Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, maí 26, 2004 :::
 
Kæru (fjölmörgu) lesendur,
Ég er farin ásamt mínum ektamanni í sumarfrí til Moskvu með smáviðkomu í borginni við sundið.
Strax eftir heimkomuna fer ég norður til Akureyrar til að halda upp á nokkurra áratuga stúdentsafmæli mitt.
Því verður smáhlé á bloggskrifum hjá mér. Ég veit ekki hvort ég á að lofa því að birta ferðasöguna í ár á bloggsíðu minni, þar sem ég á enn hálfskrifaða ferðasögu frá Evrópuferðinni í fyrra. Ég ætti kannske að hafa mig í að klára hana og birta áður en ég ræðst til atlögu við næstu ferðasögu.
Sem sagt - Moskva, mín gamla heimaborg, bíður með óþreyju.
Kveðja,
Bekka

P.S. Má sá blogga sem er í markaðsráðandi stöðu?

::: posted by Bergthora at 10:15 f.h.


mánudagur, maí 24, 2004 :::
 
Hæ,
Haldið þið ekki að ég hafi farið í ríkið um daginn, þegar ég var á leiðinni í danska brúðkaupið og í partýið, sem ég var svo “full” í. Ég var á leiðinni niður Salaveg í veisluna til Raxellu, þegar ég mundi allt í einu að maður átti að hafa með sér brykkjarföng í partýið sem ég ætlaði í síðar um kvöldið. Umferðin var gífurlega þung þennan dag – ég hafði tæpum klukkutíma áður verið rúmt kortér á leiðinni úr vinnunni, sem er ekki nema 5 – 7 mínútna ferðalag við venjulegar kringumstæður. Ég ákvað að koma við í fyrsta ríkinu á leiðinni, eða Vínbúð, eins og það heitir núna, sem er í Smáralindinni. Allt brjálað á þeim slóðum, endalausar biðraðir af bílum inn á allar innkeyrslur. Ég sá fyrir mér að það tæki mig hálftíma að finna stæði, komast inn í ríkið, ljúka erindum mínum þar og komast aftur út í bílinn.
Þegar ég keyrði undir Hagkaupsskyggnið í Smáralind sá ég mér til mikillar furðu og gleði að engir fatlaðir voru að versla þar – aldrei þessu vant. Öll þeirra stæði voru laus, svo ég fékk stæðið hennar SSólar lánað í nokkrar mínútur. Ég renndi bílnum inn á eitt af auðu “fötluðu” stæðunum, drap á honum, opnaði dyrnar og vóg mig með erfiðsmunum upp úr sætinu og út fyrir. Til að þetta liti trúverðuglega út hjá mér ákvað ég að reyna að vera smáfötluð og haltra smávegis. Þar sem ég var að fara í vínbúðina fannst mér líka koma sterklega til greina að slangra þangað inn. Ég gat ekki ákveðið mig hvor möguleikinn kæmi betur út, svo að ég slangraði haltrandi inn í vínbúðina og keypti þrjár flöskur af rauðvíni. Svo sveiflaðist ég út aftur og keypti SÁÁ-álfinn á bakaleiðinni af fyrrverandi fyllibyttu og svekkingalegum syni hans, sem voru að selja álfa nálægt innganginum. Nokkuð gott sölutrikk af þeirra hálfu – að græða á því að kynda undir sektarkennd þeirra, sem voru að eyða stórum fjárhæðum í ríkinu, sem varð svo aftur til þess að ríkið græddi og áfengisbölið hélt áfram að hafa sinn framgang.
Þetta allt saman tók mig innan við fimm mínútur, þótt ég væri ”fötluð”.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 10:15 f.h.




Powered by Blogger