Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

miðvikudagur, desember 20, 2006 :::
 
Hæ,
Fyrir nokkrum árum bar svo við að tvær konur kærðu rússneska sjómenn á togara í Hafnarfirði fyrir nauðgun. Þær höfðu að næturlagi farið um borð til að athuga hvort þær gætu fengið keyptan fisk í heilu eða hálfu til búsins hjá skipverjum, en þessar hagsýnu húsnæður fengu heldur betur kalda meðferð. Rógtungur í Hafnarfirði sögðu að vísu að þetta væru bara skipamellur, sem hefðu farið um borð í hinum venjulegu erindagjörðum, þ.e. til að selja greiða, en tungumálaörðugleikar hefðu orðið til þess að einhverjir skipverja héldu að um væri að ræða ókeypis þjónustu og vinarbragð af hálfu Íslendinga og fært sér í nyt með glöðu geði.
Þetta dró heldur betur dilk á eftir sér, konurnar lögðu fram kæru, skipið var kyrrsett um nokkurra mánaða skeið og um þetta mál var fjallað í smáatriðum í öllum fréttum fram eftir sumri. Allir fréttatímar voru undirlagðir af þessum atburði og einhverjir smokkar með lífsýnum, eins og er svo flott að segja nú til dags, voru meginumfjöllunarefni sumarsins. Í hvert sinn sem sest var að matborði að morgni, í hádegi eða að kvöldi dags bar hver fréttastofan á fætur annarri nákvæma frásögn af smokkalífsýnunum í öllum smáatriðum á borð fyrir hlustendur. Að lokum var hnykkt á lífsýnunum í tíufréttum sjónvarps og kvöldfréttum útvarps, svo þetta skemmtilega og heillandi fréttaefni færi ekki fram hjá neinum. Loks endaði þetta mál einhvern veginn og gufaði upp í fréttatímum, rússneski togarinn hvarf á braut og konurnar úr sögunni – hafa vonandi lært einhver tungumál, svo ekki yrði um slíkan misskilning aftur að ræða.
Í gærkvöldi var á mínu heimili hlustað og horft á þrjá fréttatíma og einn fréttaskýringarþátt, þar sem næstum stanslaust var fjallað var um Guðmund í Byrginu og útrás hans á huggulegri hneigð, sem felllur undir BDSM-samtök Íslands. Varð mér þá að orði: “Verður nú getnaðarlimurinn á Guðmundi í Byrginu hangandi yfir matborðinu hjá manni næstu mánuði?”
Nú er líklega bara um eitt að ræða – að slökkva á fréttunum.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 5:55 e.h.


þriðjudagur, desember 19, 2006 :::
 
Hæ,
Það fer nú að verða nokkuð þreytandi hvað vinnan slítur í sundur fyrir mér jólaundirbúninginn og svo auðvitað líka allar tómstundir og svefn. Annríkið hefur verið þvílíkt undanfarnar vikur og mánuði, að ég hef ekki haft nokkurn frið til að blogga um lífreynslu mína og áhugamál. Ég er viss um að fróðleiksfúsir lesendur mínir eru orðnir langeygðir eftir viskupistlum mínum og lífsspeki.
Að vísu hvíldi ég mig frá annríkinu og dvaldi mér til hressingar og heilsubótar á hásléttu Spánar, þar sem ég bjóst við að verða boðin til tedrykkju í konungshöllina vegna beinna tengsla fjölskyldu minnar við fulltrúa hinnar eðalbornu fjölskyldu. En kóngur og drottning hafa sennilega ekki verið heima vikuna, sem við vorum í borginni, þar sem ekki birtist borðalagður erindreki hirðarinnar á tröppunum hjá okkur með boðsbréf með gullnu letri.
Er ekki alveg hægt að halda jólin án Jóa Fel? Ég var í búð nýlega og sá að hægt er að fá Jóa Fel-brauð, Jóa Fel-smákökudeig, Jóa Fel-ís, Jóa Fel-kryddað kjöt, Jóa Fel-konfekt, o.s.frv. Ég er búin að baka mínar gömlu kökur eftir aldagömlum uppskriftum, búa til ís eftir minni hefðbundnu uppskrift og get kryddað kjötið sjálf. Mér leiðist þessi Jóa Fel-dýrkun og finnst það sem ég geri miklu betra en hans afurðir.
Nú bíður laufabrauðið eftir mér. Á mínu heimili er búið að gera margar tilraunir tilað kaupa laufabrauð, en það hefur hingað til ekki gengið og því miður er því þannig varið að búðar-laufabrauðið hefur farið hríðversnandi undanfarin ár. Aftur á móti finnst mér mín uppskrift fara batnandi með hverju árinu sem líður og laufabrauðið sem ég bý til – algerlega frá grunni - bráðnar á tungunni og mér finnst eini gallinn á því að það klárast alltof fljótt. Svo slítur laufabrauðsgerðin auðvitað í sundur fyrir manni vinnudaginn.
Kallast þetta ekki að vera sæmilega ánægður með sjálfan sig?
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:19 e.h.




Powered by Blogger