Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, febrúar 13, 2004 :::
 
Hæ,
Þura enn þá með barni síðast þegar ég frétti. Mér verður hugsað til hennar dag hvern og vona sannarlega að hún fari ekki að geyma barnsburðinn til 21. mars nk. Ekki það að gaman er að eiga ættingja sem á sama afmælisdag og maður sjálfur, en ég get ekki hugsað nokkurri konu það að ganga með barn svo lengi fram yfir. Vona að allt gangi vel á mánudaginn hjá þér, Þura. Bíðum með óþreyju eftir fréttum.
Einar Bjarni farinn að blogga frá uppáhaldsnetkaffihúsinu mínu í Barselónu. Gott framtak. Farðu sem oftast á netkaffið, Einar. Það hrjáir blogghringinn einhver þorraleti. Ég er alvarlega farin að hugsa um að setja inn hjá mér nýja tengla - utan ættar. Það eru ansi margir skemmtilegir bloggarar á Thorworks, sem ég skoða nokkuð reglulega, en mér brá í gær þegar ég ætlaði inn á svarta síðu Sverris Jakobssonar, þar sem allar færslur eru í föstum skorðum menntamannsins. Þá er Thorworks allt í einu tengdur við einhvern Sverri svepp á Selfossi sem á rósrauðri síðu er afar mikið niðri fyrir og hefur greinilega farið á mis við stafsetningarkennslu, fyrir utan að líf hans heillar mig einhvern veginn ekki. Mér datt í hug að Sverrir Jakobsson væri að gera grín, en komst að þeirri niðurstöðu að kímnigáfa hans hlyti að vera á hærra plani en þetta.

FEGURÐ EÐA LÝTI
Margt drífur á daga landans um þessar mundir. Allir hafa haft fastmótaðar skoðanir á fyrirhuguðum lagfæringum á Rut Reginalds, sem er víst öll skökk og ill farin hvernig sem á því stendur, m.a. er gamla silikonið farið að leka og lafa. Þetta er nokkuð skemmtileg umræða og þar hafa mörg gullkorn fallið. T.d. sagði snyrtifræðingurinn í blaðaviðtali eitthvað á þá leið að hún hefði séð útliti Rutar hraka verulega frá því Rutar-bókin kom út og þar til hún kom fram í sjónvarpsþætti. Mér reiknast svo til að þetta hafi verið 6 – 8 vikna tímabil, alls ekki lengra.
Það veit hver heilvita maður, gæddur sæmilegri eftirtekt, að fólki á næstum hvaða aldri sem er, hrakar ekki í útliti á svo skömmum tíma að eftir verði tekið, nema það sé haldið alvarlegum eða jafnvel banvænum sjúkdómi eða sé á kafi í áfengis- eða eiturlyfjaneyslu. Þá getur verið að viðkomandi hætti að þrífa sig og hirða um útlit sitt, en þá verður fólk bara skítugt og sóðalegt og hægt að ráða bót á því með góðu baði. Mér fannst þetta innlegg snyrtifræðingsins segja sitt um hennar fagmennsku og er hún hér með úr sögunni hvað mig varðar. Mér skilst að læknirinn sé líka úr sögunni, en mamma Rutar komin til sögunnar. Gaman að hún skuli vilja styðja dóttur sína svo fallega og heils hugar í þessu átaki.
Mér fannst alltaf talað um lýtalækingar, en ég vil kalla þetta fegrunaraðgerðir, vegna þess að ekki er um lýtalækningar að ræða nema sé verið að lagfæra ytri lýti og ég get ekki séð neitt slíkt á Rut. Hún er kannske ekki með klassískt andlit, en ég sé ekkert sem þarf að gera veður út af hjá henni. Inn í hennar sálarlíf get ég ekki skyggnst, þar sem ég hef enn ekki lesið bókina um hana.
Einhvers staðar sá ég að í þessu mikla lýtaátaki stæði til að hreinsa þarmana á Rut. Ég fór að hugsa um hvernig þarmahreinsun ætti sér stað. Verður skafið úr þörmunum á henni með teskeið eða spúlað með háþrýstislöngu í beinni? Eða verður þarmasettið kannske rifið úr henni í nokkra klukkutíma, sett í þvottavél eða sent í kemíska hreinsun og hún látin liggja þarmalaus með opið kviðarholið á skurðarborði sem stillimynd á Stöð 2 á meðan? Fær hún það sem safnast með sér heim í krukku, sem hún getur haft inni í stofu eins og fínar frúr á Akureyri gerðu í gamla daga við gallsteinana sem teknir voru úr þeim.
Vitur kona sagði í einhvers staðar í þessari umræðu allri, að væri einhver óánægður með útlit sitt, ætti sá eða sú að byrja á því að taka til í sálarlífinu. Sem sagt verði Rut ekki ánægð með sína persónu eftir nokkrar skurðaðgerðir og fimm milljónir króna hlýtur að þurfa að skipta um haus á henni.
Væri ekki fyrirhafnarminnst að byrja á því?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:42 e.h.




Powered by Blogger