Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, febrúar 18, 2004 :::
 
Hæ,
Alltaf gaman að lesa bloggið. Þessa dagana fer ég alltaf fyrst á síðurnar hjá Þuru og Hannesi vegna þess að ég bíð eftir mynd af nýjasta erfingja þeirra á dönsku bloggsíðunum. Fer ekki að koma mynd?

SPURNING DAGSINS
Hjóluðu Bergþóra og Agneta í vinnuna í morgun? Ég vona ekki.

MÁLFARSRÁÐUNAUTUR
Silja æsir sig út af að málfari Reykvíkinga – pissar maður á sig eða í sig – eða pissar barn á sig eða í sig? Ég er henni svo hjartanlega sammála. Ég svara alltaf röngu málfari með leiðréttingu – er sem sagt mjög leiðinleg. Einu sinni hafið dagblað ekki verið borið út til okkar og ég hringdi til að kvarta. “Vantar þér blaðið í dag?” spurði stelpan á hinum endanum og tókst að eyðileggja fyrir mér daginn. “Nei, MIG vantar blaðið í dag,” hreytti ég út úr mér, brjáluð af æsingi.
Það hringdi maður í mig í vinnuna um daginn og spurði: “Ert þú ritarinn hans Hörðs?” Ég gat ekki svarað þessu játandi, svo ég svaraði að bragði: “Ég er ritarinn hans Harðar.” Getið þið ímyndað ykkur hvað þetta er gremjulegt svar fyrir aðilann á hinum enda símalínunnar?

MINNINGARGREINAR
Þór frændi skrifar svo fallega um Matthías Viðar Sæmundsson. Ég fékk tár í augun yfir lokaorðunum. Það ríkir ekki aðeins sorg þegar úrvalsfólk hverfur úr þessum heimi, heldur líka gleði yfir að hafa kynnst og átt hlutdeild í lífi mikilmenna hinnar daglegu baráttu. Af hverju eru ekki fleiri slíkar minningargreinar í Mogganum?
Ég ræddi eitt sinn við ritstjóra minningargreina í Mogganum þegar ég sendi minningargrein þangað, sem var talin of löng. Þá sagði ég honum álit mitt á því þegar nánasta fjölskylda hins látna sendir inn tugi minningargreina, sem eru næstum allar eins – elsku amma, hvað þú bakaðir góðar skúffukökur – elsku amma, skúffukökurnar þínar voru alveg sérstakar – elsku amma, ég gleymi aldrei skúffukökunum þínum og svona heldur hver einasti afkomandi áfram frá fólki á sjötugsaldri niður í ómálga kornabörn meðan ættboginn endist. Hann var mér hjartanlega sammála, en tjáði mér einnig að hann réði þessu ekki, þetta væri það sem fólkið vildi. Þá var ekki um fleira að ræða okkar á milli og við kvöddumst með mestu virktum.
Gott og vel, látið fólkið hafa það sem það vill –fyrst meiri hlutinn vill síendurtekningu og skort á frumleika í velflestum minningargreinum.

HVAÐ ER VERSTI GLÆPURINN?
John Kerry, lukkunnar pamfíll, giftur tómatsósuveldi, hefur stigið æ hraðar upp á stjörnuhimininn í Guðs eigin landi. Ýmsum andstæðingum hans þótti greinilega nóg um þessa stighækkandi stjörnu og til að stöðva hraðan framgang hans var sett í kreik sú saga að hann hefði átt í framhjáhaldi við einhverja blaðakonu. Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta er satt eða logið og er bara alveg skítsama. Sé svo þá eru þau ekki fyrsta fólkið í heiminum, sem hafa haldið fram hjá og því síður í Ameríku. Framhjáhald virðist það versta sem til er í augum Bandaríkjamanna, en svo birtist tvískinningurinn hvert sem litið er. Ég hef séð ótal bandarískar kvikmyndir og lesið ótal bandarískar bækur, þar sem framhjáhald virðist hinn eðlilegast hlutur og samúðin oft meiri með hjónadjöflinum en svikna makanum.
Án þess að mæla framhjáhaldi nokkra bót, verð ég að segja að mér finnst skárra að látið sé vel að annarri persónu og henni sýnd atlot, heldur en að aukið sé á grátlega eymd og sára fátækt heillar þjóðar með því að hella yfir hana eldi og eimyrju vopnaðra herja.
Og þegar þessar línur eru settar á prent berast fréttir þess efnis að John Kerry hafi sigrað naumlega í forkosningum í Wisconsin. Stjarna hans hefur sigið aðeins á hinum bandaríska stjórnmálahimni. Framhjáhaldsfréttin virðist hafa skilað sínu, hvaðan sem hún er komin - sönn eða ósönn. Ég bara spyr sem fávís kona – dettur nokkrum í hug að halda fram hjá Heinz-tómatsósu?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:50 e.h.


mánudagur, febrúar 16, 2004 :::
 
Hæ,
Þura, Hannes og synir!
Hjartanlega til hamingju með litla drenginn.
Megi hann verða hraustur og hamingjusamur á lífsleiðinni.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:08 e.h.




Powered by Blogger