Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, september 24, 2004 :::
 
Hæ,
Allt í einu hefur skipt um veður, ófært frá útihurð að stálfáki. Ég var svo heppin að vera með minn þarfasta þjón í bílageymslunni í nótt, svo að ég gat gengið þurrum fótum að honum með morgunlúkkið óhaggað eftir að hafa brosað framan í spegilinn í lyftunni og spurt hann: “Spegill, spegill, herm þú mér..” Hann svaraði að vanda: “Það veit mín trú að töfrafríð ert þú...” Meira heyrði ég ekki, því ég var stokkin út, áður en hann gat klárað svarið. Það svar sem komið var nægði mér til að vera tiltölulega ánægð, þegar ég settist undir stýri og gaf stefnuljós til að bakka út úr bílastæðinu í auðri bílageymslunni. Að gefa stefnuljós í alauðri bílageymslu, er það ekki hámark samviskuseminnar ? Eða er það hámark umferðaróttans?
Ég þeysti gegnum óveðrið, beint í vinnuna, reif upp bíldyrnar og rétt náði að krækja ristinni á vinstri fæti undir hana áður en hún skall á næsta bíl, fimm milljón króna gljáfægðri glæsikerru í stálgráum tískulit. Slapp þar með skrekkinn. Ég hefði nú bara fært minn bíl á annað stæði ef illa hefði farið og ekki þóst vita neitt um rispur og rákir á Stálgrána.
Síðan var stefnan tekin inn. Bílaplanið við vinnustað minn er mesta veðravíti á landinu og þótt víðar væri leitað. Þar rignir ævinlega eldi og brennisteini og ekki nóg með það - heldur rignir líka vatni í stórum gusum. Bílaplanið sjálft er ævinlega ísi lagt fari hitastið niður fyrir 10 gráður. Þar fyrir utan liggur planið þannig að paufast þarf langa leið gegnum regn, vind, snjókomu, ísingu, skafla og sviptivinda árið umkring til að komast inn í húsið eða bílinn, eftir því hvort er verið að koma eða fara. Nokkuð óþægilegt á morgnana, þegar búið er að eyða löngum stundum við að punta sig og flikka upp á útlitið, að mæta til vinnu eins og einhver argintæta úr Grimms-ævintýrum.
Sú var raunin með undirritaða í morgun, sem næstum skreið inn um sjálfvirku glerdyrnar, hundblaut á hægri hlið frá hvirfli og niður í skó í bókstaflegri merkingu, því að sullaðist upp úr þeim á hvítt marmaragólfið.
Stefnan tekin á kvennasnyrtingu með töfraspegli á heilum vegg. “Spegill, spegill, herm þú mér...” Svarið lét ekki á sér standa. Hann hreytti út úr sér: “Herfa, herfa, láttu þig hverfa!”
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 5:42 e.h.




Powered by Blogger