Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, október 21, 2005 :::
 
Hæ,
Undanfarið hef ég séð að margir bloggarar hafa klukkað hina og þessa í fimm staðreynda klukkleiknum. Ég hef farið með veggjum vikum saman vegna þess að enginn hefur klukkað mig og verið þjáð af áhyggjum yfir því að næstum enginn lesi bloggið mitt og hinum örfáu lesendum mínum finnist líf mitt svo tilbreytingarsnautt og innihaldslaust að ekki taki því að klukka mig.
En lífið er alltaf einn allsherjar misskilningur. Ég fór fyrir misgáning inn á bloggsíðu Raxellu, sem ég hélt að væri búið að loka og komst þar með að því að ég hafði verið klukkuð fyrir þrem vikum. Ég hef sem sagt vaðið í villu og svíma vikum saman, (ekki í villu og síma – eins og einhver snillingur sagði) yfirkomin af örvæntingu og sannfærð um að vinsældir mínar væru langt fyrir neðan núll. Ég skrúfaðist öll upp við þessa staðreynd og fannst ég vera komin í því sem næst postulatölu. Takk fyrir að klukka mig!
Svo þyrmdi yfir mig þegar ég átti að fara að skrifa fimm staðreyndir um sjálfa mig og skyndilega varð mér ljóst að þetta er ekki svo einfalt. Staðreyndirnar eru miklu fleiri en fimm og ekki allar birtingarhæfar, því auðvitað vill maður draga upp sem fegursta mynd af sjálfum sér sem óaðfinnanlegri og aðlaðandi persónu.

Fimm staðreyndir um sjálf mig:
1. Ég bölva ekki. Fyrir nokkrum árum hætti ég að nota blótsyrði, en held að ég hafi ekki bölvað neitt sérstaklega mikið fyrir. Þá var dótturdóttir mín að byrja að ganga í skóla og lét blótsyrði falla um gleymsku eða mistök. Ég hrökk við þegar litla fatlaða stúlkan í hjólastólnum bölvaði og ég hugleiddi hvar hún hefði lært þetta ljóta orð. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það gæti verið beint frá mér sjálfri. Ég ákvað að hætta að nota blótsyrði og hef staðið við það. Nú hrekk ég við þegar ég heyri fólk blóta. Hvað haldið þið að ég hrökkvi oft við á dag? Mörgum sinnum.
Ég læt augljóslega aðra hafa sterk áhrif á mig.

2. Ég hef átt erfitt með svefn í næstum 40 ár. Ég hef vaknað mörgum sinnum á hverri nóttu síðan ég var rúmlega tvítug. Það er saga til næsta bæjar ef ég sef heila nótt án þess að vakna, en slíkur stórviðburður hefur gerst þrisvar sinnum undanfarin tíu ár. Ég hef aldrei tekið svefnpillur við þessum kvilla og hélt lengi vel að þetta væri eðlilegur hlutur og fólk lægi vakandi í myrkrinu um hánótt um öll lönd og álfur og biði þess þolinmótt að sofna aftur.
Ég tek líklega hlutunum sem sjálfsögðum og er greinilega ekki nógu spurul.

3. Ég er haldin útþrá. Mér finnst ég hafa séð alltof lítið af heiminum. Ég hef komið til 24 landa í þrem heimsálfum. Þau lönd falla öll undir það sem í okkar heimshluta eru talið til hins siðmenntaða heims. Mig langar að ferðast meira og sjá menningu og lífshætti þjóða sem eru okkur gerólíkar. Mig langar líka til að vera íbúi í milljónaborg með iðandi mannlífi og listmenningu. Samt hangi ég alltaf á sömu hundaþúfunni.
Langar að breyta til, en vil ekki sleppa því sem ég hef.

4. Ég er alveg hundlöt, en tekst að láta fólk halda að ég sé þrældugleg og víkingur til verka. Yfirleitt finnst mér verkin stjórna mér, en ekki ég verkunum.
Ég er sennilega góð leikkona.

5. Ég er góð leikkona. Þegar ég var sautján ára lék ég Línu langsokk í samnefndu leikriti norður á Akureyri. Ég var meira að segja með lifandi apakvikindi á öxlinni, sem mér var afhent fimm mínútum fyrir frumsýningu og mátti ekki á milli greina hvort var hræddara við hitt. Apakötturinn klóraði mig til blóðs á höndum og handleggjum og meig síðan og skeit stanslaust ofan í sárin. Engum datt í hug að gera athugasemd við þetta og síst mér sjálfri. Fórnfýsi listamannsins í hnotskurn!
En annar eins listasigur hafði ekki verið unninn þar á sviði og þótt víðar væri leitað. Þegar ég fór niður í bæ daginn eftir frumsýningu var starað á mig og ég heyrði fólk hvísla sín á milli að þarna væri stelpan sem léki Línu langsokk. Það var náttúrulega ekki verið að segja slíkt upphátt, fólk var svo miklu hæverskara, kannske bara bældara, á þeim árun en í dag.
Meðan sýningar stóðu yfir og lengi á eftir var starað á mig aðdáunaraugum hvar sem ég kom og aldrei á ævi minni hef ég upplifað svo taumlausa aðdáun. Börn kölluðu Lína langsokkur á eftir mér hvar sem ég birtist. Og þessi frægð var engin stundarfrægð skal ég segja ykkur. Þegar ég var komin að því að taka stúdentspróf var ég ásamt vinkonu minni úti að ganga og þá kallaði einn af mínum dyggu aðdáendum hástöfum á eftir mér: “Lína langsokkur!” Kannske var þessi langvinna frægð því að þakka að ekkert barnaleikrit hafði verið sett upp í sýslunni frá því að ég steig á fjalirnar.
Umfjöllun um þessa sýningu rataði inn í bók um leiklist á Akureyri og þar var mynd af mér ásamt fleiri leikurum. Í myndatexta stóð nafn mitt og í sviga að ég væri látin. Ég get því sagt eins og Mark Twain: “Fréttirnar af andláti mínu eru stórlega ýktar.”
Nú er leiksigur minn í hlutverki þessarar heimsfrægu sögupersónu líklega löngu fallinn í gleymsku og dá, bara skemmtileg minning eftir.
Ekki veit ég hvað þetta síðasta segir um mig, líklega að ég sé alltof langorð.

Ég klukka Gunnu, Þuru og Þór.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:38 e.h.


mánudagur, október 17, 2005 :::
 
Hæ,
Ég ætlaði ekki að tjá mig meira um Baugsmálið, en ég verð að láta þennan pistil flakka, aðallega vegna þess að ég skrifaði hann að mestu fyrir nokkrum dögum. Ég tími ekki að láta hann fara forgörðum, en veit vel að þjóðin er löngu orðin hundleið á þessu klúðursmáli og er tilbúin til að skipta sér að nýju í tvær algerlega andstæðar fylkingar um eitthvert þjóðþrifamál, t.d. hvort eigi að taka upp nýjar mjólkurumbúðir eða breyta strætisvagnaleið um einhvern útnára. Ég segi og skrifa að þetta verður síðasti pistillinn um þetta mál, nema eitthvað verulega skemmtilegt og hneykslanlegt eigi eftir að koma fram í þessum grátbroslega harmleik.
Mér fannst Spaugsstofan í hlutverki Baugstofunnar um daginn ekkert mjög fyndin og það tók mig nokkurn tíma að átta mig á hvers vegna. Það er vegna þess að raunveruleikinn var svo dásamlega fyndinn og neyðarlegur að ekkert samið og leikið, þótt af snillingum sé, kemst í hálfkvisti við hann. Persónur og leikendur raunveruleikans sýndu slíkan stjörnuleik og takta, að þjóðin stóð agndofa með galopinn munninn og Spaugstofan bliknaði þar við hliðina.
Ég glotti auðvitað út í a.m.k. annað munnvikið þegar Jónína Ben fór fram á bætur frá Fréttablaðinu fyrir að birta tölvupóstinn hennar, eða glefsur úr honum, þar sem það hafði komið fram að blaðamennirnar höfðu sleppt ýmsu, sem ekki tengdist málinu og ég er svo sannarlega viss um að þar hafa ýmis krassandi atriði komið fram, sem margir hefðu notið þess að smjatta á. Já, hún fór fram á peningabætur vegna þess að Fréttablaðið hafði eyðilagt mannorð hennar. Það eru flestir á einu máli um að henni hafi tekist að eyðileggja mannorð sitt alveg ein og óstudd, þannig að hvorki tangur né tetur sé eftir af því og að ekki hafi þurft að kalla til neina hjálparsveit til þess. Dýr mundi Jónína öll, ef krafist er fimm milljón króna greiðslu fyrir mannorð, sem löngu er gengið fyrir ætternisstapa.
Þá verð ég að segja að Baugsmenn hafa kunnað að velja sér leikstjóra, handritshöfund, búningahönnuð og ljósameistara í allri sinni umgerð í þessu máli. Allt þaulhugsað og útspekúlerað. Síðasta útspilið var sett á borðið þegar tilkynnt var að nú yrði farið að undirbúa skaðabótamál eftir umsögn Hæstaréttar. Skaðabæturnar yrðu notaðar til samfélagslegra mála. Sem sagt notaðar til að greiða fyrir það sem ríkið á með réttu að borga í samfélagsneyslunni, en gerir ekki. Hátromp!
Ég er nú bara að hugsa um að hringja í Jóhannes í Bónus og segja honum frá því að mörg fötluð börn í Reykjavík þurfa að fara af stað með skólabílum fyrir klukkan sjö á morgnana til að ná í kennslustund, sem byrjar á bilinu átta til hálfníu vegna þess að það er verið að spara í akstrinum. Ég gæti líka sagt honum, að það þarf að keyra fötluð börn í Reykjavík heim eftir skóla og keyra þau síðan aftur eftir klukkustund í skammtímavistun, vegna þess að vaktin þar byrjar ekki fyrr en klukkan fjögur á daginn. Ég gæti sagt honum að mörg fötluð börn í Reykjavík fá ekki framlengdan skóladag. Ég gæti sagt honum frá því að þjálfun og æfingar fatlaðra barna í Reykjavík eru í lágmarki. Ég gæti sagt honum frá ýmsu sem fötluðum er hikstalaust boðið, sem enginn líkamlega heilbrigður einstaklingur mundi láta bjóða sér.
Svo tilkynnti JÓl að bæturnar frá Hannesi mundu renna til samfélagslegra þarfa. Er þetta að verða lenska? Kannske einstaklingar taki upp þann háttinn að greiða fyrir þjónustu, sem ríkið ætti umyrðalaust að láta af hendi, þannig að hin samfélagslega þjónusta hér á landi fari batnandi?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 3:33 e.h.




Powered by Blogger