Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, september 15, 2004 :::
 
Hæ,
Oft heyrist fólk tala um hvimleiða símasölumenn og símabetlara, sem hringja á öllum tímum sólarhringsins og bjóða vöru til styrktar afskaplega þörfu málefni eða eru bara tilbúnir að taka við beinhörðum peningum eða kortanúmerum frá húsráðanda til styrktar einhverjum, sem hinir ötulu safnarar telja að hafi miklu meiri þörf fyrir féð en sá sem hringt er til.
Það er um að gera að vera ávallt viðbúinn og hafa svör á reiðum höndum, þegar betlarar af þessu tagi hringja og ónáða mann við kvöldverðarborðið eða rjúfa dramatíska senu í uppáhaldssjónvarpsþættinum.
Oft er verið að selja geisladiska og fólki talin trú um að andvirðið renni að mestu til styrktar einhverjum illa settum aumingjum. Romsa þess efnis rennur viðstöðulaust upp úr betliliðinu og það virðist ekki þurfa að anda nema endrum og sinnum. Ég veit betur, megnið af því sem safnast fer allt annað en til hinna bágstöddu. En ekki meira um það í bili, ég gæti skrifað sérstakan pistil um það svínarí.
Þegar boðinn er geisladiskur segir maður um hæl: “Nei takk. Ég á ekki geislaspilara.” Þetta svar vekur afar mikla undrun á hinum endanum og það skapast smáþögn, sem skal nota til að segja: “Þakka þér fyrir og gangi ykkur vel.” Muna að setja lygaramerki á tærnar á meðan.
Bækur eru afskaplega vinsælar í símasölu og þegar slík gylliboð eru á línunni hefur oft gefist vel að segja: “Takk fyrir, en ég á þessa bók eða bókaflokk.” En ég lenti eniu sinni í því að bókin var ekki komin út, svo ég breytti um afþökkunaraðferð og segi núna: “Því miður, ég á svo afskalega mikið af bókum og kem þeim ekki öllum fyrir. Getur þú nokkuð selt mér bókahillur?” Vilji svo ólíklega til að svarið sé jákvætt, er best að biðja viðkomandi að selja sér jafnframt eins og tvo til þrjá veggi fyrir bókahillur? Þetta hefur gefist nokkuð vel og hikið sem kemur á betlarann er notað til að kveðja og þakka fyrir gott boð og skemmtilegt samtal.
Þá kemur fyrir að trúarfrík af ýmsu tagi gera vart við sig og það oftar í eigin persónu fremur en með símatækninni. Þar hef ég óbrigðula aðferð. Þegar sendiboðar almættisins breiða úr áróðursritum sínum eins flinkir bridge-spilarar með eintóm trompspil á hendi og hefja upp raustina til að útbreiða boðskap sinnar trúar eða vantrúar, segi ég hátt og snjallt: “Ég er kommúnisti.” Bregst ekki. Trúarfríkið pakkar og hverfur á braut. Hefur greinilega hitt fyrir ofjarl sinn eða telur að þessari persónu sé ekki viðbjargandi. Hennar bíði ljóti kallinn sjálfur í eftirvæntingu.
Þegar hringt er og ég beðin að taka þátt í spurningakönnun eru viðbrögð mín heldur betur á ólíkan veg. Ég verð ávallt hin glaðasta og vil endilega taka þátt í öllum könnunum. Þegar ég var að halda út í bæ í vetur til að halda upp á merkisafmæli mitt var hringt frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og ég spurð hvort ég gæti tekið þátt í einhverri könnun. Ég mátti ekki vera að því og tók hátíðlegt loforð af spyrjandi þess efnis að hringt yrði í mig tveim dögum síðar. Það mætti ekki bregðast, því svona kannanir væru mitt líf og yndi. Spyrillinn hafði aldrei fyrirhitt svo áhugasaman svaramann.
Síðasta spurningin í þessum könnunum hljóðar oftast svo: Finnst þér þessi könnun of stutt, of löng eða mátuleg? Mér finnst þær alltaf of stuttar og vil alltaf koma miklu meiri upplýsingum á framfæri og svara ótal spurningum í viðbót.
Mér hafa verið sendar í pósti ýmsar kannanir, sem ég fylli viðstöðulaust út og sendi um hæl, oft læknisfræðilegs eðlis og síðan hef ég þurft að mæta á rannsóknastofur úti í bæ til að svara fleiri og ýtarlegri spurningum. Ég nýt þess að svara spurningum um viðhorf mitt til bankans míns, til skólamála, um heilsufar mitt, t.d. ásigkomulag hjarta og æða, þunglyndi, þvagleka, kólesteról, meltingarsjúkdóma, grindargliðnun og fleiri skemmtilegt.
Maðurinn minn fékk fyrir nokkrum mánuðum senda könnun í pósti um risvandamál og kynhegðun, sem fjórir læknar stóðu að og Gallup framkvæmdi. Hann bað mig að svara þessari könnun fyrir sig, þar sem þetta væri eitt af mínum áhugamálum. Ég gerði það eftir bestu samvisku og sendi svörin umsvifalaust með Íslandspósti í merktu svarumslagi óritskoðað. Viti menn – í gærkvöldi birtist í Kastljósi einn læknanna til að fjalla um niðurstöðurnar. Guð, hvað ég var hreykin yfir að hafa verið aðili að þessari könnun. Mér fannst bara læknirinn og Kastljós-spyrlarnir ekki nægilega virðulegir í umfjöllun sinni, þeir voru eins og smástrákar, skríktu og iðuðu eins og þeir væri rétt komnir með hvolpavit.
Við hjónin spjölluðum lengi á eftir um könnunina og niðurstöðurnar hennar. Eftir nokkurra klukkustunda rökræður fundum við út, að ég hefði gert reikningsskyssu, sem gæti skekkt niðurstöðurnar þó nokkuð - ég var nú í máladeild. Ég var að hugsa um að hringja í Gallup sjálfan til að leiðrétta þessi leiðu mistök, en ákvað svo að vera ekki að fara með þetta í gegnum einhverja milliliði og hringdi beint í lækninn úr Kastljósi. Hann hafði ekki mikinn áhuga á að fá þessar upplýsingar til að bæta inn í rannsóknirnar hjá sér, heldur var bara grautfúll og sagði mér að klukkan væri orðin hálfþrjú. Eins og maður kunni nú ekki á klukku.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 4:15 e.h.




Powered by Blogger