Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

laugardagur, janúar 20, 2007 :::
 
Hæ,
Ég skil ekki hvernig olíufatið getur lækkað úr 70 dollurum í 50 á heimsmarkaði, en samt skilar sér ekki lækkun á olíuverði til okkar neytendanna, nema hvað Esso hefur lækkað bensínverðið hjá sér um 50 aura á lítrann, sem er náttúrulega engin lækkun í mínum augum, þar sem aurar eru ekki lengur til hér á landi. Þeir lækkuðu líka dísilolíu um eina krónu, sem er auðvitað lækkun, þótt lítilfjörleg sé. Skýringin á þessari “lækkun” er sterkari staða krónunnar og lækkandi heimsmarkaðsverð á eldsneyti og þetta góðverk framkvæmt að því tilskyldu að staða krónunnar breytist ekki í náinni framtíð.
Undarlegt hvað olíufélögin eru fljót að hækka dropann þegar hækkun verður á heimsmarkaði, en aftur á móti skilar sér engin lækkun til okkar annað hvort vegna hagstæðrar gengisþróunar og mikilla olíubirgða á gamla verðinu.
Dollarinn kostar innan við 70 krónur þegar þetta er skrifað, samt kostar bíómiðinn jafnmikið eða jafnvel meira en þegar dollarinn var 120 krónur. Þá fengu kvikmyndahúsin sérstakt leyfi til að hækka aðgangseyrinn og skýringin var að þetta væri eingöngu gert til að geta staðið undir kaupum á efni frá USA vegna hins háa gengis dollarans.
Nú hækkar allt sem hækkað getur í matvöruverslunum og þegar kemur að því að virðisaukaskatturinn verður lækkaður er allt útlit er fyrir að matvara lækki ekki neitt í verði. Ég er komin að þeirri niðurstöðu að matvara muni hækka við lækkun virðisaukaskattsins.
En það er ekki von til þess að ég skilji þetta, enda hef ég aldrei verið hagfræðilega þenkjandi og hef lítið vit á þeirri grein. Kannske eru fleiri sem ekki hafa vit á hagfræði, því ég hef aldrei fengið neina skiljanlega hagfræðilega skýringu á því sem er rakið hér að framan. Er ekki skýringin bara sú að verið er að svindla á almenningi á grundvelli þeirrar kenningar, að fólk sé fífl? Getur nokkur hámenntaður hagfræðingur með sómatilfiningur sett hlutina fram á svo einfaldan og skiljanlega máta?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:11 e.h.


miðvikudagur, janúar 17, 2007 :::
 
Hæ,
Þá hafa Bandaríkjamenn enn einu sinni orðið sér úti um verðugan andstæðing og óvin, sem sæmir að öllu leyti fullkomnasta hernaðarveldi veraldar og jafnvel þótt víðar væri leitað. Sú herskáa þjóð, sem hefur á að skipa gereyðingar- og útrýmingarvopnum til að margeyða öllu mannkyni, ræður yfir vígbúnaðartólum og tækjum jafnt á landi, sjó og í geimnum og hefur til að bera þekkingu, kunnáttu, tækni og færni til að pína, pynta, drepa og myrða ásamt löngun til slíkra verka, hefur nú fundið sannan andstæðing í Sómalíumönnum, sem hafa hrakist um ár og aldir í eymd og örbirgð, hafa ekki átt kost á neinu, er við köllum lífskjör, hafa ekki einu sinni hugarflug til að láta sig dreyma ameríska drauminn og virðast ekki eiga möguleika á friðsamri framtíð og öruggu umhverfi handa sér og sínum vegna hörmunga, allsleysis og átaka.
Ég gef ekki svo mikið sem skít fyrir sómalíska ráðamenn, er hanga í buxnaskálmum bandarísku valdsmannanna og biðja um að vanþóknanlegir skuli tafarlaust þurrkaðir út af yfirborði jarðar, þ.e. þegnar sem eru grunaðir um aðild að Al Qaida. Al Qaida virðist vera töfraorð, því hjálpræðið er ekki lengi að opna vopnabúrið og dreifa sprengjum og eitri á skotmarkið, sem er meint hreiður Al Qaida í Sómalíu – takið eftir” meint hreiður”. Það er engin smámunasemi í Sámi frænda, þegar hann kemur til bjargar, ekkert verið að tvínóna við hlutina. Á honum hvílir engin sönnunarbyrði.
Það skyldi þó ekki vera að olíulindir landsins skiptu máli? Nú rennur olíugróðinn frá Írak beint og milliliðalaust í vasa olíufyrirtækjanna bandarísku, slíkur er árangurinn af stríðinu, sem við háðum með "bandamönnnum" okkar þar í landi.
Mikið vill æ meira.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:32 e.h.


þriðjudagur, janúar 16, 2007 :::
 
Hæ,
Stuttar minningar frá nýliðnu ári...
Svaf í tjaldi eina nótt – næstum dó af hita og innilokunarkennd
Fór í tvö brúðkaup – annað undirbúið og hitt óvænt uppákoma
Fékk áminningu frá safnverði í Thyssen-safninu í Madrid – fyrir ólöglega myndatöku
Passaði börn – oft og mörgum sinnum
Fór á nokkrar jarðarfarir – kvaddi gamla og unga
Gekk hálfa leið á Skjaldbreið – nennti ekki lengra
Fór aldrei í leikhús – missti af Hugleik
Fór á ættarmót – er af fínni ætt
Bjó til hnetusteik í fyrsta skipti á ævinni – tókst vel
Fór ekki í nýja IKEA – missti ábyggilega ekki af neinu
Tíndi fjallagrös í fyrsta skipti á ævinni – vissi ekki að ég væri svona góð grasakona
Datt í sjóinn – hefur ekki gerst síðan ég var krakki
Sendi bróður mínum tvo jólakort - hann getur bara geymt annað til næstu jóla
Varð ömmusystir í fimmta sinn – eignaðist lítinn, stóran, frænda
Vann vínpottinn í vinnunni tvisvar – vist á Vogi í aukavinning
Lenti næstum því í rifrildi við opinberan starfsmann – heppin að búa ekki í USA
Hélt utan um gítartónleika í Neskirkju og fyllti kirkjuna, sem tekur 350 manns - ætli kannske að taka mér ættarnafnið Bárðarson
Borðaði dádýrssteik á veitingahúsi – vissi ekki að ég væri að borða BAMBA

Og ein löng minning – kannske ekki löng en neyðarleg fyrir mig:
Ég stillti vekjaraklukkuna á sex, gamaldags vekjaraklukku með tveim vísum, þar sem ég þurfti að vera mætt út í bæ klukkan hálfsjö næta morgun. Ég ætlaði mér að læðast út án þess að vekja minn betri helming, svo hann gæti sofið á sitt græna eyra fram eftir morgni. Klukkan hálftólf lagði ég frá mér sudoku-bókina, slökkti ljósið og fór að sofa. Allt í einu hrökk ég upp af værum blundi í skammdegismyrkrinu. Ég var viss um að minn fótaferðartími væri að renna upp og leit á vekjaraklukkuna, sem var um sex. Ég flýtti mér að slökkva á henni áður en hún byrjaði að hringja, svo hún færi ekki að vekja neinn. Síðan teygði ég mig eftir góðan nætursvefn og fannst ég alveg sérstaklega vel úthvíld og endurnærð. Ekki oft sem ég sef alla nóttina í einum dúr. Síðan læddist ég hljóðlega í myrkrinu fram í baðherbergi til að klæða mig í leppana, sem ég tekið til kvöldið áður til að eyða sem minnstum tíma í undirbúning. Þegar ég leit á úrið, sá ég að klukkan var ekki sex, heldur hálfeitt.
Lúskraðist aftur inn í rúm.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:33 e.h.




Powered by Blogger