Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, mars 17, 2006 :::
 
Hæ,
Herinn er bara að fara! Ég er ekki enn búin að melta þessar fréttir. Samt færðist ég aðeins nær því þegar ég heyrði brot úr "Sóleyjarkvæði" leikið í útvarpinu áðan, þar sem Sóley sólufegri situr við hafið á kóralskóm. Mér fannst ég stödd í miðri Keflavíkurgöngu, þar sem hvert skref var tekið í von og vissu um að það væri áfangi á leið til framtíðar án hers og vopna.
Hvað verður nú um Halldór og Björn?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 8:17 e.h.


fimmtudagur, mars 16, 2006 :::
 
Hæ,
Ég get aldrei ákveðið mig og ekkert planað fram í tímann. Í gær hringdi ein frænka mín með valdsmannsbrag og minnti á ættarmót sem á að vera eftir marga, marga mánuði. Hún spurði hvernig stæði eiginlega á því að ég væri ekki búin að tilkynna komu mína og þátttöku í ættarmótinu, sem tilkynnt var um fyrir þrem dögum. Ég fór líka í þessa litlu Sikileyjarvörn og sagðist ákveða með herkjum hvað ætti að vera í kvöldmatinn um það leyti sem ég færi að leggja postulínsdiskana og silfurhnífapörin á damaskdúkinn og það væri miklum erfiðleikum háð fyrir slíka persónuleika að ákveða eitthvað með 20 vikna fyrirvara. Mér var tjáð að ég ætti að skipuleggja allt sumarið í kringum ættarmótið og út frá því, svo ég tók mig saman í andlitinu og tilkynnti komu mína og ektamaka á ættarmót norður-þingeyskrar ættkvíslar, sem haldið er í Skagafirði. Í leiðinni pantaði ég svítu fyrir okkur hjónin með öllum hugsanlegum þægindum, fullri skagfirskri þjónustu, útsýni til Tindastóls og einkakonsert með Karlakórnum Heimi og Álftagerðisbræðrum tvisvar á dag.
Nú er bara eftir að ákveða afganginn af tómstundum sumarsins og svo auðvitað hvað á að vera í kvöldmatinn í kvöld.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:10 e.h.


mánudagur, mars 13, 2006 :::
 
Hæ,
Ég las á síðu Moggans um helgina að ekki væri nokkur vandi að auka gáfur sínar um 40% með því að fara út að ganga, labba í vinnuna, fara í sturtu með lokuð augun og bursta á sér tennurnar með vinstri hendi, ráða krossgátu eða sudoku. Ég hef burstað á mér tennurnar með vinstri hendi síðustu vikur og reyndar notað hana við flest verk upp á síðkastið vegna slæmsku og elli í hægri hendi. Ég fer alltaf í sturtu með lokuð augun, svo ég ákvað að hafa þau opin til tilbreytingar í gærmorgun til að uppfæra gáfurnar. Ég réð nokkrar sudoku á laugardagsmorguninn og næstum kláraði krossgátuna í sunnudagsblaði Moggans í gærkvöldi. Svo lærði ég nokkur ný orð og notaði þau í samtali við sjálfa mig og settist að því búnu niður til að athuga hvort greindarvísitala mín hefði þokast upp á við. Því miður - ég er alltaf jafnvitlaus.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:28 e.h.




Powered by Blogger