Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, desember 23, 2004 :::
 
Hæ,
Þá líður að hinni einu og sönnu hátíð, sem Íslendingar slíta sér út fyrir af lífi, sál og innri gleði. Allar verslanir hafa verið opnar meira og minna allan mánuðinn, Jólasalan hefur aukist um 15 – 20% að sögn fréttastofa, sem leyfa landi og lýð að fylgjast með þessum þjóðhagslegu tölum og ekki yrði ég hissa þótt prósentutalan yrði enn hærri þegar upp verður staðið og krítarkortareikningarnir fara að hrynja í skriðuföllum inn um lúgur og renna ofan í póstkassa.
Í blöðum, tímaritum og ljósvakamiðlum eru endalaus viðtöl við hina og þessa sérfræðinga í jólahaldi, sem hafa unnið ýmis konar rannsóknarvinnu á þessu sviði. Ég heyrði einu sinni viðtal við konu, sem var önnum kafin við jólahald alla aðventuna. Hún hafði smáköku- og sælgætisborð í holinu hjá sér, svo að heimilisfólk og gestir gætu kitlað bragðlaukana og þanið út maga og iður fyrir 13 daga jólaveislu. Skemmtilegur siður! Rykugar smákökur og uppþornaðir gráir konfektmolar með hlandvolgu jólaöli eða stöðnu kaffi. Önnur skreytti allt húsið utan og innan strax 1. desember - hafði jólaskrautið hangandi í sex vikur. Ég hefði í hennar sporum verið búin að taka það niður fyrir jól!
Aðrir tala fjálglega um sín jól, sem koma á vissu augnabliki, þegar einhver sérstök athöfn fer fram, einhver viss stund rennur upp. Allt er skilyrt - jólin koma ekki ef besti vinurinn hefur gleymt að senda jólagjöf, ef ekki er leyfð rjúpnaveiði, ef kirkjuklukkurnar í hverfiskirkjunni eru bilaðar, ef eftirlætisveitingahúsið selur ekki lengur skötu, ef mamma býr ekki til ís - engin jól ef frumskilyrðum og kröfum einhverra sérvitringa til annarra er ekki fullnægt. Jól þessa fólks eru háð því að einhver annar sjái um að búa í haginn fyrir þá, hafa allt í sömu skorðum jól eftir jól, svo hin hátíðlega stund megi renna upp og jólaskapið fái að flæða um huga viðkomandi og gera sál hans milda og meyra gagnvart umheiminum. Ef svo er ekki fara jólin hjá.
Eigum við ekki bara að leyfa jólunum að koma til okkar, þó ekki sé búið að hvítþvo allt, hvort sem eru páfulgar eða soðning á borðum, enginn pakki eða margir við jólatréð, hvort sem er jólatré eða ekki? Koma jól á aðfangadagskvöld ef búið er að halda upp á jólin í fjórar vikur með samfelldum hátíðahöldum?
Endurspeglast ekki hin sanna jólagleði í augum barnsins, sem opnar fyrsta jólapakkann og þarf ekki að taka upp fleiri, vegna þess að gleðin er fullkomin og allar óskirnar rætast í smáleikfangi?
Ég óska lesendum mínum fjær og nær, til sjávar og sveita, gleðiríkrar jólahátíðar og birtu og friðar á rísandi ári.
Í Guðs friði,
Bekka


::: posted by Bergthora at 1:18 e.h.




Powered by Blogger