Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, desember 21, 2007 :::
 
Hæ,
Villi Vill - eða Vilhjálmur Vilhjálmsson - söng í útvarpinu í morgun. Hann söng bjartri og tærri röddu sinn svanasöng um söknuðinn. Ég sá hann fyrir mér þar sem hann stóð ljóslifandi við míkrófóninn á skólaböllunum í gamla daga og söng alls kyns frumlega texta við lög sem engum datt í hug að hægt væri að dansa við, því að Busabandið, sem hann var meðlimur í, fór ekki troðnar slóðir í laga- og textavali og var áratugum á undan öllum hljómsveitum hér á landi á því sviði.
Ég kynntist Villa þegar hann kom í fjórða bekk í menntaskólann. Fyrsta daginn settist hann fyrir framan mig og vinkonu mína, sneri sér strax við í sætinu og fór að tala við okkur alveg eins og hann hefði þekkt okkur lengi. Það lá við að liði yfir mig. Í mínum heimabæ talaðist fólk, sem ekki þekkti hvert annað, yfirleitt ekki við upp úr þurru. Það hóf ekki samræður að nauðsynjalausu fyrr en það hafði þekkst í sjón í mörg ár. Strákarnir, sem við höfðum verið með í barnaskóla frá sjö ára aldri voru rétt farnir að ávarpa okkur og kunningsskapur að takast með okkur eftir að hafa sést því sem næst daglega í tíu ár, en Villi var ekki að tvínóna við hlutina. Hann varð samstundis vinur okkar og ekki leið á löngu þar til hann var orðinn heimagangur hjá okkur. Hann var frjálslegur, heillandi, skemmtilegur og glaður strákur. Engum leiddist í návist hans. Við vorum vinir árin þrjú í menntaskólanum, vorum sessunautar hálfan vetur, hann skemmti mér og nærstöddum með hnyttnum athugasemdum í tímum, svo oft var erfitt að bæla niður hláturinn og halda svipnum trúverðugum svo liti út fyrir að maður fylgdist með af alefli.
Svo skildi leiðir og vinafundir urðu mjög fáir. Eitt sinn verða allir menn að deyja og allt í einu var röðin komin að Villa. Röddin bjarta skyndilega þögnuð. Ég fór ekki á jarðarförina hans vegna þess að ég hafði hvorki séð hann né talað við hann í mörg, mörg ár - kannske átta ár– fannst ég ekki þekkja hann lengur – trú þumbaraskapnum úr minni heimabyggð.
Í hvert skipti sem ég heyri Villa syngja minnist ég hans í skólastofunni, þar sem hann situr með prakkarasvip, miðpunktur við borð á teríunni þegar fellur niður kennsla í einum tíma, í öskudagsbíltúr í Vaðlaheiði og ég minnist hans á sviði með Busabandinu þar sem hann syngur og við hin dönsum af svo miklu kappi, að gólfið á Sal sveiflaðist upp og niður. Í dag væri sjálfsagt bannað safna saman slíkum fjölda á Sal hvað þá að halda dansleiki þar vegna hættu á að allt hryndi. Enginn lét sér detta neitt slíkt í hug í þá daga og ekkert gat spillt gleðinni þegar strákarnir í Busabandinu stilltu saman strengi sína og Villi stillti sér upp við míkrófóninn og heillaði alla upp úr skónum með fallegri framkomu, björtu brosi og heillandi rödd.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:46 e.h.




Powered by Blogger