Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, nóvember 09, 2007 :::
 
Hæ,
Nýlega var endurútgefin bókin Tíu litlir negrastrákar og fannst mér bara gaman að heyra þá frétt og sá ekkert að því að gefa aftur út bækur, sem ég og jafnaldrar mínir áttum, lásum og nutum til fullnustu. Að vísu varpaði ég fram þeirri spurningu hvort þetta mætti, þar sem búið væri að taka orðið negri út úr orðabókinni. En fréttin var lengri en þetta og þegar hún hafði verið lesin til enda, rann upp fyrir mér að ég og fleiri höfðum í æsku verið algerlega ógagnrýnin á umhverfið og alla bókmenntaútgáfu og jafnframt því gersamlega óupplýst um stöðu kynþátta í heiminum, þ.e.a.s. annarra kynþátta en hins alhvíta kynstofns, sem litið var á sem kórónu sköpunarverksins og þurfti ekki að deila um það eða hafa fleiri orð þar um.
Það má segja að blómaskeið litlu negrastrákanna tíu hafi staðið yfir þegar ég var barn norður á Akureyri. Bókinni var stillt út í Bókabúð Jónasar og í Rikku, seldist jafnt og þétt og þjónustulipurt afgreiðslufólk pakkaði henni umyrðalaust inn og rétti kaupendum yfir borðið eins og ekkert væri og þaðan barst bókin inn á því sem næst hvert heimili, þótti sjálfsögð eign og var lesin fyrir kornabörn í vöggu og allt upp í stálpaða unglinga.
Þegar jólin gengu í garð var gengið í kringum jólatré á flestum heimilum og nær undantekningarlaust var bragurinn um tíu litla negrastráka sunginn af innlifum og léttleika og þótti hinn skemmtilegasti. Mig minnir meira að segja að lagið hafði verið sungið á litlu jólunum í barnaskólanum á hverju ári og enginn hafði neitt við það að athuga. Í augum allra var þetta lag gamanbragur.
Það sýnir andvaraleysi þessara ára að fólki skyldi yfirleitt ekki sjá neitt athugavert við að hafa fyrir börnum og syngja yfir sjálfa jólahátíðina texta, þar sem lítil börn láta lífið unnvörpum í skelfilegum slysum og óútskýranlegum, sem virðast að vísu ekki af völdum manna eða styrjaldar.
ÉG JÁTA...
En hér með er ekki öll sagan sögð. Fyrirlitningu minni í framkomu gagnvart öðrum kynþáttum en mínum eigin akureyrska kynþætti voru engin takmörk sett. Þegar ég var í fyrsta bekk gagnfræðaskólans bauðst mér hlutverk í leiksýningu á jólaskemmtun Kvennadeildar Slysavarnarfélags Íslands á Akureyri, þar sem störfuðu ýmsar merkar og heldri konur í bænum. Það tækifæri greip ég fagnandi, þar sem maður komst ekki á hverjum degi á leiksvið. Að vísu var svívirðilegur klíkuskapur í gangi, mamma var í skemmtinefndinni og náði þessu hlutverki fyrir mig – ábyggilega með harðfylgi og yfirgangi.
Skemmtinefndin hafði ákveðið að hafa Tíu litla negrastráka sem eitt atriðið á skemmtiskránni og þær raddfegurstu í nefndinni sungu textann við píanóundirleik – gott ef merkur tónlistarkennari á Akureyri spilaði ekki undir. Ellefu stelpur á barnaskólaaldri léku negrastrákana og dömuna, sem sá síðasti náði svo hamingjusamlega í, öll með svarta nælonsokka fyrir andlitinu. Ég lék aftur á móti frampartinn af kúnni, sem stangaði einn af negrastrákunum til ólífis og Jófí, bekkjarsystir mín lék afturpartinn, en mamma hennar var líka í skemmtinefndinni. Við vorum undir þykkri bleikleitri ullarábreiðu, sem var brydduð með satínkanti og hafði teiknaður kýrhaus verið festur við annan endann og þokkafullur hali við hinn. Við vorum í þykkum ullarleistum til að það sem niður undan ábreiðunni stóð minnti sem mest á kýrfætur. Mér fannst þetta gervi alveg meiri háttar á sínum tíma, þannig að það má segja að gagnrýnileysi hafði ríkt á fleiri sviðum en hvað kynþáttavitund varðaði.
Hófst nú skemmtunin og er ekki að orðlengja það að viðbrögð áhorfenda voru ákaflega jákvæð og gleðiþrungin. Ánægjan magnaðist eftir því sem fleiri létu lífið á senunni og náði hátindi er kýrin brölti inn um dyrnar á gamla Alþýðuhúsinu og reyndi að finna negrastrákinn sem hún átti að reka á hol, þótt engin hefði hún hornin. Framparturinn af kúnni sá ekkert í gegnum einhver göt, sem áttu að þjóna hlutverki augna, þar sem gerfið hafði haggast og augngötin færst úr stað, en afturparturinn var meðleikari sem mátti treysta fullkomlega, hékk á rassinum á mér eins og hundur á roði og sá um baulið. En aftakan gekk ljómandi vel, enda hafði leikstjóri skipað svo fyrir að negrastrákurinn skyldi hlaupa beint framan á kýrhausinn og falla síðan líflaus til jarðar. Aftur á móti gekk mér og afturpartinum hálfilla að komast út úr salnum að unnu afreki og þurfti nokkrar tilraunir til að komast út um tvíbreiðar dyrnar og fram á gang. Mig minnir að Steingrímur húsvörður hafi aðstoðað beljuna við að ramba á dyrnar.
Lófaklappi og fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna eftir atriðið þegar sá negrastrákanna, sem einn lifði af hinar hræðilegu hremmingar, tók negrastelpuna á löpp og hinir látnu risu upp af slysstað og eltu þau í bíó. Síðast stilltu negrastrákarnir sér upp í röð til að hneigja sig og kýrin kom inn, baulaði tvíraddað og hneigði sig líka. Og hvað sem segja má um trúverðuga túlkun litlu telpnanna í hlutverki negrastrákanna, þá verður að segjast að það var kýrin í meðförum okkar Jófíar og hennar afrek, sem gerði hvað taumlausasta lukku í salnum, sem var troðfullur af kynþáttahöturum - akureyrskum konum með börnin sín.
Er ég seint og um síðir hef loks verið leidd í allan sannleika um óeðlilegan dauðdaga litlu negrastrákana tíu, sem fóru út að skemmta sér og týndu tölunni smátt og smátt á óskiljanlegan máta, hálfskammast ég mín fyrir hvað æfingarnar og sýningin hafa alltaf verið skemmtileg minning í huga mér. Líklega er við hæfi að biðjast afsökunar, en ég veit bara ekki alveg hvert ég ætti að snúa mér. Þess vegna tel ég best að biðja bara góðan guð um að veita mér syndaaflausn vegna rasískra aðgerða minna á Akureyri forðum daga.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 11:42 f.h.


sunnudagur, nóvember 04, 2007 :::
 
Hæ,
"Mér hefur nú alltaf fundist Villi kolla voða mikið suður um höfin."
Þessi setning kom upp í huga minn og ég ætlaði alltaf að setja hana á bloggið, þegar ég heyrði fréttir af því Raggi Bjarna hefi verið útnefndur borgarlistamaður. Svo komst ég aldrei til að setja þetta gullkorn mitt inn á bloggið vegna annríkis og framkvæmdaleysis og að lokum hætti ég við birtingu, þar sem mér fannst svo langt síðan útnefningin fór fram. Úrelt frétt og efni.
Ég hefði betur dritað þessu inn á bloggið mitt, hugsaði ég með mér, þegar ég heyrði fréttir af því að sex fulltrúar fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluta hefðu ætlað að ganga af göflunum, þegar þeir stóðu allt í einu frammi fyrir því að búið var að útnefna borgarlistamann án þess að þeir hefðu nokkuð haft um að að segja. Hafði þeim - eins og mér - þótt nokkuð lágt seilst.
Kveðja,
Bekka
PS. Í næsta pistli mun ég fjalla um rasískar aðgerðir mínar á opinberum vettvangi í æsku. Farið ekki langt!

::: posted by Bergthora at 8:49 e.h.




Powered by Blogger