einn lítra af mjólk, sem varð að fullum innkaupapoka upp á nokkur þúsund kall, þegar ég rak augun í nýja bók með spennandi og óræðum starfsvettvangi. Kúreki með meiru. Lofar góðu.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:55 e.h.


miðvikudagur, apríl 26, 2006 :::
 
Hæ,
Í fréttaþættinum “Í speglinum” í Ríkisútvarpinu í gær var enn einu sinni stagast á því að kjarnorkusprengjum hefði verið varpað á Hírósíma og Nagasaki. Hvernig var það með þessar kjarnorkusprengjur? Var þeim bara varpað? Hver varpaði þeim? Það er alltaf látið eins og þær hafa bara dottið si svona af himnum ofan. Aldrei er sagt hverjir frömdu ódæðið. Hvað er eiginlega að þessum frétta- og blaðamönnum?
Ég bara minni á að það voru bandarískir ráðamenn, sem tóku þessa ákvörðun og létu framkvæma hana.
Gleymið því ekki!
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:28 e.h.


þriðjudagur, apríl 25, 2006 :::
 
Hæ,
Ég keyrði um daginn langa leið innanbæjar á eftir jeppa, sem hefur kostað ca. 8 milljón krónur. Samt voru engin stefnuljós á honum.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:50 e.h.




Powered by Blogger