Gamalt
Í LÍFSINS ÓLGUSJÓ  

ÞAÐ GEFUR Á BÁTINN...


Home Archives Contact

þriðjudagur, september 16, 2003 :::
 
Hæ,
Skrapp úr vinnunni í einn klukkutíma í sendiferð. Ég er svo heppin að fá að sjá um innkaup gjafa fyrir fyrirtækið. Ég fer alltaf og kaupi eitthvað sem mig sjálfa blóðlangar í. Ég fór í Gallerí List og keypti eina brúðargjöf og tvær afmælisgjafir. Brúðargjöfin var æðisleg, stór kúlulaga gólfvasi í jarðarlitum eftir Rögnu Ingimundardóttur. Hann virkaði eins og kuðungur þegar talað var eða blásið í hann - þá hvein og söng í honum.
Afmælisgjafirnar voru vatnslitamyndir eftir Þórunni Guðmundsdóttur og Nikulás Sigfússon, sem málar yndislegar myndir. Málaralistin er aukadjobb hjá honum, því hann er eða var hjartaskurðlæknir að aðalstarfi. Hvernig væri að snúa þessu við og standa með litatrönurnar daginn út og daginn inn, en grípa í eins og einn og einn uppskurð á kvöldin og um helgar fyrir vini og kunningja í neyð? Mér finnst ég heppin að fá að velja gjafirnar fyrir fyrirtækið og enn þá heppnari að þurfa ekki að borga þær sjálf. Ég vona að þær falli í góðan jarðveg hjá þiggjendunum.
Stelpurnar í vinnunni voru alveg æstar þegar þær sáu gjafirnar og dauðlangaði í listmuni að gjöf. Ég var að segja þeim að þær yrðu að gifta sig til að fá eitthvað þessu líkt eða eiga merkisafmæli. Ekkert slíkt í uppsiglingu hjá þeim, ein harðgift, önnur fráskilin og sú þriðja nýskilin. En þar sem allt er orðið svo frjálslegt og opið nú til dags, gæti maður þá ekki gift sig einn alveg eins og að giftast einhverjum af sama eða gagnstæðu kyni? Fínt fyrir einhleypinga, sem vilja skipta um skrautmuni og leirtau að bjóða til giftingarveislu og vera með óskalista í verslununum Tékk-kristall og Borð fyrir tvo. Tilbreyting í munka- og nunnulífinu að vera með brúðkaup í klausturstíl. Nýtt heimili - einn einstaklingur ánægður.
Svo gætu þrír eða fjórir bundist í hjónabandi. Það gæti líka verið nokkuð hentugt. Bæði væri hægt að hala inn verulegt magn af afburða fögrum og nytsömum gjöfum og skapa ægifagurt heimili, sem hægt væri að sýna hjá Völu Matt í Innlit-Útlit undir söngnum: "Frábært og brillíant". Eins er ábyggilega gott að skipta verkunum niður á svo marga húsráðendur. Færri verk á hvern og einn - allir ánægðir.
Kveðja,
Bekka

::: posted by Bergthora at 6:26 e.h.


mánudagur, september 15, 2003 :::
 
Hæ,
Enn ein helgin er liðin. Það er farið að hausta og styttast í veturinn. Á föstudaginn var fylgdum við frænda Eyjólfs til grafar. hann lést 52 ára úr krabbameini. Óréttlátt og ósanngjarnt. Þar hittum við marga ættingja og kunningja. Því miður er það svo að stórættin hittist orðið aðeins þegar einhverjum er fylgt til grafar. Í erfidrykkjunni segja allir í sífellu: Við verðum að fara að hittast, ekki bara við útfarir. Oftast eru þetta orðin tóm.
Þuríður og Snorri, vinir okkar frá Selfossi, komu til okkar á föstudagskvöld með eina eriku í sellófani, auðvitað voru þau boðin í kvöldmat. Hverjum dettur nú orðið í hug að banka upp á hjá vinum sínum fyrirvaralaust? Engum. Við áttum skemmtilegt kvöld, kýldum vömbina og ýmsar gamansögur fengu að fljúgja. Þau hjón eru ekki í vandræðum með að lýsa hlutunum. Smádæmi: Snorri segist vera eins og "krossfestur hundur" þegar annríkið er að gera út af við hann. Þau keyrðu svo eftir miðnætti heim yfir heiðina í brjáluðu illviðri á hvitri Benz-drossíu, Þuríður berfætt í bandaskóm með uppsett hár eins og senjoríta.
Gullý, vinkona okkar, búsett í borginni vinsælu, Barcelonu, kom yfir hafið og við vorum mætt á Keflavíkurflugvöll kl. 02:00 aðfararnótt sunnudags til að taka á móti henni. Komin heim rétt fyrir kl. 03:00! Ég bara veit ekki hvað eru mörg ár síðan við fórum svona seint í rúmið um virka helgi. Samt voru allir komnir á fætur kl. níu á sunnudeginum og við sátum lengið við morgunverðarborðið og spjölluðum saman. Gully var ánægð með brauðið og bollurnar sem ég hafði bakað í tilefni komu hennar til landsins. Við fórum síðan út og sýndum Gullý Elliðaárdalinn. Á göngu okkar þar mættum við Kaju og Árna, sem skálmuðu eftir dalnum eins og þrautreyndir fjallagarpar. Alltaf er jafngaman að hitta þau. Eftir hádegið fór Gullý norður til Akureyrar til hálfs mánaðar dvalar. Ég trúi að henni finnist munur á hitastigi hér og heima hjá sér.
Giovanna bauð okkur hjónunum í kveðjukaffi síðari hluta sunnudagsins- Hildigunnur er á leið til Parísar, verður búsett þar í vetur. Franskan fór aðeins að skjóta upp kollinum hjá mér við tilhugsunina um íslensku snótina í 18. hverfi, ef maður skyldi einhvern tíma þurfa að spyrja innfædda til vegar til að komast í einn expressó-kaffi og croissant hjá henni. Hún er búin að lofa því að blogga og ég vona að hún hætti ekki að birta pistla þótt hún fari til útlanda.
Góðar veitingar hjá Giovönnu, gott fólk, góð stund í sólríkri og heimilislegri stofunni á Fjölnisvegi 4. Takk fyrir, elsku Jóhanna!
Við komum við hjá Sigrúnu Sól og fjölskyldu á leiðinni heim úr kaffinu hjá þeim mæðgum. Úrsúla Örk svaf í kerrunni sinni úti í garði, en Agneta var þar í heimsókn og skreið um gólfið leitandi að mömmu sinni með háværum ópum ef hún hreyfði sig úr stað. Við fórum með SSól í heimsókn í nýju íbúðina hans pabba hennar í Asparfellinu. Okkur leist ljómandi vel á íbúðina, þótt margt þurfi að gera þar. Afi og SSól fengu sér göngutúr yfir í Jötunsalina, en ég keyrði heim og setti mat á borð fyrir göngugarpana.
SSól var svo keyrð heim nokkuð fljótlega eftir matinn og við gömlu hjónin fórum snemma í háttinn eftir að hafa vakað svo óskaplega lengi kvöldið áður eða jafnlengi og vökustaurarnir í Barcelonu, sem sátu við DVD-gláp samkvæmt blogg-upplýsingum.
Kveðja,
Bekka



::: posted by Bergthora at 3:08 e.h.




Powered by Blogger