Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

laugardagur, desember 29, 2007 :::
 
Hæ,
Senn líður árið i aldanna skaut. Allt í einu er búið að myrða Benazir Bhutto og leggja til hinstu hvílu konuna, sem valdhafar í Pakistan óttuðust svo mjög. Enn ein rekan á líkkistu lýðræðis og framfara þar í landi. Hver er styrkur þess ríkis sem hræðist eina konu umfram allt annað? Byggist ekki sá styrkur á ofbeldi og kúgun framar öðru? Ég gleymi aldrei sjónvarpsfréttunum, þegar Benazir Bhutto varð forsætisráðherra í Pakistan - kona varð forsætisráðherra í islömsku ríki - og í fremstu röð stuðningsmanna hennar sáum við standa góðan vin okkar, Arbani Shah Nawaz. Það kom ekki á óvart að hann skyldi vera í innsta hring fylgismanna þessarar sterku konu, sem hnarreist og óttalaus fylgdi sannfæringu sinni.
Blessuð sé minning þeirrar mætu konu.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:09 e.h.


mánudagur, desember 24, 2007 :::
 
Hæ,
Við upphaf aðfangadags hefur skötulyktin vikið fyrir ilmi af nýsoðnu sauðahangikjöti og jólatréð stendur skreytt i stofu. Litlar hendur sáu um skreytinguna, enda mundi hún aldrei hljóta náð fyrir augum stílista í Innliti/útliti, en verkið var unnið að mikilli gleði og kappi. Fjárhúsið stendur við hlið jólatrésins og var uppsetning þess í öruggum höndum hins kaþólska arms fjölskyldunnar. Pakkar eru komnir undir tréð og sumir í fjölskyldunni gætu líklega vel hugsað sér að rífa utan af nokkrum þeirra strax og þó fyrr hefði verið. Gólf þvegin og bónuð, silfur skínandi fágað og öðru hvoru snúast jólaóróarnir hægt og varpa glampa og skuggum á umhverfið. Smákökur í boxi, konfekt í kassa, laufabrauð á diski, ilmur af rauðkáli og jólasteikin bíður síns tíma.
Aðeins lítill hluti mannkynsins heldur þau allsnægtajól, sem okkar heimshluti gerir kröfu um. Því miður er stór hluti þeirra sem heiminn byggja afar illa settur og býr við örbirgð og eymd, sem hinar ríku þjóðir gætu bætt úr. Því er óskin um frið á jörðu og mannsæmandi lífskjör til handa öllum jarðarbörnum enn efst a blaði.
Með jólakveðju,
Bekka

::: posted by Bergthora at 2:23 f.h.




Powered by Blogger