Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, maí 12, 2008 :::
 
Hæ,
Ég er búin að gera stórkostlega uppgötvun, sem flýtir verulega fyrir öllum þrifum hjá mér. Nú fyrir helgina varð mér litið á skrifborðið mitt og lyklaborðið í vinnunni og svei mér ef ég sá ekki örverurnar fara þar hamförum. Þar spilar inn í að hreingerningaliðið kemur yfirleitt ekki nálægt skrifborðinu mínu og að ég hef verið haldin fuglaflensu undanfarnar vikur og hef hnerrað og hóstað stanslaust yfir skrifborðið. Þá gegndi þarna líka stóru hlutverki frétt um fjörugt bakteríulíf í lyklaborðum landsmanna og þótt víðar væri leitað. Því brá ég mér út í næsta lágvörumarkað og keypti þrifaklúta, sem ég hafði löngum haft grun um að hentuðu til fleiri athafna en þeirra sem þeir eru auglýstir til.
Það er skemmst frá því að segja að ég brá nokkrum klútum á skrifborðið og lyklaborðið og ég hreinlega sá örverurnar steindrepast umsvifalaust. Þá tók ég mig til og dreifði nokkrum klútum meðal samstarfsmanna minna, sem einnig fóru að þrífa hjá sér lyklaborðin, þ.e.a.s. þeir sem höfðu heyrt hinar skelfilegu fréttir af lyklaborðsbakteríunum.
Þar sem þetta hafði tekist svo vel til, tók ég pakkann með þrifaklútunum með mér heim og þreif eldhúsvaskinn og baðvaskinn með þeim. Allt skínandi hreint og glansandi á augabragði! Ég notaði þá á drullubletti á ísskápnum, fiturönd á eldhúsviftunni hvarf eins og dögg fyrir sólu, leifar af sykurhúð eftir brúnaðar kartöflur á eldavélinni hurfu á sama hátt eftir að klútunum hafði verið rennt léttilega yfir. Ég notaði þá til að ná bletti úr gólfteppinu, sem hvarf strax, þ.e. bletturinn, ekki teppið. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef ég hefði beitt mér af fullum krafti. Síðan brá ég þrifaklútunum yfir hvítan dúk til að ná burtu sultubletti og sykurhúð af brúnuðu kartöflunum, sem kom í dúkinn, þegar skeiðin rann út úr skálinni. Dúkurinn var eins og nýþveginn eftir að klútnum hafði verið brugðið yfir blettina. Smurolíublettur í bílnum er líka horfinn. Síðast tók ég skæri, sem búið var að nota til að klippa svartan límpappír, þannig að myndast hafði svört klísturrönd á skærunum. Röndin hvarf. Skærin eins og ný.
Skínandi og tandurhrein sæla. Mér finnst ég vera komin í sambúð við hvítan stormsveip.
Það er bara einn galli á gjöf Njarðar. Ég get ekki hugsað mér að nota þessa þrifaklúta í það sem þeir eru ætlaðir til - sem sagt að þrífa ungbarnarassa. En annars virðast Pampers-rassaklútarnir hrífa á hvaða skít sem er.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 9:21 e.h.




Powered by Blogger