Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

föstudagur, janúar 09, 2004 :::
 
Hæ,
Jólin eru liðin og nýtt ár gengið í garð. Að venju er mikið fjallað um atburði liðins árs og reynt að kryfja þá til mergjar í Kastljósi, Tveggja manna tali, Íslandi í dag, Í bítið, Víðsjá, Kryddsíld og Guð má vita hvar ekki er tekið harkalega á málefnum hins liðna árs. Höfundur Halldórs fékk gagnrýnin skeyti frá bókmenntafræðingum, sem í fyrstu var tekið með þegjandi þögninni, síðan kom yfirlýsing um að hann væri í útlöndum við áríðandi fræðistörf, svo var tilkynnt að þetta væri hreinlega misskilningur - ekki af hans hálfu, heldur bókmenntafræðinganna.
Nú er höfundur Íslands - eða ætti ég að segja stjúphöfundur Íslands - kominn heim fyrr en ætlað var til að svara ásökunum illra manna, svo að nú ætti að vera hægt að útskýra þennan leiða misskilning og taka hina óréttmætu gagnrýni föstum tökum, sem auðvitað verður ekki gert nema með hjálp góðra manna. Nú skal sótt fram á öllum vígstöðvum. Nýlega birtist fyrsta árásarvers í Viðskiptablaðinu – takið eftir í Viðskiptablaðinu! Jakob F. Ásgeirsson pro Hannes H. Gissurarson. Ég vissi ekki að Viðskiptablaðið væri svona bókmenntalega sinnað.
Nú er höfundurinn búinn að halda blaðamannafund og vera með Kastljós í sjónvarpinu – ég verð að segja að þáttastjórnendurnir reyndu hvað þeir gátu að fá hann til að svara hárbeittum spurningum, en komust varla að fyrir orðaflaumnum í Hannesi, sem var afar mikið niðri fyrir – skiljanlega!

Í VONDU SKAPI EÐA GÓÐU?
Gamlársdagur rann upp bjartur og fagur. Um hádegisbil var hafist handa við að gera upp gamla árið á Stöð 2 með helstu stjórnmálaforkólfum landsins. Forsætisráðherra kom of seint í þáttinn vegna þess að hann var í upptöku áramótaávarpsins. Hann kvaðst vera í góðu skapi, gerði að gamni sínu, það virtist vera gaman að lifa og þjóðin varpaði öndinni léttar. Það er nefnilega svo leiðinlegt þegar forsætisráðherrann er í vondu skapi og horfir illskulega á þjóðina. Allir fá að tilfinninguna að þeir hafi gerf eitthvað hræðilegt af sér og ekki að ástæðulausu, þar sem talsverður hluti Íslendinga ætti að vera með vonda samvisku yfir að hafa sniðgengið Davíð í síðustu kosningum.
Jæja, allt virtist ganga sæmilega og nokkuð áfallalaust, þar til fréttamaður spyr forsætisráðherrann um tilvist hans sem stofnfélagi í SPRON. Góða skapið hvarf eins og dögg fyrir sólu, enda ekki eftirlætisumræðuefni ráðherrans. Davíð hafði í borgarstjóratíð sinni gerst stofnfélagi í SPRON af einskærri góðmennsku fyrir orð vinar, sem hringdi í hann og bauð honum stöðu stofnfélaga. Hann lagði þetta á sig þótt ekki stæði vel á hjá honum peningalega og sá ekki fyrir að þessir peningar gætu síðar farið að ávaxtast verulega. Út af þessum vinargreiða væri nú komið fram við hann eins og hann hefði keypt hlut i klámbúllu. Svo urraði ráðherrann framan í þjóðina og yggldi sig á skjánum.

ENDALAUS YGGLIBRÚN
Hvað á svona framkoma að þýða gagnvart þjóðinni? Hvers vegna getur forsætisráðherrann ekki komið fram eins og manni í hans stöðu sæmir í áramótaþætti? Hvers vegna svarar hann ekki spurningunni málefnalega, t.d. á eftirfarandi máta: “Í borgarstjóratíð minni var mér boðið að gerast stofnfélagi í SPRON, sem ég þáði.” Búið. Svo má sjá til hvað fréttamenn segja í þessu sambandi og svara hreinskilnislega. Hvers vegna fór ráðherrann strax í vörn? Fróðlegt – það er eins og hann hafi ekki hreint mjöl í pokahorninu. Hvers vegna er hann ekki glaður og skemmtilegur fyrir framan þjóðina á síðasta degi ársins, reytir af sér brandara, býður gleðilega hátíð og þakkar liðna tíð?
Forsætisráðherrann hefur sýnt það ótal sinnum að hann getur verið verulega skemmtilegur og fyndinn í spjallþáttum, þegar hann hefur sjálfur lagt línurnar hvað umræðuefni varðar og öll óþægileg málefni eru fjarri. En það hverfur í skuggann hjá því að á öllum sínum valdaferli hefur hann oftsinnis misst stjórn á skapi sínu í fjölmiðlum, hreytt út úr sér fúkyrðum í garð fréttamanna, pólitískra andstæðinga og þjóðarinnar allrar.

VEL EÐA ILLA STADDUR?
Forsætisráðherrann sagði í skapillskukasti sínu út af SPRON og eign hans þar, að ekki hefði staðið vel á hjá sér fjárhagslega þegar stofnfélaga-tilboðið barst honum. Það liggur í augum uppi að annars hefði hann lagt meira af mörkum. Hann tók út sparnaðinn sinn hjá Kaupþingi-Búnaðarbanki um daginn þegar honum blöskraði kaupréttur og laun aðalgúbbanna þar. Hann átti á bók 400.000 kr, sem hann lét í veðri vaka að hann hefði sparað saman með súrum sveita gegnum árin. Sagði hógværlega að þetta væri nú ekki mikil upphæð, en hann vildi sýna fordæmi í þessu máli og hvetja fólk til að hverfa frá viðskiptum við bankann. Við skulum láta liggja milli hluta að forsætisráðherra, æðsti maður þjóðar, skuli hvetja heila þjóð til slíkra verka, hvort sem okkur líka aðferðir og laun forráðamanna Kaupþings-Búnaðarbanka. Að vísu fannst mér hann ekki geta sagt neitt um þetta mál – hann var búinn að selja bankann og ríkið átti hann ekki lengur.
En það var annað sem rifjaðist upp fyrir mér í þessu sambandi.
Fyrir nokkrum árum var eitthvað verið að fjargviðrast fyrir því að fólk hér hefði lítið til hnifs og skeiðar og gæti varla dregið fram lífið af þeim lúsarlaunum sem því væru skömmtuð. Þetta hafa örugglega verið einhverjir frá Vinstri Grænum, Samfylkingunni og verkalýðsfélögunum - auðvitað að VR undanskildu. Þá sagði forsætisráðherra í sjónvarpi, að sér gengi ágætlega að komast af, konan hans ynni samt ekki úti, en þeim tækist þó að leggja til hliðar. Það lítur út fyrir að honum hafi tekist að leggja fyrir rúmlega hálf mánaðarlaun á einhverjum árum eða áratug. Geri aðrir betur. Það er því ekki undarlegt að nú skuli hafa verið samþykkt eftirlaunalög, sem eru klæðskerasniðin fyrir forsætisráðherra, sem brátt hverfur úr símum stóli.

HVER Á SVONA MIKLA PENINGA?
Gunnar Helgason leikari sagði í einhverju sjónvarpsljósi er hann var spurður hvað honum fyndist um þá aðgerð forsætisráðherra að rífa peningana sína út út Kaupþingi Búnaðarbanka. "Hver á eiginlega svona mikla peninga í banka og það á þessum tíma mánaðarins?" Þá fannst mér afar fróðlegt að heyra og sjá Magnús Hafsteinsson segja í áramótaþættinum að sér hefði komið mjög á óvart hversu góð laun alþingismenn hefðu og hversu mikilla hlunninda þeir nytu. Gaman hefði verið að heyra meira um þau hlunnindi. Magnús fékk ekkert að tjá sig frekar um þessi mál, sjónvarpsmyndavélinni var snarlega beint í aðra átt. Skyldi forsætisráðherra hafa steytt hnefann eins og hann gerði í kosningaþættinum í beinni útsendingu í vor?

OPINBERUM DAVÍÐS OG HRAFNS
Svo kom nýársdagur. Margir voru enn að hugleiða áramótaávarp forsætisráðherrans frá kvöldinu áður, sem allt í einu varð einhvers konar bókmenntafræðingur og vitnaði fram og aftur í skáldskap. Nýtt hlutverk? Eða er hann að búa sig undir átök á bókmenntasviðinu?
En um kvöldið tók við hápunkturinn – ég veit ekki hápunktur hvers, dagsins, ársins, lífsins? Þetta var alla vega ekki hápunktur í mínum húsum. Opinberun Hannesar eftir forsætisráðherrann sjálfan í leikstjórn persónulegs vinar hans og talsmanns, Hrafns Gunnlaugssonar.
Ég verð að segja að ég horfði ekki á Opinberun Hannesar, Davíðs og Hrafns, sá aðeins brot úr því, en ég hef heyrt í nokkrum sem sáu það. Þeir sem ég hef talað við eru á einu máli um að verkið hafi verið frekar lágstemmt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Spurt var t.d. hvort forsætisráðherrann sæi ríkisstarfsmenn í því ljósi, sem þarna var varpað á aðalpersónuna og samstarfsmenn hennar. Þetta er þá hans mat á því fólki, sem fyrir hann vinnur. Davíð Oddsson er ríkisstarfsmaður á launum hjá íslenskum skattgreiðendum. Fellur hann þá ekki sjálfur undir þennan hóp? Er hann þá sjálfur eins og þetta aumingja fólk, kolbrenglað, snarruglað og algerlega tengslalaust við raunveruleikann?

MORGUNBLAÐIÐ GAF TÓNINN
Það var ekki verið að bíða með að láta þjóðina vita af því hversu mikils snilldarverks hún hafði fengið að njóta. Í Morgunblaðinu, sem barst inn um lúgur landsmanna nokkrum klukkustundum eftir frumsýningu, að morgni næsta dags, 2. janúar, birtist hástemmd lofgerð um verkið og því eitt fundið því til foráttu að einhver ritararæfill var frekar óljós persóna í meðförum höfundar. Þetta fór auðvitað mest í taugarnar á mér, því að ég er ritari og tók þetta auðvitað nærri mér fyrir hönd stéttarinnar.
Síðar um daginn fóru að koma ýmsir dómar um Opinberun Hannesar úr ýmsum áttum og í öllum þáttum. Þá var ekki stuðst við Morgunblaðið og þess boðskap. Í stuttu máli - menn tættu í sig verkið og rifu það niður, þar til ekki stóð steinn yfir steini. Boðskapurinn, myndataka, myndmálið, frammistaða leikstjóra, frammistaða leikara – allt fékk mínus-einkunn. Að vísu voru flestir leikaranna amatörar, eins og Hrafns er von og vísa.

KRUMMINN Á SKJÁNUM
Svo kom sjálfur Hvíti víkingurinn, Hrafn Gunnlaugsson, í Kastljós. Hann var að vísu í rauðum jakkafötum við þetta tækifæri, sennilega í tilefni jólanna, með slegið hár.
Krumminn á skjánum notaði HHG-aðferðina þegar hann var spurður um harkalega gagnrýni á myndina – þetta er misskilningur. Fólk skilur ekki listræna nálgun, þar sem verið er að segja söguna í fréttastíl. Krumminn á skjánum sagði að það ætti eftir að koma á daginn að hann hefði rétt fyrir sér og almenningur vissi ekkert hvað hann væri að tala um og hefði ekki nokkurt vit á kvikmyndalist. Sagði frá flókinni hljóðupptöku á ótal rásum, sem virtist slá allt út í Hollywood og að myndin hefði verið tvíklippt af tveim sérfræðingum. Sagði léttan brandara og hló góðlátlega. Að öðru leyti hafði hann engan áhuga á því sem aðrir viðmælendur voru að segja í þættinum og skoðaði á sér neglurnar eða starði annars hugar út í loftið.

DÝRT SPAUG EÐA ÓDÝRT?
Næsta dag kom fram hörð gagnrýni á fjármálahlið myndarinnar. Fjárframlag til hennar í heild nam milli 50 – 60 milljónum króna. Sérfræðingar í kvikmyndagerð vilja meina að kostnaður við hana sé 8 – 10 milljónir króna, nefna t.d. að engin sé leikmyndin, allt tekið og unnið á sem ódýrastan máta. Heyrst hefur eftir statista í myndinni – sem auðvitað fékk ekki krónu fyrir sinn snúð – að hann hafi ekki orðið var ið hljóðrásirnar hundrað og fimmtíu, sem framleiðandi gortaði ekki lítið af í beinni útsendingu fyrir alþjóð. Hljóðupptökutækið sem hann sá var varla meira en hljóðnemi á kústskafti. Krumminn á skjánum krunkaði í fréttunum um misskilning og fávisku þeirra sem létu svona lagað út úr sér.
Björgólfur-Bjórólfur setti 10 milljónir í púkkið rétt áður en honum hlotnaðist að kaupa Landsbankann. Þar á bæ er nægilegt skotsilfur. Svo hefur venjulegt fólk varla efni á því að fara í bíó, hvað þá stórar barnafjölskyldur!

EKKI LIFA ALLIR VIÐ SAMA VERULEIKA
Opinberun Hannesar var frumsýnt í sjónvarpi og næsta dag tekið til sýningar í kvikmyndahúsum. Hvernig er slíkt hægt? Spyr sá sem ekki veit. Er það til þess að þeir sem misstu af sýningunni í sjónvarpi geti farið í bíó og séð dýrðina? Verða þeir sem ekki láta sjá sig í bíó og horfðu ekki á sjónvarp á nýársdag sóttir á kvikmyndasýningu eða settir á svartan lista? Erum við öll í orwellskum heljargreipum Hannesar, Davíðs og Hrafns?

MIKIÐ Á SIG LAGT
Ég sé mest eftir því að hafa ekki gefið mér tíma og lagt á mig til að horfa á opinberun Hannesar á skjánum, því að ég fæ mig ekki til þess að fara í bíó til að sjá myndina. Ég er varla viðræðuhæf og get ekki tekið heils hugar undir þegar fólk talar af fyrirlitningu um þetta flipp forsætisráðherrans. Það rifjaðist upp fyrir mér staða eins vinar míns, sem lagði það á sig að horfa á Hvíta víkinginn, framhaldsmynd í fjórum þáttum eftir Hrafn Gunnlaugsson fyrir 10 – 12 árum. Hann sat við sjónvarpið ein fjögur kvöld og horfði á hvert einasta atriði frá upphafi til enda til að geta verið viðræðuhæfur um verkið á mannamótum og á vinnustaðnum. En hann hefði getað sleppt þessari fyrirhöfn og notað tímann til betri og hollari iðju, þar sem hann var aldeilis ekki viðræðurhæfur. Hann hitti nefnilega ekki einn einasta mann, sem hafði nennt að leggja það á sig að horfa á subbuskapinn úr Hrafni Gunnlaugssyni.
En ekki er öll nótt úti enn. Sennilega verður Opinberunin endurtekin í sjónvarpi innan tíðar, ekki seinna en um páska, svo að þjóðin verði öll viðræðuhæf og upplýst.
Kveðja,
Bekka

P.S. Á einhver upptöku af dýrðinni?


::: posted by Bergthora at 1:36 e.h.


 
Kæru lesendur,
Gleðilegt nýtt bloggár með innilegum þökkum fyrir liðna bloggárið.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 1:35 e.h.




Powered by Blogger