Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

fimmtudagur, september 11, 2003 :::
 
Hæ,
Ég er búin að fara minn daglega blogg-hring. Enginn búinn að blogga í dag nema Jóhanna, sem er alltaf jafn skemmtileg og elskuleg. Og svo myndarleg! Ég fann ilminn af bakstrinum hjá henni af skjánum. Svo verslar hún líka í Bónus og hjálpar svo ótal mörgum til að styðja við velgengni og einkaneyslu ráðamanna þar, sem er ekki af skornum skammti og í nokkuð öðru formi en hjá almenningi þessa kalda lands.
Það er e.t.v. kaldhæðni að tala um "kalt land" eins og er búið að vera hlýtt undanfarið, svo hlýtt að þarf að hækka hitaveitugjaldið. Ég skil vel að þurfi að hækka gjaldið, vegna þess að þeir hjá hitaveitunni eru nýbúnir að byggja sér svo flott hús, úr gleri, áli og steinsteypu! Flottheitin hið innra eru ekki síðri - þar er verið að skipta um nokkurra mánaða parkett. Allt hlýtur þetta að kosta eitthvað. Það má segja þeim til hróss að þeir ætla ekki að hækka gjaldið mikið, bara ósköp lítið.
Annars hef ég undanfarin ár verið talsmaður þess að hækka hitaveitugjaldið, en þá ekki til að láta það renna til byggingar í munaðarstíl yfir valdamenn og starfsfólk Hitaveitunnar, heldur vil ég að hækkunin verði látin renna til fatlaðra til að auðvelda þeim og fjölskyldum þeirra lífið og tilveruna.
Rök mín hafa verið þau að hitunarkostnaður hér á höfuðborgarsvæðinu er svo lágur að flest heimili ættu að geta greitt aðeins meira fyrir þetta dásamlega, heita vatn, sem rennur fyrirhafnarlaust inn til okkar og flestir líta á sem sjálfsagðan hlut. Engum dettur í hug að spara heita vatnið. Hitunarkostnaðurin á mánuði er hjá mörgum fjölskyldum lægri en útlát við eina kvöldmáltíð sem samanstendur af pizzu, kóki og ís. Ein bíóferð fjölskyldu samsvarar oft hitunarkostnaði í mánuð. GSM-símakostnaður í einn mánuð hjá mörgum er hærri en gjaldið fyrir heita vatnið, sem viðkomandi notar í ótal sturtuferðum á jafnlöngum tíma.
Ég tel að þetta gæti oðrið til mikilla hagsbóta fyrir fatlaða, en svona tillaga fengist aldrei samþykkt. Svona er nú þjóðfélagið skrýtið.
Aftur að upphafinu - þar sem enginn var búinn að blogga nema Jóhanna, setti ég inn nokkrar hugleiðingar. Friðgeir er í spænsku fríi í dag, Þórdís og Einar Bjarni sitja sem turtildúfur úti í Barcelónu, Bergþóra er í háskólanum að nema hjúkrunarfræði, Silja er einnig við nám, Ragnheiður vonandi að vinna og Hildigunnur á kaffihúsi. Gunna hefur gleymt að blogga, Þura og Hannes ekki búin a blogga enn þá, Palli hættur að blogga, Þór í bókhlöðunni, Steinar í losti eftir kjaftshöggið í beinni og Parísarstúlkurnar ekki farnar að blogga af fullum krafti. Þess vegna ekkert blogg. Einhver verður að láta bloggið hafa sinn gang. Í dag vorum það við Jóhanna eða Giovanna.
Kveðja,
Bekka

P. S. Ég bakaði bollur í gærkvöldi og eitt brauð!

::: posted by Bergthora at 4:48 e.h.


mánudagur, september 08, 2003 :::
 
Hæ,
Ég get ekki lýst því hve fegin ég er. Mr. Blogg er hættur í ritskoðuninni, kominn í gott skap eins og hann er oftast og leyfði mér að birta óhindrað pistilinn hér að neðan, sem ég var búin að reyna að birta hvað eftir annað. Mér datt í hug að hann væri spældur vegna þess að ég var að bögga Kennarasamband Íslands. Sennilega er hann búinn að fyrirgefa mér eða hefur farið í bústað hjá KSÍ.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:29 f.h.


 
Hæ,
Það var smápása í blogginu hjá mér. Mr. Blogg fór í einhverja fýlu og vildi ekki leyfa mér að birta fréttir. Skyldi hann vera farinn að ritskoða fréttirnar?
Við hjónin eyddum einni helgi í sumarbústað í eigu Kennarasambands Íslands. Bústaðurinn var á Flúðum og er þar vonandi enn. KSÍ gefur ákaflega skýr fyrirmæli um allt sem lýtur að veru og dvöl í bústöðum þess. Áður en við fórum af stað fengum við skriflega hótum frá KSÍ að bústaðurinn yrði gerður hreinn á okkar kostnað og leigjandi myndi missa þrjá punkta ef þrifum yrði ábótavant. Frekar kennaralegt. Ég veit ekki hvað hefur verið gert við fólkið sem var í bústaðnum á undan okkur. Bústaðurinn var skínandi hreinn, en leirtauið var svo fitugt, að glösin runnu beint úr höndum manns niður í vaskinn. Mér datt í hug að þau hefðu misst punkta fyrir uppþvottinn, en áunnið sér punkta fyrir þrifin. Ég hef ekkert heyrt frá KSÍ síðan við komum heim, svo að þrifin hjá okkur hafa líklega staðist gæðaskoðunina.
Við hjónin snemma á laugardagsmorguninn í berjamó og tíndum með harmkvælum um 30 lítra af bláberjum. Við sögðum hvort öðru með reglulegu millibili að það "væru engin ber" þangað til við fórum að reikna út afraksturinn. Berin voru svo stór og góð, ekki einn einasti grænjaxl. Þegar var komið fram yfir hádegi fóru að streyma til okkar gestir, sem höfðu frétt af dvöl okkar í sumarbústaðnum. Þeir fyrstu komu til okkar í berjamóinn, þau Systa og Hjörvar. Þeim tókst næstum því að að fylla eitt ísbox og eina krukku undan fetaosti af bláberjum.
Við fengum fullt af gestum í viðbót. Sigrún Sól kom með pabba sinn, Sigrúnu ömmu og Úlla afa. Úlfar var strax settur grillmeistari. Hann stóð og grillaði bleikjur, smokkfisk, kjúklingabringur, svínakjöt, kartöflur og grænmetispinna eins og herforingi. Á eftir fengum við okkur bláber og rjóma, kaffi, te og súkkulaði.
Við fórum margar, margar ferðir í heita pottinn, sem er staðsettur rétt við útidyrnar og blasir við þeim, sem leið eiga hjá, sem voru ekki margir til allrar Guðs lukku. Við fórum næstum því jafnmargar ferðir í staðarbúðina, sem selur allt sem sumargesti vanhagar um - á uppsprengdu verði. Ótrúlegt að fara með svo mikið af farangri, að bíllinn næstum sligast og þurfa að byrja á því að fara í búðina á staðnum áður en komist er í sumarbústaðinn.
Síðustu gestirnir fóru heim á leið um barnatímaleytið á sunnudeginum, en við, gamla settið, nutum kvöldsins og fórum seint heim, keyrðum beint inn í hversdagslífið, sem er alltaf svo kærkomið. Ekki amaleg helgi í Kennarabústaðnum á Flúðum!
Dagarnir hafa liðið við hin venjubundnu störf. Nýtt veðurfar hefur litið dagsins ljós - rok og rigning. Ég var búin að gleyma að svona veður væri til og finnst það bara hressandi og upplífgandi.
Og svo kom aftur helgi. Arna, Breki og Sigrún Sól komu í heimsókn og lærðu að búa til skotvopn úr hvönn og reyniberjum. Þeim fannst þetta ákaflega merkilegt leikfang. Við hjónun fórum aftur í berjamó, í þetta skipti upp í Kjós og mokuðum upp krækiberjum 25 – 30 lítrum, sem búið er að hakka og nú á bara eftir að laga hlaup og saft.
Ég fór nýlega og hitti sex konur á Mílanó-kaffihúsinu, fyrrverandi og núverandi samstarfskonur. Ánægjuleg og skemmtileg stund. Ég fékk mér heitt súkkulaði með þeyttum rjóma og fimm laga súkkulaðitertu með frómas á milli laga með enn þá meiri þeyttum rjóma. Þarna voru sagðar ýmsar skemmtilegar sögur. Ég sagði m.a. frá því þegar Lilla mágkona drap hamsturinn hjá okkur með því að klippa hann í tvennt með skúffu. Ég hef aldrei séð hamstur sem var eins skúffaður. Sagan gerði gífurlega lukku, bæði við okkar borð og við næstu borð.
Nú er Þórdís frænka horfin til sælli heima, þ.e. til Barselónu, borgarinnar við Miðjarðarhafið, þessa heillandi staðar með iðandi mannlífi og seiðandi fegurð. Þórdís lofaði statt og stöðugt að blogga reglulega frá Spáni svo að við fáum að fylgjast með þroska hennar og upplifun í útlandinu, þar sem er eilífur stormbeljandi og ekkert skjól fyrir veðrum og vindum. Blogg-hringurinn má alls ekki rofna.
Nýir bloggarar eru boðnir velkomnir. Það verður fengur að fylgjast með fréttum í beinni frá Danaveldi, þar sem Þura og Hannes eru. Mikill fengur að slíku fólki.
Kveðja,
Bekka


::: posted by Bergthora at 11:23 f.h.




Powered by Blogger