Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, desember 14, 2007 :::
 
Hæ,
Ég var að hluta á ríkisútvarpið, Rás 1 eða gömlu góðu gufuna í gærmorgun, þegar ég heyrði lesinn harðorðan pistil sem hljóðaði nokkurn veginn á þessa leið, ekki alveg orðrétt, en mjög nærri lagi:
“Meðferð bandarískra yfirvalda á íslenskri konu sem segir sögu sína í blaðinu í dag er hneyksli. Ríki sem leyfir sér að koma fram við almenna ferðamenn á þann veg sem konan lýsir er á hraðri leið að verða að lögregluríki, sem svífst einskis í samskiptum við fólk.
Dregið er í efa að íslenskur þegn hafi nokkru sinni fengið aðra eins meðferð hjá ríkjum kommúnismans eða fasismans eða nokkru einræðis- og kúgunarríki í veröldinni. Saklaus kona er sett í fangelsi, fær ekki að hafa samband við nokkurn mann, er hlekkjuð á höndum og fótum og flutt þannig út í flugvél um leið og henni er vísað úr landi. Það er ekki hægt að hafa nokkur orð um svona framkomu. Þau stjórnvöld sem haga sér á þennan hátt gagnvart venjulegu fólki af ekki meira tilefni eru gersamlega sturluð, þau vita hvorki í þennan heim annan. Þau hafa misst veruleikaskynið. Framkoma bandarískra yfirvalda í garð konunnar er fyrirlitleg.”
Mér fannst meðan á lestrinum stóð að verið væri að lesa upp úr gamla Þjóðviljanum og gladdist mjög í hjarta mínu ef búið væri að endurlífga hann. En þegar lestrinum lauk og sagt frá því hvaðan þessi hatursfulli pistill í garð Guðs eigin lands væri ættaður, datt alveg gersamlega yfir mig og það lá við öðru hjartastoppi hjá mér á skömmum tíma. Það var verið að lesa úr Morgunblaðinu, sem svo lengi sem ég man, hefur sleikt rassgatið á Bandaríkjunum og ráðamönnum þess af mun meiri áfergju og ást en nokkur Bandaríkjamaður hefur alið í garð eigin föðurlands.
Hvað er um að vera? Slapp einhver gamall kommi inn á Moggann, er þetta breytt viðhorf íhaldsins eða brást ritskoðunin?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:55 e.h.


 
Hæ,
Ég fór i hjartastopp um dagunn. Ástæðan var sú að uppþvottavélin mín fór ekki í gang þegar ég ýtti á takkann. Ég sá fram á ömurlega uppþvottadaga og þegar ég fann að hjartað í mér hætti að slá, teygði ég mig í símann til að hringja í neyðarlínuna og byrjaði að hringja í 911. Þá mundi ég eftir því að við hér á Fróni erum með allt annað númer í neyð heldur en í amerísku kvikmyndunum, þar sem hringt er a.m.k. einu sinni til tvisvar í neyðarlínuna í hverri mynd. Ég gat ómögulega munað íslenska neyðarnúmerið þótt ég ætti að vinna mér það til lífs í bókstaflegri merkingu. Ég hélt að hjartað í mér myndi aldrei slá framar, ég hneig hægt og rólega niður og fram á við og lenti mjúklega framan á uppáhaldi lífs míns, uppþvottavélinni minni. Við það hrökk vélin í gang og þar með hjartað í mér. Vélin hafði bara verið illa lokuð.
Kveðja,
Bekka
P.S. Númerið á Fróni er 112. Ég kynnti mér að ef ske kynni að ég þyrfti á því að halda.

::: posted by Bergthora at 4:51 e.h.


sunnudagur, desember 09, 2007 :::
 
Hæ,
Mikið frost herjaði á allt og alla í gær. Það kom svo sem ekki að sök að neinu leyti, nema hvað hurðin farþegamegin að framan á bílnum okkar fraus algerlega föst og ekki var nokkur leið að opna hana þrátt fyrir allharkalegar tilraunir. Minn betri helmingur kom sér fyrir undir stýri og tilkynnti mér að ég yrði bara að sitja aftur í. Ég hunskaðist inn að aftan og kom mér fyrir í sætinu og fannst mér ég frekar annars flokks heldur en hitt. Þegar ég spurði bílstjórann, hvernig veðurhorfur væru á næstu dögum, hvort ég ætti þess kost að setjast í framsætið í bráð eða myndi þurfa að hírast lengi í aftursætinu, svaraði hann því til að engin von væri á hlýindum og líklega væri best að ég héldi mig bara aftur í eins og kóngafólkið. En það er ábyggilega meira spennandi að sitja aftur í þegar maður er á Benz með leðurklæddum sætum, heldur en í tausætum í Toyota með Bónus-poka í höndunum.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:58 e.h.




Powered by Blogger