Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

laugardagur, janúar 22, 2005 :::
 
Hæ,
Nú er Bleik brugðið, liggur eins og skotin skepna heima hjá sér í flensueftirköstum. Þetta er að vísu nokkuð ýkt. Bleikur, þ.e. ég, liggur ekki eins og skotin skepna, heldur hengslast um heima, gránded þessa vikuna vegna jafnvægistruflana. Það er langt síðan ég hef verið veik, líða mörg ár á milli veikinda hjá mér og allt í einu verður mér hugsað til hennar Gígju, besta leikfimikennara, sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Ekki að ég sé svo mikill íþróttafrömuður og akróbat, en í tímunum hjá Gígju hlutum við, konurnar hennar, aukinn kraft og styrk til að framkvæma hinar erfiðustu æfingar, dansa eins og ballerínur, standa tímunum saman á stóru tánni og jafnvel að príla upp í rjáfur íþróttahúss Melaskóla, bara ef Gígju datt í hug að fara fram á slíkt. Gígja, sem var svo falleg og hraust, sterk og fullkomin kona, fékk allt í einu krabbamein og þá bauð hún okkur, konunum sínum, heim til sín til að láta okkur vita að hún ætlaði að taka veikindafrí og hóf ræðu sína svo: “Á dauða mínum átti ég von, en ekki krabbameini.” Eftir fjóra mánuði var hún dáin, en hugrekki, styrkur og kraftur þessarar fallegu og einstöku konu líður mér aldrei úr minni.
En sem sagt hér sit og ég ligg eftir atvikum, eftir að hafa verið eins og höfuðsóttarrolla, komin á þá skoðun að heilinn í mér væri farinn að láta sig, skipta sér eða vaxa stjórnlaust. Eftir að hafa fengið álit tveggja lækna, kvenkyns heilsugæslulæknis í mínu hverfi og karlkyns vakthafandi læknis á læknavaktinni tók ég gleði mína á ný, því sjúkdómsgreiningu þeirra bar saman – eftirköst nýliðinnar flensu, truflanir í innra eyra, jafnvægisröskun. Sem sagt sjóveiki af verstu tegund. Verri heldur en þegar ég fór með Drangi frá Akureyrar til Siglufjarðar í ófæru veðri með Leikfélagi MA til að halda sýningu á stórverkinu “Brúðkaup og bótúlismi”, þar sem ég lék brjálaða ráðskonu. Þvílík ferð! Ég bað þess heitt og innilega að hún myndi taka enda sem fyrst og ef það væri ekki hægt - þá að skipið mundi farast umsvifalaust með manni og mús og sérstaklega einni úr leikhópnum, sem var ekki sjóveik, lagði ekki aftur kjaftinn alla leiðina, heldur sat og sinnti handavinnu á slíku hástigi, að ég hef aldrei náð að tileinka mér slíkt og jafnframt sagði hún samfelldar sögur af kynlegum kvistum úr sínu byggðarlagi suður á landi. Guð, mér verður enn óglatt þegar þetta rifjast upp fyrir mér, nema jafnvægistruflanirnar séu enn að láta á sér kræla.
Þegar veikindi leggja filhraust fólk eins og mig skyndilega að velli, eða réttara sagt í rúmið er ekki verra að hafa hjúkrunarfólk innan fjölskyldunnar. Það hef ég nú fengið að upplifa þar sem yngri dóttir mín nemur hjúkrunarfræði á öðru ári við sjálfan Háskóla Íslands, enda fékk hún verðugt viðfangsefni að annast móður sína aldraða og riðandi til falls. Þvílíkur lúxus, hjúkrunarkona, sem kemur með vatn, banana og djús eftir pöntun, sem hringir á hjúkrunar- og læknavaktir og talar af kunnáttu og þekkingu um sjúkdómaeinkenni og veikindi . Einhver sem ekki talar þetta lummulega sjúklingamál - mér er svo illt hér og þar, ég finn svo ofsalega til og mér líður svo hræðilega illa - sem er ábyggilega afar þreytandi og leiðigjarnt fyrir fólk í heilbrigðisstéttum.
Þá vaknar spurningin hvort fyrirtækið getur lifað án mín og hvort starfsemin hafi ekki lagst í dróma, þegar hausinn á aðalritaranum hrökk úr gír. Það er greinilega allt í skralli hjá einu af óskabarnabörnum þjóðarinnar. Það er nefnilega búið að hringja tíu sinnum í mig heim til að spyrja mig hvernig eigi að leysa hin og þessi vandamál á tveim vinnudögum, sem ég hef verið fjarverandi. Segið að maður sé ekki ómissandi!
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:37 f.h.




Powered by Blogger