Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

laugardagur, maí 21, 2005 :::
 
Hæ,
Ég er búin að vera frávita að áhyggjum undanfarið út af því hvar við ættum að halda Evróvisjón, þegar Selma væri búin að syngja sig inn í hjörtu og sálir Austur-Evrópu og hinna fyrrverandi sósíalísku ríkja, sem hafa bæst í forstokkaðan hóp þátttakenda í Evróvisjón og hafa í kjölfar þess lagt undir sig keppnina með lævísi og brögðum og komið flokkseigendafélaginu þar á bæ í opna skjöldu.
En þær áhyggjur hurfu eins og dögg fyrir sólu, þegar Selma var búin að syngja framlag íslensku þjóðarinnar í gömlu íþróttahöllinni í Kíev, sem var hulin einhverjum tjöldum, svo hinn sósíalíski arktitektúr eyðileggði ekki kvöldið fyrir gestum. Þegar síðasti tóninn dó út sagði ég við Eurovision-partýið mitt að það mætti mikið til koma, ef þessi flutningur fulltrúans af skerinu á norðurhjaranum hlyti náð fyrir augum gömlu kommanna. Evróvisjón-partýinu mínu fannst þetta talsverð svartsýni hjá mér, en það kom á daginn að hugboð mitt var á rökum reist. Austur-Evrópa gaf skít í okkur og Íslands farsælda Frón komst ekki áfram í keppninni.
Mér fannst myndbandið með íslenska laginu orðið mjög skemmtilegt og frambærilegt, þegar ég var búin að heyra það og sjá svona 40 sinnum. Mér fannst aftur á móti Selma ekki ná fullum krafti í söngnum í keppninni, sennilega hljóðmönnunum að kenna, bakraddirnar ekki koma nógu sterkt í gegn, líka sök hljóðmannanna. Dansinn, sem búið var að æfa í tvo og hálfan mánuð vakti upp hjá mér minningar um leik- og danssýningar, sem dætur mínar og systurdætur þvinguðu fjölskylduna forðum daga til að horfa á hvort sem fólk vildi eða ekki. Dansinn var einstaklega hallærislegur, hverjum sem það var að kenna - varla hljóðmönnunum. Það mætti kannske skrifa það á kostnað kvikmyndatökuliðsins, en mér fannst upptakan hreint út sagt í lélegri kantinum, rétt eins og fákunnandi krakkar hefðu fengið tökuvél í hendurnar. Það minnti mig á son vinahjóna okkar, sem fékk skólabróður sinn með kvikmyndatökuvél í fermingarveisluna sína á þeim tíma þegar slíkir gripir voru ekki í almannaeigu. Drengur sá tók myndir af gestunum alla veisluna út í gegn og beitti vélinni meira af kappi en forsjá. Hann hamaðist stanslaust með vélina í fjórar klukkustundir og þegar sýningin hófst var ekki hægt að henda reiður á neinu á tjaldinu. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á útsendinguna frá Kíev, þar sem vélarnar voru á hraðaspani upp og niður, út og suður og augað var ekki fyrr búið að fanga myndina, en vélin þeyttist aftur á stað, úr og í fókus, til hægri og vinstri, norður og niður..
Þá voru búningar íslensku stúlknanna alveg sér á parti. Hann minnti mig ekki á neinar gamlar minningar úr fjölskyldu eða vinahópi og því síður heldur íslenska þjóðbúninginn. Hvernig er hægt að vera svona ósmekklegur? Varla hljóðmönnum og tökuliðinu að kenna. Ég var sammála búningahönnuðinum, sem faldi sig bak við dökk gleraugu í sjónvarpsviðtali, að rauði liturinn klæðir Selmu vel, en það var líka það eina sem hún gat sagt sér til varnar og raunar það eina sem hún gat sagt.
Nú eru kommarnir fyrrverandi búnir að eyðileggja hvert Evróvisjón-partýið á fætur öðru hér á landi með því að að gefa ekki Selmu og co atkvæði sitt. Sumir hreinræktaðir aðdáendur keppninnar ætla bara að horfa á gamlar upptökur frá Evróvisjón í kvöld – vel að merkja upptökur þar sem Íslendingar hafa verið fyrir ofan 16. sæti. Þær eru bara ekki svo ýkja margar.
Gæti ástæðan verið, að lagið hafi ekki verið nógu skemmtilegt og grípandi, að flutningurinn hafi ekki náð að fanga athygli evrópskra hlustenda, þannig að þeir hafi hreinlega notað tímann til að fara á klósettið eða sótt sér góðgæti í ísskápinn meðan Selma var að syngja og dansa á sviðinu í Úkraínu og því ekki gefið laginu sitt atkvæði? Hvers vegna að eyða tímanum í lag og flytjendur frá einhverju landi sem maður veit hvorki haus né sporð á?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:23 e.h.


 

Um síðustu helgi var í Morgunblaðinu margauglýst viðtal við áttræða konu, sem hefur það lágar ráðstöfunartekjur, að hún er oftast búin með mánaðarhýruna talsvert fyrir mánaðamót. Bara rétt að minna á að þetta blað er málsvari þeirrar ríkisstjórnar, sem hefur farið með völd undanfarinn áratug og níðst endalaust á öldruðum, fátækum og fötluðum.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:22 e.h.


 
Hæ,
Ég frétti af konu norður á Akureyri, sem fær ekki að ættleiða barn. Konan er víst kennaramenntuð, fullfrísk og vel að sér í alla staði og ætti að séð fyrir sjálfri sér og eins og einu barni. Málmetandi yfirvöld á staðnum höfðu lagt blessun sína yfir ferð konunnar til hins fjarlæga austurs til að sækja sér dóttur, sem út hafði verið borin í föðurlandi sínu fljótlega eftir fæðingu og bíður móður eða foreldra á barnaheimili, þar sem stappar nærri að börnin séu vannærð og þess beðið að komi velstætt fók frá Vesturlöndum, taki að sér þessi börn og veiti þeim mannsæmandi kjör, svo ekki sé talað um hlýju og ástríki. Þegar umsókn þessarar konu barst í dómsmálaráðuneytið hrukku menn þar á bæ við og kváðu þessa konu ekki geta ættleitt barn vegna þess að hún væri of þung til að ættleiða og ala upp barn og kipptu umsókninni hennar úr bunkanum. Því miður, of feit, elskan!
Þeir eru alveg ótrúlegir ráðamennirnir í dómsmálaráðuneytinu og viðhorf þeirra til kvenna er nokkrum áratugum - og rúmlega það - á eftir tímanum. Hjördís Hákonardóttir var ekki á réttum aldri, þ.e. of gömul, til að verða hæstaréttardómari að þeirra mati á sínum tíma, en Ólafur Börkur var ekkert of heimskur, ungur, feitur eða lélegur námsmaður fyrir hæstarétt og Jón Steinar ekkert of umdeildur eða tengdur þáverandi forsætisráðherra til að fara í dómaraskikkjuna? Halda þessir menn að þeir komist umyrðalaust upp með svona gerræði í landi, þar sem hver einasti þegn er tilbúinn að rísa upp og standa á rétti sínum, þar sem búið er að stofna harðsnúna stuðningshópa á fimm mínútum, sem hafa umsvifalaust á sínum snærum hvers kyns sérfræðinga og aðstoðarfólk? Já, þeir halda það, vegna þess að þeir komast því miður alltof oft upp með svona atferði.
Dómsmálaráðherrann er t.d. búinn að láta fella fullt af barrtrjám á Þingvöllum af því honum finnst þau ekki falla inn í Þingvallastílinn og íslenska gróðurfarið. Ég er viss um að sum þessara trjáa hafa verið lengur hér á landi en hann. Það er til fullt af fólki, sem er á þeirri skoðun, að þessi tré hafi sómt sér ljómandi vel í landslaginu, þau hafi verið þarna svo lengi sem það man og engin ástæða til að hrófla við þeim
Mér dettur í hug hvort ætti að banna dómsmálaráðherrafrúnni að spila á fiðlu af því hárið á henni er svo tjásulegt eða hvort ætti að kippa skrautjurtum af erlendum sortum upp úr garði ráðherrans. Væri það ekki í sama stíl og ákvarðanir dómsmálaráðuneytisins og Þingvallanefndar?
Ég veit ekki af hverju kom upp í huga minn 30 ára gömul frétt úr útvarpinu um gistiheimili rétt við miðbæinn, sem lögreglan hafði afskipti af, vegna þess að eiginkona vertsins átti það til að ganga allsber um í matsalnum og gestirnir kvörtuðu út af þessari uppákomu. En Óli granni sagði, að þessi frétt hefði ekki sagt alla söguna. Gestirnir hefðu vissulega kvartað – ekki þess að hún hefði gengið um nakin, heldur vegna þess að hún hefði ekki verið nógu vel vaxin.
Þarf Barbie-look til að ættleiða og ala upp, ganga um nakin og spila á fiðlu?
Kannske þetta sé bara staðfesting fulltrúa ríkisstjórnarinnar á því, að ekki sé hægt að leyfa einhleypum kennurum að ættleiða barn á hungurmörkunum. Þeir hafi hvorki fjárhagslega burði né getu til þess.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:20 e.h.




Powered by Blogger