Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

mánudagur, september 29, 2008 :::
 
Hæ,
Þegar ég sá forsætisráðherrann á skjánum á laugardagskvöldið eftir að hann hafði setið á fundum með öllum bankastjórum Seðlabankans, ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu, efnahagsráðgjafa forsætisráðherra/ríkisstjórnarinnar og fulltrúa fjármálaráðuneytis - svona rétt til að fara yfir stöðuna, atburði síðustu daga og sameiginleg verkefni eins og hann orðaði það svo hógværlega - varð mér að orði: “Sá lýgur nú laglega!”
Hann endurtók lygaleikinn á sunnudagskvöldið eftir að mikil og óvenjuleg fundahöld höfðu átt sér stað í forsætis- og fjármálaráðuneyti, hann væri búinn að vera fjarverandi um tíma - sem hafði að vísu farið fram hjá mér - og þyrfti að vera upplýstur um gang mála. Forsætisráðherra átti ekki sérstaklega von á að yfirlýsing vegna þessara viðræðna kæmi frá honum sjálfum eða ríkisstjórninni þann hinn sama dag eða hinn næsta dag. Sussu nei.
Í morgun varð svo ljóst hvers vegna menn höfðu verið að krunka sig saman og það var ekki til að fara yfir stöðuna og gefa ferðalöngum upplýsingar um nýjustu fréttir. Ekkert svoleiðis - heldur er búið að senda Glitni aftur heim í fangið á elsku mömmu, sem er alltaf tilbúin að borga brúsann, til mömmu með breiða bakið, sem munar ekki um að snara á sig byrðunum og ber þær með glöðu geði hversu sem þær síga í. Þar er sko ekki í kot vísað enda er þar seilst í vasa þjóðarmóðurinnar, kreist og pínt út úr almenningi.
Þrátt fyrir þetta hefur forsætisráðherra þá skoðun að almenning varði ekki nokkurn skapaðan um málefni Glitnis og skilur ekkert í því af hverju almenningur er sífellt að krefjast þess að fá að fylgjast með. Nokkrir fulltrúar almennings hafa gagnrýnt forsætisráðherra fyrir lygarnar upp í opið geðið á þjóðinni, en ég segi fyrir mig að ég er orðin svo vön því að sjá og heyra stjórnmálamenn ljúga, að ég kippi mér ekki upp við það og finnst það hreinlega orðinn hinn eðlilegasti hlutur. Enda hlýtur að vera hræðilega hvimleitt að vera með almenning síspyrjandi, krítiserandi og másandi upp í eyrað á sér. Það skín af ásjónu stjórnmálamanna hvað þeim finnst almenningur leiðinlegur og þreytandi. Í örvæntingu grípa þeir til þess ráðs að ljúga bara einhverju, sem þeir halda að sé sennilegt og trúlegt, til að bíta ófögnuðinn af sér. Gallinn er bara sá að það er ekki lengur hægt að ljúga að almenningi. Hann sér í gegnum lygina – sér að keisarinn stendur allsber frammi fyrir þjóðinni.
Svo er spurning hver það er, sem er allsber. Er það núverandi forsætisráðherra eða er það Bubbi kóngur, sem virðist orðinn yfir öllu innanbúðar í ríkisstjórninni, sá er tilkynnti þjóðinni um aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi Glitni rétt eins og slíkt væri eðlilegt og sjálfsagt, rétt eins og hann væri talsmaður hennar? Það má ekki gleyma því að Bubbi kóngur hefur lengi haft horn í síðu stærsta hluthafa Glitnis, svo mjög vægt til orða sé tekið, og beðið færis eftir að koma höggi þar á.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:15 e.h.




Powered by Blogger