föstudagur, maí 27, 2005 :::
Hæ,
Þegar ég átti heima í Sovétríkjunum sælu og sálugu var æði oft skrifað í Morgunblaðið um bág og aumleg kjör sovéskrar alþýðu og þjóðarinnar allrar. Þá voru laun sovéskra verkamanna í rúblum umreiknuð í íslenskrar krónur og síðan borin saman við verðbólguverðlag í íslenskum verslunum, hvað verkamaðurinn gæti keypt í SS-búðunum eða verslunum KRON fyrir mánaðarhýruna. Samkvæmt Mogganum var matarforði mánaðarins af mjög skornum skammti. Gott ef Ivan Ivanovits var ekki hátt í heilan vinnudag að vinna fyrir einu rúgbrauði og mjólkurpotti. Mogginn minntist aldrei á að hvað nauðsynjavörur kostuðu í Sovétríkjunum og að verðlag þar væri stöðugt.
Þegar ég kom þangað nokkrum dögum eftir Tékkó haustið 1968 - skjálfandi á beinunum í sífelldum ótta um að KGB myndi pikka í öxlina á mér og spyrja mig hvað elsta bróður mínum og fjölskyldu minni fyndist um aðgerðir Rússa í Tékkóslóvakíu - kostaði einn lítri af mjólk 30 kópeka, ferð með strætó og metró kostaði 5 kópeka, kíló af Uglits-osti kostaði 3 rúblur og Prag-súkkulaðiterta (betri en Betty Crocker) kostaði 3 rúblur. Það kostaði ekkert að fara til læknis eða liggja á sjúkrahúsi. Lyf kostuðu lítið sem ekkert. Þegar ég fór heim fjórum árum síðar hafði verðlagið lítið sem ekkert breyst.
Öðru máli gegndi með vörur hér heima. Hér dansaði verðbólgan æ hraðar og eftir að ég kom heim frá Rússíá, þar sem ég hafði haft verð á öllum nauðsynjavörum á hreinu, var æði erfitt fyrir mig að muna verð á vörum hér heima, sem hreinlega hækkuðu í hillunum meðan staldrað var við í búðinni og Rússar fengu auðvitað minna og minna fyrir launin sín í SS og KRON.
Þannig var samanburðurinn þá. Ekki var spurt hvað sovéska fjölskyldan gæti fengið fyrir tekjur sínar í sovéskum verslunum, heldur íslenskum.
Nú er komið nýtt viðhorf, enda búið að ganga af Sovét og gamla Kína dauðu, þar sem einhverjir kommar voru að reyna að koma á sæluríki. Nýlega var sagt frá því í fréttum, að Íslendingar reka fiskvinnslu í Kína, þar sem saklausar sveitastúlkur vinna tíu tíma vinnudag sex daga vikunnar og hljóta fyrir 100 dollara á mánuði. Dollarinn er 65.05 þegar þessi orð eru skrifuð og mánaðarlaun kínversku sveitastelpnanna eru 6.505 fyrir 60 tíma vinnuviku.
Yfir þessum fréttum eru allir yfir sig hrifnir og finnst þetta alveg stórfenglegt. Hér með væri stúlkunum gert kleift að senda peninga heim í sveitina til fjölskyldna sinna - greinilegt að kínverskur landbúnaður á undir högg að sækja og búin þurfa aukatekjur til að standa undir rekstrinum – og það sem er enn betra er að Íslendingar geta með þessu framtaki grætt í útlöndum á ódýru vinnuafli, sem jafnframt er traust og afkastamikið vinnuafl.
Nú var ekki verið að reikna út hvað kínversku stúlkurnar gæti keypt í Karen Millen, Centrum og Hagkaupsbúðunum fyrir 100 dollara, eða borðað oft fyrir þá í Perlunni, heldur voru þeir orðnir að gífurlega hárri upphæð, sem framfleytir mannmörgum fjölskyldum vel og lengi, vegna þess að í Kína er verðlag allt annað og kröfur alþýðunnar til sveita svo langt frá okkar raunveruleika. Íslenskir fjölmiðlar tóku þeta sérstaklega fram.
Svo stóðu Forseti Íslands og fjölmargir fulltrúar íslensks iðnaðar agndofa af hrifningu og aðdáun í kínverska vinnslusalnum – löngu búnir að gleyma öllu sem heitir 40 stunda vinnuvika - og áttu vart orð til að lýsa hversu dásamlegt þetta allt saman væri.
Og allt í einu fannst mér þetta ekkert annað en dásamlegt kraftaverk og ekkert undarlegt, þótt þeir verði hrifnir af sveitastelpunum í Kína, sem leggja nótt við dag til að hlaupa undir bagga með fjölskyldusinni. Ég heimfærði þetta dæmi upp á íslensku hamborgarakynslóðina, sem eyðir margföldum mánaðarlaunum kínversku unglinganna á örskömmum tíma í GSM-síma, bíóferðir, sælgæti, vídeóspólur og skyndibita og telur slíka upphæð bara vasapeninga af skornum skammti til skamms tíma og lætur sér síst detta í hug að leggja á sig erfiðisvinnu til að láta launin renna til foreldra sinna og fjölskyldu til að létta þeim áhyggjur og búksorgir.
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 1:00 e.h.
Hæ,
Ég var aðeins að æsa mig út af Evróvisjón og tók létta rispu út af dansinum. Ég fékk komment frá systurdóttur minni, sem var afskaplega sár út af því að ég talaði um hallærislegan dans Kænugarðs-faranna og bar hann saman við dansana, sem hún tók þátt í forðum daga, þegar Akureyrar- og Reykjavíkurfrænkur hittust og notuðu þá tækifærið til að troða upp fyrir ættingja og fjölskyldu, sem áttu sér ekki undankomu auðið.
Bara til að forðast allan misskilning og fjölskyldudeilur, vil ég taka það fram að mér fannst Kænugarðs-dansinn afar hallærislegur og þótt ég hafi sagt að sporin hafi minnt mig á dans dætra minna og systurdætra í æsku, er hér engu saman að jafna.
Annars vegar voru smátelpur, sem settu upp leikhús og gerðu sér grein fyrir því að það mátti ekki áhorfendalaust vera. Enda var byrjað á því að ná í áhorfendur, koma þeim fyrir á einni til tveimur stólaröðum fyrir framan vængjahurð eða teppi, eftir því sem aðstæður leyfðu, sem gegndu hlutverki leiktjalds.. Síðan hófst hálftíma undirbúningur, samráð, búningahönnun og æfingar. Það var stranglega bannað að yfirgefa salinn fyrr en leik- eða danssýning hófst, sem gat verið nokkuð þreytandi og það var ekki hægt að fá leyfi til að sinna heimilisstörfum fram að sýningu. Öllum slíkum beiðnum var umsvifalaust hafnað. En sýningarnar stóðu svo sannarlega fyrir sínu, þá loksins þær hófust. Áhorfendur kunnu vel að meta skemmtunina, klöppuðu litlu listakonunum lof í lófa og knúsuðu þær stubbalegustu. Mig minnir að Einar bróðir hafi alltaf verið skemmtilegasti og þakklátasti áhorfandinn, enda hafði hann ríkan skilning á því að listafólk getur ekki þrifist án þess að hafa áhorfendur og áheyrendur.
Hins vegar eru útlærðar listakonur, sem, eru búnar að æfa í tvo og hálfan mánuð undir leiðsögn sérfræðinga á ótal sviðum, fá til liðs við sig ráðgjafa og leiðbeinendur, halda langa fundi og horfa á útkomuna í speglum og á myndböndum. Þær halda til útlanda ásamt stórum hópi aðstoðarmanna og mörgum fararstjórum til að keppa fyrir Íslands hönd í Evróvisjón og auðvitað eru allir á launum. Líka Gísli Marteinn með miður smekklegar athugasemdir í garð bæði einstaklinga og þjóða yfir alþjóð.
Allir á launum. Hjá hverjum? Auðvitað hjá blásaklausum skattborgurum þessa lands, sem mega þola það nótt sem nýtan dag að vera með krumlu Skattmanns á kafi ofan í öllum launaumslögum, vösum, peningabuddum, bankabókum og sparigrísum, þar sem strax eru rifin 37,73% af innkomunni og síðan er haldið áfram að rífa eftir atvikum 24.5% eða 14% söluskatt af hverri krónu, sem þessi hópur eignast, fyrir utan að hvert heimili greiðir mánaðarlegt gjald til Ríkisútvarpsins, sem er kr. 2.705 – kr. 32.460 á ári.
Það hlýtur að mega gera einhverjar kröfur til þessa fólks. Meiri en til amatör-dansara, sem koma fram í þröngum hópi í heimahúsum
Kveðja,
Bekka
::: posted by Bergthora at 12:50 e.h.