Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, júlí 13, 2005 :::
 
Hæ,
Ég leit yfir nokkrar gamlar blogg-færslur hjá mér nýlega og áttaði mig á mig á því að ég er alltaf að ausa úr skálum reiði minnar í garð ýmissa afla, aðallega ríkisstjórnarinnar og ráðamanna hér á landi. Ókunnugt fólk heldur áreiðanlega að ég sé óskaplega fúllynd og beisk dags daglega. Bara til að fyrirbyggja misskilning og ranghugmyndir. Því er alls ekki svo varið. Ég vakna í rjómaskapi á morgnana, geng vinnufús og vösk til verka minna og leggst glöð og sátt til hvíldar að afloknum hverjum þeim degi, sem Guð er svo góður að gefa mér til viðbótar við þá áratugi, sem ég hef þegar lagt að baki. Þetta er niðurstaða mín eftir að hafa þaulhugsað skapgerð mína og lund, en ég veit svo sem ekki hvað þeir segja, sem þurfa að umbera mig allan daginn eða part úr degi.
Þrátt fyrir harða gagnrýni og ádeilu á ráðamenn þessa lands af minni hálfu, tekst þessu fólki ekki að eyðileggja fyrir mér allan daginn, en ég verð að viðurkenna að það getur sigið verulega í mig við að hlusta á málflutning þeirra, en þá er ég svo heppin að geta gripið til takka eða fjarstýringa til að þagga niður í því. Í gærkvöldi var t.d. hæstvirtur dómsmálaráðherra með einræður í fréttatengdum útvarpsþætti í þann mund sem ég var að setjast að ljúffengum grænmetisrétti. Ég bað eiginmann minn að skrúfa þegar í stað fyrir, svo hægt væri að njóta máltíðarinnar, sem hann gerði orðalaust á stundinni. En ráðherrann hélt áfram að tala, þótt búið væri að skrúfa fyrir hann og var ég farin að halda að búið væri að koma upp beinni rás heim til mín, þar sem ráðherrann hefði gert sér grein fyrir því að mikill væri andskotinn í vantrúarinnar börnum og hann skyldi út reka. En svo kom í ljós að annað viðtæki var opið einhvers staðar úti í horni og þar með var lokað fyrir visku og boðskap ráðherrans. Mitt góða skap náði aftur yfirhöndinni og ekkert gat eyðilagt fyrir mér kvöldmáltíðina.
Síðar um kvöldið birtist maður á skjánum, þjálfari þekkts íþróttafélags, sem var spurður út í slakan feril liðsins, sem er einhvers staðar á einhverjum botni í einhverri deild. Mér til mikillar skemmtunar sagði hann á þá leið, að þeir hefðu ekki staðið sig illa, en hefðu ekki notað þau tækifæri sem þeim hefðu gefist og vörnin hefði verið slök hjá þeim. Er þetta ekki sjálfsblekking á fremur háu stigi? Ég tek fram að hann notaði auðvitað sögnina að vera sem hjálparsögn með hverri sögn, sem er auðvitað dauðasök frá mínum bæjardyrum séð.
Ég las í blaði í gær að fólk væri svo illa haldið andlega eftir nokkra rigningardaga, að það hringdi með grátstafinn í kverkunum á ferðaskrifstofur og grátbændi um ferðir til sólarlanda. Hvers lags vanstilling og óhemjugangur er þetta? Af hverju er þetta fólk ekki heima hjá sér til tilbreytingar? Nýtur þess að vera á eigin heimili í friði og ró. Fólk er aldrei heima hjá sér á virkum dögum, rétt skríður inn um náttmál til að sofa og rífur sig upp um rismál og fer að heiman - í vinnu, í líkamsræktarstöð, til útlanda, í tómstundaiðju, í sumarbústað eða í heimsókn á önnur heimili. Er nokkuð fráleitt að eyða heilum degi heima hjá sér? Bara að láta sér detta það í hug.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 4:53 e.h.




Powered by Blogger