Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, október 31, 2003 :::
 
Hæ,
Sól og frost - Akureyrarveður. Það marrar í snjónum í frostinu - kjörið veður til útivistar. Fara út, anda djúpt og hreinsa inniverurykið úr lungunum. Nýr líkami - ný sál.
Hildigunnur er nýkomin frá Granada, þar sem við Eyjó, Friðgeir og Súsana vorum í sumar. Alhambra-höllin var óviðjafnanleg. Eftir langan og sólríkan dag í höllinni og hallargarðinum settumst við inn í bílinn og hlustuðum á Minningar frá Alhambra í túlkun Einars. Umhverfið yndislega og tónarnir fögru voru fallegur endir á einstökum degi. Gítarleikurinn kallaði fram þungbæran söknuð og sársauka við hjartarætur.
Í kvöld eru Rússíbana-tónleikar í Salnum í Kópavogi - fyrstu tónleikar Rússíbana eftir fráfall Einars. Þangað ætla ég.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:27 e.h.


fimmtudagur, október 30, 2003 :::
 
Hæ,
Sniðug hugmynd hjá Þórdísi frænku að setja jólagjafaóskalista á bloggið. Ég ætla að gera það líka. Farið að spara og leggja fyrir svo að þið getið gefið mér fallegar og rausnarlegar jólagjafir, sem þið getið verið stolt af að gefa. Ég gæti líka verið lista í tveim til þrem verslunun eins og brúðhjón gera.
LOTTÓVINNINGUR
Vel á minnst: Ég vona að lottóvinningshafinn og hans meðaðili gefi mér jólagjöf sem ekki gleymist – ef eitthvað verður afgangs.
Fyrst upplýsingar um lottóvinningshafann eru komnar um allt blogg, allan heim og víðar vil eg taka fram að ég þekki vinningshafann vel og hitti hann mjög oft. Ég sef meira að segja hjá honum. Nú fáið þið ekki fleiri ábendingar, verðið að finna út sjálf hver þetta er.
Fregnirnar af vinningnum eru stórlega ýktar. Þetta er ekki stór lottóvinningur, hann samsvarar mánaðarlaunum vesæls ritara í heilbrigðisgeiranum. Ritarar á frjálsum markaði fá talsvert hærra í laun en þessa upphæð. Þar að auki skiptist vinningurinn í tvennt milli lottóvinningshafans og hans meðaðila. Ekki má gleyma endalausum áheitum, sem búið er að taka af vinningnum. Ég var dálítið hrædd um að vinningshafinn yrði kominn í skuld eftir uppgjörið, en það lítur út fyrir að hann sleppi nálægt núlli. Sem sagt vinningur upp á kr. 128.930 mínus áheit og hlutur meðaðila.
Ég tek líka fram að ég er ekki meðaðili vinningshafans. Það er lítil stúlka, sem á fyllilega skilið að fá marga lottóvinninga í lífinu.
Sem sagt hafið ekki áhyggjur af þessum stóra lottóvinningi sem er eiginlega orðinn að engu. Ég lofa því að falli almennilegur vinningur í skaut vinningshafans og hans meðaðila skal ekkert ykkar nokkru sinni frétta af því og allir geta því sofið rótt og vært þess vegna. Það verða aðrar áhyggjur að halda fyrir ykkur vöku.
En burtséð frá þessu öllu þá var gleðilegt að þessi lottóvinningur skyldi koma til okkar fólks og ekkert hægt að gera nema þakka Guði, forsjóninni og Íslenskri Getspá fyrir þessa rausn.
FJARVERA Á JÓLUM
Ég sá að bloggi Einars Bjarna að hann verður fjarri góðu gamni, spúsu sinni, Mallorka-konungsdæminu og Fróni sjálfu á jólunum. Ég get sagt þó nokkrar hryllingssögur af jólum, þar sem hjón þurftu að vera aðskilin vegna sjóferða og náms erlendis. Þær eru allar í anda sögunnar um hið hræðilega fjarskiptaleysi á námsárunum í Sovét, sem birtist nýlega á blogg-síðum mínum. Ég er ekki í vandræðum með að toppa þessa lífsreynslu.
Þetta er auðvitað frekar dapurlegt, en jólin koma þó einu sinni á ári. Hugsið ykkur ef þið missið af einhverju, sem gerist bara einu sinni á ævinni.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:39 e.h.




Powered by Blogger