Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, mars 23, 2005 :::
 
Hæ,
Fór með grútskítugan bílinn á bílaþvottastöð á leið í vinnu, sat makindalega á meðan hann rann á færibandinu gegnum vélarnar. Þegar ég keyrði út var komin rigning. Dæmigert.
Í fréttum RUV í morgun sagði að ákvörðun Bush Bandaríkjaforseta um að tilnefna Paul Wolfowitz næsta bankastjóra Alþjóðabankans ylli Evrópusambandinu nokkrum áhyggjum. Mér þykir þeir afslappaðir. Ég hef þungar áhyggjur af ákvörðunum Bush og yfirleitt öllu sem hann hugsar, ákvarðar eða tekur sér fyrir hendur og er ábyggilega ekki ein um það.
Ég er farin til San Francisco með blóm í hárinu.
California – here I come!
Gleðilega páska!
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:10 f.h.


þriðjudagur, mars 22, 2005 :::
 
Hæ,
Þakka góðar kveðjur í tilefni afmælis míns, sem rann upp í eitt skipti enn í gær, svo er góðum guði að þakka. Orðin sextíu og eins árs. Eftir nokkur ár verð ég komin hátt á sjötugsaldur. Í æsku fannst mér fólk á þessum aldri vera komið í öldungatölu og yfirleitt stálheppið að vera enn á lífi. Í dag hef ég allt aðra skoðun á þessu.

LANDINN
Þá er Ísland einum stórmeistaranum ríkara og þar með einum sérvitringnum, er Fishcer bættist í “flóru” landsmanna eins og einhver sérfræðingurinn sagði. Það virðist enginn vita að flóra merkir jurtaríki. Fishcer ætti frekar að hafa bæst í fánu Íslendinga, sem allt velmenntað fólk veit að þýðir dýraríki, nema hvað að hann var og hefur alltaf verið í dýraríkinu. En hann er nú orðinn Íslendingur, orðinn landi okkar hér á skerinu. Guð, hvað það er æðislegt að geta talað um landa sinn, Róbert Fishcer, skáksnilling og stórmeistara. Hann lagast auðvitað allur í skapinu þegar hann flytur á klakann og verður ljúfur sem lamb og leggur á hilluna alla sérvisku og sérþarfir.
Það sem mér finnst skemmtilegast í öllu þessu fjaðrafoki, fari svo að Fischer setjist að hér á landi, er að þar með höfum við gefið Bandaríkjamönnum langt nef, svo ekki sé talað um dónalega merkið. Kominn tími til.

MEÐ ALLT Á HREINU
Við skulum hafa eitt á hreinu. Vilji einhverjir læknar og hjúkrunarlið með mannúðarspírur eins og forseta Bandaríkjanna í fararbroddi taka upp á því að undirrita lög og reglugerðir til að halda í mér lífi um áratuga skeið eftir að skynsemi, lífsgeta og löngun hafa verið frá mér tekin og líkami minn orðinn að lifandi líki, bið ég um að þeim hinum sömu verði bent á að lesa bloggið mitt, þar sem þeir geta séð svart á hvítu, að ég vil ekki liggja í sömu stellingum, nærast gegnum slöngu og aðhafast ekkert svo árum skiptir nema að draga andann.

VIL EKKI VERÐA SVANUR
Það er einhver þáttur á Skjá einum, sem heitir Svanurinn, þar sem lummulegum konum er breytt í glæsipíur. Mér datt í hug að það væri nú gaman að láta breyta sér í eina slíka og verða að fallegum svani. En svo sá ég ekkert huggulegt við það að vera svanur og þurfa að hanga gargandi niður við Tjörn og bíða eftir að barnabörnin komi með brauðskorpur og hendi til mín og kalli mig bra-bra.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:49 f.h.




Powered by Blogger