Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, september 06, 2006 :::
 
Hæ,
Það er nóg úrvalið af gæðabókmenntum í hverfisbúðinni í mínu hverfi og ég kanna alltaf titlana við kassann, þótt ég hafi aldrei fundið hjá mér hvöt eða löngun til að kaupa helstu úrvalsbækurnar í flokki sjúkrahúss- eða spennusagna.
Í kvöld var eftirtöldum titlum raðað frá vinstri til hægri: Forboðnar ástir, Kostir hjónabands, Ok fortíðar og Heima er best.
Mér fannst verulega mikið lagt í uppröðunina og hún segja mikið til um örlagasögu einhvers, sem gæti verið aðalsöguhetjan í þessum bókum út í gegn. Saman gætu þær verið einn bókaflokkur um ástir og ævintýri, sem endar í öruggri höfn. Mér datt í hug að fenginn hefði verið doktor í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands til að raða bókunum eftir efnistökum og innihaldi. Einhvern veginn var ég efins um að krakkarnir í búðinni hefðu raðað svona nema af algerri tilviljun. En nóg um það. Ég man ekki betur en ég hafi skrifað langloku fyrir nokkru um bókmenntir í hverfisbúðinni minni.
Annað sem mér datt í hug við kassann í hverfisbúðinni. Aum er sú þjóð sem á atvinnuvegi sína og afkomu undir vináttu Dabba og Gogga. Er hægt að fara neðar?
Þegar heim kom beið mín spurningakönnun í tölvupósti, þar sem ég var beðin að svara nokkrum spurningum viðhorf mitt til nokkurra verslana. Það var einfalt. Ég gaf Bónus alltaf hæstu einkunn, hverfisbúðinni minni alltaf næsthæstu einkunn og einu sinni hæstu einkunn. Öðrum búðum gaf ég lægri einkunn og einni alltaf lægstu eða næstlægstu, enda hef ég gefist upp á að versla þar vegna okurverðs og starfsfólks, sem virðist ekki hafa nokkurn áhuga á því starfi, sem það á að inna af hendi. Hef bloggað um þá verslanakeðju fyrir nokkrum mánuðum.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 12:30 f.h.




Powered by Blogger