föstudagur, nóvember 21, 2003 :::
Hæ,
Ég var að lesa Börsungabloggið. Þórdís frænka er alltaf sami fullkomnunarsinninn. Þórdís, þú misskilur þetta algerlega! Þegar fólk stundar málanám eru áhugasamir kennarar sífellt að reyna að finna einhver verkefni handa nemendum sínum. Þá er eðlilegt að þessi verkefni tengist daglega lífinu og ýmsu, sem fólk þarf að tjá sig um og rabba um, t.d. við nágrannana, ef einhver er svo heppinn/óheppinn að þurfa að hafa samskipti við þá. Hér er því ekki um vísindalegt verkefni að ræða, enginn mun nokkru sinni sannreyna niðurstöðurnar. Hér er eingöngu verið að æfa fólk í spænskri málfræði og fá það til að tjá sig á því tungumáli, sem það leggur stund á. Öðru vísi er ekki hægt að læra önnur tungumál. Þess vegna er mjög hagstætt fyrir nemanda í erlendu tungumálanámi, sem á að segja frá því hvenær verslanir og stofnanir í einhverju landi eru opnar og hvenær lokaðar, að sá tími sé sem fjölbreytilegastur og flóknastur. Þú verður ekki látin standa fyrir máli þínu hjá spænska rannsóknarréttinum, þó þú hafir sagt að opnað væri í Nettó í Mjódd kl. 11:00 annan hvern fimmtudag en ekki kl. 10:00. Þar fyrir utan gleyma allir jafnóðum öllu sem sagt er við þá og ég er viss um að enginn af samstúdentum þínum á eftir að lögsækja þig vegna rangra upplýsinga í þessu máli, en einhver þeirra skyldi álpast hingað á klakann eftir nokkur ár.
Ég kannast við þetta frá því að ég stundaði nám við háskóla í Sovétríkjunum sálugu, (ég er að hugsa um að skammstafa þetta Ss í æviminningum mínum á blogginu). Þá komu rússneskukennararnir endalaust með misskemmtileg umræðuefni hana nemendum og svo átti að tala um þetta lon og don. Fyrsti rússneskukennarinn minn, Galina Vasiljeva, sagði að sér væri alveg sama hvort við segðum sannleikann eða ekki, við mættum spinna í kringum umræðuefnið eins og við vildum. Það eina sem hún hefði áhuga á væri að láta okkur tala og tala rétt. Þegar við áttum að segja fá einhverju í okkar heimalandi notfærði ég mér að út í ystu æsar og fegraði og prýddi allt sem átti sér stað hér á landi og hafði átt sér stað síðustu 1100 árin. Ævinlega þegar ég sagði frá einhverju um mig, fjölskyldu mína gætti ég þess að allt væri algerlega óaðfinnanlegt og gallalaust hvað þessi atriði varðaði. Gerði stundum samanburð á Íslandi og Sovétríkjunum, sagði t.d. frá því að í mínu heimalandi væri aldrei biðröð nokkurs staðar, nema einstöku sinnum þegar væri verið að sýna vinsæla mynd í bíó og þá væri biðröðin til sérlegrar fyrirmyndar.
Ég var með krökkum frá Japan og Afganistan í bekk. Þau áttu voðalega erfitt með að tileinka sér þess list. Sannleiksástin virtist þeim í blóð borin og hugmyndaflugið frekar lágkúrulegt. Þau reyndu alltaf að halda sig við sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann. Enda voru þeirra frásagnir ólíkt litlausari en mínar og ég varð auðvitað eftirlætisnemandi Galinu Vasiljevu, sem átti ekki orð yfir hið fullkomna land Ísland og mína fyrirmyndarfjölskyldu.
Síðar hóf ég rússneskunám hjá Öllu Mikhailovu, sem boðaði sömu stefnu og Galina Vasiljeva – hún gaf líka dauðann og djöfulinn í sannleikann – við skyldum tjá okkur sem mest og tala sem besta rússnesku. Hún kunni líka að meta mergjaðar frásasgnir mínar. KGB kom aldrei til að setja mig í Ljúblianka fyrir að halda því fram á Litla búðin við Skólastíg 5 á Akureyri byði upp á fjölbreyttara vöruúrval en nýja, fimm þúsund fermetra kjörbúðin við Kalinin stræti í miðborg Moskvu. Að vísu gætti ég þess að fara aldrei út fyrir sannleikann nema í rússneskutímunum. Ekki er víst að prófessorar í sögu Kommúnistflokks Sovétríkjanna hefðu orðið jafn glaðir yfir skáldatilþrifum mínum og þær Galina Vasiljeva og Alla Mikhailova.
Þórdís, það gildir að láta móðan mása í spænskutímunum! Það er að segja ef þú vilt læra að tala hana rétt og vel!
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 2:10 e.h.
mánudagur, nóvember 17, 2003 :::
Hæ,
Ekki fyrir löngu las ég minningargrein í Morgunblaðinu. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, því að ég yfirfer flestar minningargreinar vandlega - í fyrsta lagi til að athuga hvort ég hafi þekkt einhvern vandamann hins látna og í öðru lagi til að skemmta mér yfir klaufalegu orðalagi og væmni eða tárast þar sem fólki tókst að tjá sínar innstu tilfiningar af einlægni.
Í umrætt skipti voru þó nokkrar minningargreinar um konu frá Víetnam, sem hafði komið hingað sem flóttamaður eftir mikla erfiðleika og þrengingar í sínu heimalandi, sem við hér á landi getum vart ímyndað okkur. Um hana skrifuðu ýmsir landar hennar og sögðu frá því hversu einstök kona hún hefði verið. Þá rann upp fyrir mér að næstum hver einasta minningargrein í Morgunblaðinu, sem eru ekki fáar, er skrifuð um fólk, sem er íslenskt að uppruna og ætt. Aðeins örfáar þeirra eru um fólk af erlendu bergi brotið og þá um fólk, sem hér hefur búið langa hríð eða tengst Íslandi og Íslendingum órofa böndum. Engar eða næstum engar minningargreinar birtast um það fólk, sem kallast nýbúar. Ekki veit ég hvernig stendur á því, en sennilega er það vegna þess að um er að ræða fólk, sem er vant öðrum útfararsiðum og menningu. Einhver hluti þessa fólks, sem hingað hefur flutt á fullorðinsaldri getur sennilega ekki lesið íslensku sér að miklu gagni og því síður komið saman hjálparlaust hefðbundinni íslenskri minningargrein.
Í hinum hefðbundnu íslensku minningargreinum er oft talað um að hinn látni sé kominn til Guðs, þar sem honum líði nú vel eftir jarðneskar þjáningar og þrautagöngu. Í sumum greinanna um víetnömsku konuna, sem landar hennar skrifuðu, sagði að nú liði henni vel - hún væri komin til Búddha í eilífa sælu.
Mín fyrstu viðbrögð voru bros og mér fannst þetta reglulega fyndið. Svona fer vaninn með fólk. Ég hef bara alltaf haldið að allir færu til Guðs, sem það ættu skilið. En það rann líka upp fyrir mér að ég hef líklega alltaf haldið að himnaríki væri fyrir Íslendinga svo til eingöngu, að þangað slyppu inn einstaka útlendingar, sem hafa tekið slíku ástfóstri við Ísland og íbúa þess, að þeir hafa sett eigið föðurland í annað sæti, en aldrei hugsað út í hvað yrði um afganginn af mannkyninu eftir dauðann, hvað þá nýbúana hér á landi.
Eftir að ég las minningargreinarnar um íslensku konuna sem flutti hingað frá Víetnam hef ég orðið að endurskoða hugmyndir mínar um himnaríki og íbúa þess.
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 11:38 f.h.