Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, mars 30, 2007 :::
 
Hæ,
Alltaf er nóg af skemmtilegum fréttum, t.d. eins og fréttin um að Sjóvá ætti nóga peninga til að leggja í vegagerð hér innanlands og beint í framhaldi kemur í ljós að þeirra útreikningar á vegaframkvæmdum eru miklu lægri en útreikningar samgönguráðherra og ríkissjóðs, sem sýnir auðvitað og sannar að ríkisstjórnin kann ekki að reikna og að afar þykkt og vel er smurt á alla reikninga til ríkisins og enginn afsláttur gefinn.
Ég er ekkert hissa á þessum miklu fjárráðum tryggingafélagsins, þar sem ég heyrði ekki fyrir löngu að það hefði grætt tólf milljarða í fyrra. Við þá frétt varð mér að orði að mér fyndist að Sjóvá gæti gefið mér góðan afslátt af bifreiðatryggingunum, sem ég hef greitt þeim skilvíslega um áratuga skeið, í stað þess að liggja á gróðanum eins og ormur á gulli. Ég sé enga ástæðu fyrir tryggingafélög til að safna í sjóði, heldur taldi ég hlutverk þeirra að hlúa að hagsmunum viðskiptavina sinna og tryggja þeim sem lægst iðgjöld og hagstæðust, en ekki að skara eld að eigin köku. Eitthvað virðist kúrsinn hafa skekkst hjá Sjóvá og félagið færst verulega frá upphaflegu hlutverki sínu.
Fleiri skemmtilegar fréttir – ráðherrarnir eru þessa dagana á faraldsfæti með tékkhefti ríkissjóðs upp á vasann og skrifa hver sem betur getur ávísanir upp á framtíðarfjárframlög til hvers málaflokksins á eftir öðrum í hverju krummaskuðinu á fætur öðru í þeirri von að öðlast aðdáun og atkvæði kjósenda. Meira að segja félagsmálaráðherra, sem hefur í fjölmiðlum verið auglýstur í andarslitrunum í skipti eftir skipti, hefur öðlast það mikinn mátt að hann getur párað undir kosningaávísanir og bundið hendur næstu ríkisstjórnar um ókomin ár.
Lokafréttin í flokki skemmtilegu fréttanna er sú að í gær greiddi ég mér í flýti áður en ég fór til vinnu og eins og vanalega fannst mér ég líta svo ljómandi vel út í baðspeglinum, en þegar ég leit í spegilinn í vinnunni kom annað í ljós. Furðuleg greiðsla en um leið kunnugleg. Jú, takk fyrir – sama greiðslan og á Donald Trump.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:28 e.h.


mánudagur, mars 26, 2007 :::
 
Hæ,
Ég var náttúrulega í afmælinu hans Þórólfs, vinar míns, á laugardagskvöldið, þar sem saman voru komnir örfáir af hans bestu vinum, aðdáendum og ættmennum, líklega um 300 manns. Það þarf ekki að orðlengja það, að afmælið var til fyrirmyndar í alla staði, góðar veitingar og þjónusta, hófstillt og hæfilega löng dagskrá og auðvitað góðir gestir. Bæði forsetinn og Halldór Blöndal voru þarna, en héldu sig hvor frá öðrum, svo ekki kom til neinna átaka. Rétt eftir að við hjónin höfðum heilsað afmælisbarninu og eiginkonu hans og fært okkur til hliðar, bar að bæjarstjórahjón af Suðurnesjum ásamt ljósmyndara, sem stillti þeim fjórum upp og hóf að taka myndir í gríð og erg. Hélt hann þvi áfram meðan nokkrir misfrægir gestir fluttu drápur og báru fram árnaðaróskir og vorum við svo heppin að standa allan tímann í bakgrunni, enda vorum við hjónin sammála um að þetta væri okkar eini möguleiki til að komast á prent í Séð og heyrt.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:28 e.h.




Powered by Blogger